Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:47:00 (2766)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
     Frú forseti. Í góðu samkomulagi forseta og formanna þingflokka var ákveðið að hafa hálftíma umræður utan dagskrár um þá spurningu sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bar fram. Hæstv. samgrh. svaraði ekki þeirri spurningu, um það held ég að mönnum geti ekki blandast hugur og það kallar á þessa þingskapaumræðu að menn geri athugasemdir við að hann skyldi ekki svara þeirri spurningu skýrt og skorinort.
    Á ræðum hæstv. ráðherra mátti skilja það að hugur hans stæði til þess að selja ms. Esju Samskipum hf. Á ekki mjög kurteislegu bréfi sem ég er hér með ljósrit af til Hjartar Emilssonar, sem er einn af fyrirsvarsmönnum þess hóps sem óskar eftir að leggja fram tilboð í eignir Skipaútgerðar ríkisins, má líka skilja það að honum er ekkert sérstaklega ljúft að eiga samtöl við þann hóp. Því vil ég spyrja: Hvað ætlar hæstv. samgrh. að gera við aðrar eignir Skipaútgerðar ríkisins en ms. Esju? Úr því að ráðherra hefur ekki upplýst þetta mál með fullnægjandi hætti á þinginu á þeim tíma sem til þess var markaður þá tel ég óhjákvæmilegt að hann gefi Alþingi munnlega skýrslu strax eftir helgi um málið og hvernig hann hyggst meðhöndla það. Ég tel að þetta sé mál sem varðar ekki bara örfá byggðarlög í landinu heldur landið allt. Það varðar siðlega viðskiptahætti í þessu landi.