Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:14:00 (2792)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hér hljóðs eru þau ummæli forseta sem fram komu í tilefni af ræðu sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir flutti hér sem andsvar við ræðu hæstv. samgrh. Í ræðu sinni vakti hv. þm. Guðrún Helgadóttir athygli á því að þegar þingmenn gengu hér af fundi í gær heyrðu þeir nokkrum mínútum seinna fréttamann Ríkisútvarpsins skýra frá því að þegar hefði verið gerður samningur milli samgrn. og Samskipa um leigu á einu skipi Skipaútgerðar ríkisins. Ef þessi frétt er rétt þá er alveg augljóst að hæstv. samgrh., svo að notað sé kurteislegt orðalag, hefur leynt Alþingi í umræðum í gær þeirri staðreynd að samningur hefði verið gerður, gengið svo langt að tala gegn betri vitund hér í þingsalnum og gefa þinginu ósanna lýsingu á því hvernig málið stóð eða þá að embættismenn hæstv. samgrh. hafa gert samning um leigu á ríkiseign án þess að ráðherrann hafi vitað eða samþykkt það. (Gripið fram í.) Ég er að spyrja að því, hv. þm., vegna þess að enginn embættismaður hefur heimild til að ganga frá leigu eða sölu á ríkiseign án þess að ráðherrann hafi annaðhvort fyrir fram heimilað embættismönnunum að ljúka samningsgerðinni eða samþykkt hana sjálfa. Það liggur því alveg ljóst fyrir að sé þessi frétt Ríkisútvarpsins í gærkvöldi rétt, þá hefur samgrh. annaðhvort áður en hann kom hingað á fund Alþingis í gær heimilað embættismönnum sínum að ljúka samningsgerðinni meðan umræðan stóð hér í þinginu án þess að ráðherrann segði þinginu frá því --- en hann talaði þannig hér í gær að engan einasta þingmann hefði getað rennt grun í að ráðherrann væri búinn að taka þá ákvörðun að leigja skipin til Samskipa --- eða þá að embættismennirnir hafa tekið þessa ákvörðun upp á eigin spýtur sem þeir hafa enga heimild til. Það er þess vegna, virðulegi forseti, alveg hárrétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að hér er komin upp staða sem forseti þingsins getur ekki látið afskiptalausa né heldur þingheimur. Það er grundvallarskylda í þingræðisríkjum að ráðherrar greini þinginu satt og rétt frá. Það eru fjölmörg dæmi þess í þingræðisríkjum, sem taka sig alvarlega sem þingræðisríki, að ráðherra, sem verður ber að því að hafa ekki greint þinginu rétt frá, sagt ósatt eða leynt upplýsingum í mikilvægum umræðum, er látinn segja af sér.
    Hver er æðsti trúnaðarmaður þingræðisins? Það er hæstv. forseti. Hann er kjörinn hér til að vera æðsti trúnaðarmaður þingræðisins. Þetta er ekki flokkspólitískt karp, hæstv. forseti og hæstv. samgrh. Þetta er spurning um gildi grundvallarreglu þingræðisins sem okkur ber öllum að halda í heiðri hvar í flokki sem við stöndum. Þess vegna er óhjákvæmilegt að fá upplýst hvort frétt Ríkisútvarpsins, flutt kl. rúmlega 7 í gærkvöldi, hafi verið rétt því að ef hún reynist hafa verið rétt þá er það alveg augljóst að hæstv. samgrh. hefur ekki greint þinginu rétt frá, leynt þingið veigamiklum þætti þessa máls eða þá, sem ég trúi ekki af kynnum mínum af ráðuneytunum, að embættismenn í samgrn. hafi tekið þessa ákvörðun án þess að ráðherrann hafi verið búinn að heimila þeim það. Þess vegna er það óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að fram fari könnun á því sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir spurði hér um. Var frétt Ríkisútvarpsins rétt? Ef hún reynist vera rétt þá er forseta Alþingis og þinginu öllu mikill vandi á höndum því að þá stöndum við frammi fyrir því að hæstv. samgrh. hefur komið þannig fram við þingið að það er brot á þeirri grundvallarreglu þingræðisins sem ég lýsti hér áðan.