Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:42:00 (2795)


     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Hér hefur sama málið verið rætt tvo daga í röð og í bæði skiptin hefur það komið fram af hálfu fleiri en eins ræðumanns að tími var of knappur til að gera því einhver tæmandi skil. Það er því ljóst, virðulegi forseti, að það er nauðsynlegt að ræða þessi mál og gefa sér rýmri tíma til þess en við höfum hér í dag og höfðum í gær.
    Ég vil ítreka þá ósk, sem ég bar fram í gær, um að þetta mál yrði rætt frekar á næstu dögum og ég fer formlega fram á það við hæstv. forseta að hann athugi hvort ekki væri hægt að ræða þetta mál nk. mánudag og gefa mönnum nokkuð rúman tíma til umræðna. A.m.k. finnst mér sjálfum ég þurfa að verja hendur mínar sem stjórnarnefndarmaður í Skipaútgerð ríkisins þar sem hæstv. ráðherra hefur í tvígang vegið að mínum störfum þar.
    Ég vil þó aðeins segja um það sem fram kom í máli hæstv. samgrh. undir liðnum gæsla þingskapa hér áðan að það kemur mér á óvart að heyra að samningur sé til milli Samskipa og Ríkisskipa í samgrn. Það var fundur í stjórn Skipaútgerðarinnar í morgun og sá samningur var ekki sýndur þar en einungis greint frá því að samningar milli samgrn. og Samskipa lægju fyrir þótt ekki væru þeir undirritaðir. Ég vil leggja á það áherslu hvað varðar stjórnarnefndina að viðræður við undirbúningsnefndina voru teknar upp að höfðu samráði við nefndina og þá gaf hæstv. ráðherra út yfirlýsingar um það að ekki yrði rætt við aðra aðila á meðan og hét því m.a. á fundi með starfsmönnum. Hann hefur hins vegar kosið að ganga á bak þeirra fyrirheita sem hann gaf, bæði skriflega og munnlega, og tók upp viðræður við Samskip áður en sá lágmarksfrestur var liðinn sem tilskilinn var. Ég tel nauðsynlegt, virðulegi forseti, að m.a. gera grein fyrir því.
    Þá vil ég líka bera það til baka sem fram kom í máli hæstv. ráðherra hér áðan undir sama dagskrárlið, gæslu þingskapa, að ef ekki hefði verið samið við Samskip hf. strax mundu þeir fara og festa kaup á skipi erlendis. Eftir því sem ég best veit munu ekki vera til sölu nein skip erlendis sem henta strandsiglingum á Íslandi þannig að ég sé ekki að þeim verði neitt ágengt á því sviði og ég hygg að Samskipum hf. sé það fullljóst. Ég vil upplýsa það sem kom fram á fundi stjórnarnefndar 7. jan. sl. Þar var lagt fram minnisblað sem greindi frá því að Samskip hf. hefðu gert tilboð í eitt skipa félagsins í því skyni að tryggja hagsmuni sína ef viðræður við undirbúningsnefndina rynnu út í sandinn og yrðu árangurslausar. Þetta minnisblað var lagt fram því til staðfestingar eftir samtal forstjóra fyrirtækisins við forstjóra Samskipa hf. Hæstv. ráðherra heldur því fram að þær upplýsingar sem ég hef séu rangar því annars hefði orðið hætta á því að Skipaútgerðin eða ríkið missti af væntanlegri leigu á skipinu. Hér kemur þvert á móti fram að Samskip hf. mundu sætta sig við að bíða eftir viðræðum ef viðræður við undirbúningsnefndina bæru engan árangur. Upplýsingum sem stjórnarnefndin fékk ber því ekki saman við þær sem ráðherra hélt fram áðan.