Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 17:55:00 (2809)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    ( HÁ: Hver kennslustund er 45 mínútur). Virðulegi forseti. Ef ég man rétt, 1. þm. Austurl, þá er búið að stytta það niður í 40 mínútur. Það hefur sjálfsagt verið gert eftir að hv. þm. hætti kennslu. (Gripið fram í.) Já, það styttist nú óðum með aðgerðum núv. hæstv. ríkisstjórnar. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, að fortíðartal núv. hæstv. ríkisstjórnar er orðið með ólíkindum og erum við búin að hlusta á þetta hvað eftir annað þegar hæstv. núv. ríkisstjórn dregur fram skúffufrumvörp, misvel unnin af fyrrv. ríkisstjórn, það mun ég fúslega viðurkenna, --- þegar hæstv. núv. ríkisstjórn dregur þau upp og leggur fram. Og ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, ef hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur ekki skilið það, að það er ekki sama frv. og þau lög sem endanlega eru samþykkt og það er einkenni núv. hæstv. ríkisstjórnar að ekkert tillit er tekið til þess þó að í meðförum þingsins komi fram gallar eins og varðandi grunnellilífeyri sjómanna. Ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh., hafði hann gert sér grein fyrir því þegar frv. var lagt fram að það mundi bitna á þennan hátt á áunnum réttindum sjómanna? Ég læt mér ekki nægja að hann kinki kolli í sæti sínu. Hann á rétt á að koma hér aftur upp og svara og ég ítreka spurningu mína, hafði hann gert sér grein fyrir því þegar frv. var lagt fram að það mundi bitna á þennan hátt á sjómönnum?