Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:53:00 (2799)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég hef fulla samúð með því að forseti hafi vilja til þess að greiða úr þeirri flækju sem hæstv. samgrh. hefur skapað og skal styðja forsetann í þeirri viðleitni. En hins vegar er nauðsynlegt að forseti lýsi því yfir áður en þessu lýkur hér á næstu mínútum, hvort hann hafi sama skilning á því og hæstv. samgrh. var að lýsa hér. Því hæstv. samgrh. lýsti því að hann væri fyrst tilbúinn í þá umræðu í þinginu sem forseti var að tala um þegar hann hefði lokið málinu. Það er ekki það sem verið er að tala um, virðulegi forseti, það er verið að tala um umræður sem m.a. snúast um það að hæstv. samgrh. leyndi þingið í gær staðreyndum málsins og hefur staðfest það hér í þessum umræðum. Málið snerist ekki um það hvort hæstv. samgrh. hefði greint þinginu frá því að viðræður stæðu yfir við Samskip. Þær snúast um það hvort hæstv. samgrh. hafi veitt embættismönnum samgrn. heimild til þess að ljúka efnislegum þætti viðræðnanna áður en hann kom á fund þingsins í gær og nú hefur hann staðfest að hafa gert það. Því hann upplýsir í þessari umræðu um gæslu þingskapa að það eina sem sé eftir sé tæknilegur frágangur fjmrn. á samningnum, svo notuð séu lýsingarorð hæstv. ráðherra. Fjmrn. tekur ekki við samningum til tæknilegs lokafrágangs fyrr en viðkomandi fagráðuneyti er búið að ljúka efnisumfjöllun um málið. Þess vegna er ljóst að samgrn. lauk efnisgerð samningsins í gær en fól síðan þeim sérfræðingum í frágangi samninga hvað tæknileg atriði snertir í fjmrn. að útbúa efnisatriði í lögtækt form. Það er staðreynd málsins, að samgrh. leyndi þingið því í gær að hann hefði gefið umboð til þess að ljúka efnisþætti málsins, þ.e. að semja um leiguna á skipinu.
    Virðulegi forseti, þennan þátt er nauðsynlegt að ræða í þinginu sérstaklega í ljósi þess að sami hæstv. ráðherra ætlar að halda áfram að meðhöndla málið með sama hætti. Frétt Ríkisútvarpsins í gær sem hér hefur verið lesin hefur þar að auki verið staðfest af samgrh. á þann hátt að hann hefur ekki treyst sér til að mótmæla einu einasta orði hennar. Frétt þar sem Ómar Jóhannsson, forstjóri Samskipa, er tilgreindur sem heimildarmaður og lýsir því að samningum hafi verið lokið fyrir kvöldmatarleytið í gær, hvað öll meginefnisatriðin snertir. Þess vegna er alveg ljóst að . . . ( EgJ: Það er samkomulag.) Samningum stendur hér og hefur ekki verið mótmælt, hv. þm. Egill Jónsson, þó ég skilji vel að þingmaðurinn reyni að aðstoða ráðherrann í því öngþveiti sem hann er kominn í. Öngþveiti sem felst í því að upplýst hefur verið í dag að hæstv. samgrh. leyndi þingið í gær kjarna málsins. Umræðan í gær fór fram á fölskum forsendum af því hæstv. samgrh. sagði ekki satt.
    Virðulegi forseti, þess vegna óskum við eftir tíma í þinginu fyrir helgi, t.d. á morgun, til þess að efnisleg umræða um þetta mál geti farið fram. Vegna þess að þingið getur ekki tekið áhættu af því að ráðherra sem þannig hefur hagað sér í máli fari áfram með það án þess að þingið geti rætt það. Ég legg þess vegna fram þá formlegu ósk, virðulegi forseti, að á morgun gefist tími til þess að ræða þetta mál með eðlilegum hætti í þinginu. Skal þá lokið athugasemdum mínum undir þessum dagskrárlið í trausti þess að forseti muni skapa tíma í þinginu á morgun til þess að ræða það með eðlilegum hætti.