Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:39:00 (2763)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Ég ætla að ítreka ósk mína um það að samgn. þingsins taki þetta mál fyrir. Reyndar sé ég að hér er væntanlega hv. formaður samgn. og þess vegna get ég milliliðalaust komið þeirri ósk á framfæri. Ég tel að þetta sé dæmigert mál fyrir fagnefnd þings til að taka til umfjöllunar, ekki síst í því ljósi að hér er jafnskammur tími til umræðu um málið og raun ber vitni. Ég tel líka að fordæmi séu fyrir því að þegar þingnefndir hafi tekið mál sjálfstætt upp með slíkum hætti hafi það gefist vel. Nýjasta dæmið er í dag þar sem efh.- og viðskn. hefur einróma afgreitt það mál sem hún hefur haft til skoðunar varðandi síldarsölu til Sovétríkjanna með bréfi frá sér. Ég tel að hér sé fyrst og fremst á ferðinni mál sem varði verksvið samgn. þingsins. Þetta eru samgöngur sem við erum að ræða. Spurningin snýst um það hvort við eigum að halda uppi þessum samgöngum eða ekki. Það er mál samgn. Alþingis sem m.a. hefur það hlutverk að úthluta fjármunum í þessu skyni, sem enn eru sem betur fer veittir til þess að tryggja samgöngur á sjó víða í landinu, og hún á að fara yfir þau mál því ljóst er að það stefnir í hreint óefni um þessar mundir hvað þessar samgöngur snertir. Hæstv. ráðherra getur ekki afgreitt málið með

þeim hætti sem hann hefur reynt hér. Spurningin snýst ekki um skiparekstur Samskipa eða Eimskipafélags Íslands heldur um það hvort þeir staðir sem lakasta hafa stöðuna í þessum efnum njóti áfram þjónustu af þessu tagi eða ekki og hvort sú þjónusta verður þá á viðráðanlegum kjörum fyrir þessa staði. Ég tel ekki að Alþingi geti skilið við málið í lausu lofti eins og það er og ég furða mig á ummælum hæstv. samgrh. hér áðan sem lét að því liggja að afskipti þingsins væru af hinu illa í þessu máli. Hann tók jafnvel svo til orða að ,,ef þingið skapaði ekki óvissu um þetta mál`` og var að skilja hæstv. samgrh. svo sem hann væri andvígur því að Alþingi tæki málið til umfjöllunar.
    Ég ítreka þess vegna ósk mína, hæstv. fjmrh., af því að ég sé að hæstv. fjmrh. er enn tekinn til við að aðstoða forseta við fundarstjórnina sem ég tel að sé um þingsköp, hæstv. fjmrh., að fara fram á það að ein af fagnefndum þingsins taki þetta mál til skoðunar. Það varðar vinnubrögð, skipulag og tilhögun starfanna í þinginu og það ræða menn undir liðnum þingsköp, hæstv. fjmrh., í eitt skipti fyrir öll. Vonandi fer þetta að skýrast fyrir hæstv. fjmrh. sem er búinn að sitja á þingi lengi með litlum árangri a.m.k. hvað það snertir að kunna á þingsköpin.
    Ég óska eftir því, af því að ég sé að hér situr í salnum hv. formaður samgn., sem mun vera hv. 3. þm. Reykn., að samgn. taki þetta mál fyrir.