Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:21:00 (2754)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Skipaútgerð ríkisins hefur verið eins og járnbrautarsamgöngur eru í öðrum löndum og sinnt mikilvægu hlutverki. Hinu er ekki að leyna að við höfum bætt vegi þessa lands og það blasir við að viðskiptaaðilar hafa stöðugt aukið sókn í það að meira og meira verði flutt á landi. Það blasir líka við að tveir hópar hafa litið svo á að vafi væri um hvort sá styrkur sem veittur er Ríkisskip væri byggðastyrkur við landsbyggðina eða höfuðborgina þar sem dregið hefur úr því að heildsalar úti á landi ættu samkeppnisrétt við þá sem hér eru. Það eru tvær hliðar á þessu máli.
    Aftur á móti er gersamlega óþolandi í þeirri stöðu, sem menn eru nú í, að um miðjan vetur liggur það fyrir að engar upplýsingar hafa borist út til byggðanna um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst taka á málinu. Það er kjarni málsins og þungamiðja. Það fundarform sem hér er notað dugar ekki til upplýsinga. Sennilega hefði hæstv. ráðherra þurft að gefa skýrslu um þetta mál. Óvissa er í byggðamálum Vestfjarða --- hvað á að taka við? Hægt er að leysa þessi mál, það vita menn, þó að þessi breyting verði gerð. En hvað á að taka við? Hins vegar þykir mér mjög slæmt að ég hélt að þetta mál væri í reynd hafið yfir pólitík. Ég fagnaði því þegar hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson fór í það verk sem hann

tók að sér í þessum efnum og ég hélt að menn ætluðu að standa að þessu á þann veg að látið yrði reyna á það til þrautar hvort aðilar vildu kaupa þennan rekstur og endurskipuleggja hann. Hins vegar hefur það komið fram að óvissa er um það atriði og það þykir mér mjög miður.
    Ég ítreka við hæstv. forseta að þessi umræða sannar að í þessu tilfelli hefði þurft að biðja um skýrslu um þetta mál. Það fundarform, að hæstv. ráðherra geti ekki einu sinni sagt nema örlítið af því sem hann ætlar að segja þannig að við erum jafnilla upplýstir um hvað á að gera, gerir það að verkum að þetta verður hálfgert skop í framkvæmd, hæstv. forseti. Það gengur ekki að standa þannig að ræðuhöldum hér í þinginu að ekki sé hægt að gera vitsmunalega grein fyrir því sem er verið að tala um.