Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:48:00 (2797)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Höfuðádeiluefni hv. þingmanna er að ég hafi haldið því leyndu í gær

að viðræður stæðu milli ríkisstjórnarinnar og Samskipa um kaup á eignum Skipaútgerðar ríkisins. Af þeim ástæðum er óhjákvæmilegt að ég lesi orðrétt stuttan kafla úr ræðunni sem ég flutti í gær. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við erum því að tala um að íslenskt skipafélag, sem nýtur trausts með ströndinni, taki yfir þá þjónustu sem Skipaútgerð ríkisins hefur gegnt. Jafnframt liggur það fyrir að þetta skipafélag mun láta starfsmenn Skipaútgerðar ríkisins sitja fyrir.``
    Enn fremur segir: ,, . . .  að það skipafélag sem ríkisstjórnin á nú í viðræðum við hafi ekki staðið sig gagnvart þeim einstaklingum og þeim stöðum sem Samskip hafa þjónað í gegnum árin og áratugina.``
    Ljóst er að hér er talað um þjónustu Skipaútgerðar ríkisins og jafnframt er tekið fram að viðræður standi yfir milli fulltrúa ríkisstjórnarinnar og Samskipa og að tilboð hefði borist í tiltekið skip. Einnig kom fram að ég taldi óhjákvæmilegt að viðræður um það yrðu hafnar. Það er rangt, og ég hef margleiðrétt það, að ég hafi tekið upp viðræður við Samskip í síðustu viku. Ég hef margsagt að Samskip hafi lagt fram tilboð í Esjuna og einnig tekið fram að þegar Samskip lögðu fram það tilboð, vegna þess að þau töldu óhjákvæmilegt vegna hagsmuna og viðskiptavina sinna að hefja áætlunarferðir fyrir Austfjörðum um næstu mánaðamót, höfðu ekki verið teknar upp formlegar viðræður milli undirbúningsnefndar að stofnun hlutafélags um strandferðir og Samskipa. Þannig að það liggur alveg ljóst fyrir að skýrt var frá því í gær að viðræður stæðu yfir um að tiltekið skipafélag yfirtæki þá þjónustu sem Skipaútgerð ríkisins hefur gegnt. Skýrara getur það ekki verið.
    Jafnframt er ljóst og ég hef margtekið fram að á þeim tíma sem ég var í þinginu stóðu yfir viðræður milli Samskipa og fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Hitt er auðvitað algjörlega út í bláinn og sýnir til hvers leikurinn er gerður, ekki til að þjóna sannleikanum, að halda því fram að þegar viðræður standa á milli ríkisstjórnar og einstakra aðila úti í bæ og eru á viðkvæmu stigi að undir slíkum kringumstæðum eigi ráðherra að greina nákvæmlega frá efnisatriðum slíkra viðræðna. Sá háttur hefur ekki tíðkast hér. Málið liggur þess vegna alveg ljóst fyrir. En ég tek undir það sem hæstv. forseti sagði, það er sjálfsagt að gera Alþingi grein fyrir gangi viðræðnanna og hver staðan verður á einstökum stöðum þegar viðræðum við Samskip er lokið og málin liggja skýrt fyrir. Það er meira en guðvelkomið. Ég tala nú ekki um hvort mér sé ekki ljúft að eiga orðastað við hv. 8. þm. Reykn. ekki síst, fram eftir nóttu. Mér er það mjög ljúft og þó af öðru tilefni væri.