Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 17:58:00 (2811)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Nokkuð er um liðið síðan ég bað um orðið til ræða um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992. Mig minnir að það hafi verið í kringum 18. des. eða fyrir um fjórum vikum og er ljóst að ég verð alla vega að breyta töluverðu í þeirri ræðu sem ég hugðist flytja, svo margt hefur breyst í frv. eins og það lá fyrir á þeirri stundu þegar ég bað um orðið. Það er táknrænt fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu mál að jafnvel á meðan var verið að mæla fyrir frv. af hæstv. forsrh. þá kynnti hann brtt. við frv. sem hann var að mæla fyrir. Það má segja að ekki hefur það verið verk stjórnarandstöðunnar, þó langt sé um liðið síðan frv. var lagt fram, að ekki er komið lengra í umræðunni en þetta.
    Síðustu tillögur stjórnarliðsins komu ekki fram fyrr en í síðustu viku og það var ekki fyrr en í gær sem sjá mátti það sem stjórnarliðið hafði komið sér saman um að láta þingið ræða í þessari 2. umr. Umræðan, sem hófst fyrir svo löngu síðan, verður dálítið skrýtin að því leyti að menn eru núna í seinni lotu þessarar umræðu að ræða um verulega breytt frv. frá því sem þeir ræddu í fyrri hlutanum. Ég verð að láta í ljós hluttekningu í garð þeirra ræðumanna sem voru búnir að leggja á sig að ræða um þetta frv. áður en það tók svona miklum breytingum.
    Ég vil minna á, þó að nú sé það gleymt flestum, að í ræðu sinni fjallaði hæstv. forsrh. ekki aðeins um frv. heldur fór yfir málin á nokkuð pólitískum nótum og flutti í raun og veru stefnuræðu sína í hinum ýmsu pólitísku málefnum í víðu samhengi. Þar var honum nokkuð tíðrætt um fyrri ríkisstjórn og var augljóslega nokkuð illa við einn stjórnmálaflokk sem þar sat, Framsfl., þó að mér þyki það dálítið kyndugt því ef menn skoða fortíðina þá er enginn flokkur sem Sjálfstfl. hefur unnið eins mikið og náið með í gegnum áratugina og Framsfl. og verður það dálítið skondið hversu mikið hæstv. forsrh. gerir út á andúð á framsóknarmenn. Þeir hafa hins vegar verið menn til að svara fyrir sig en megininntakið í gagnrýni hæstv. forsrh. er fortíðin. Menn eigi að horfast í augu við fortíðina og menn skulu fá að horfast í augu við fortíðina.
    Ég hef síðustu daga gluggað eilítið í fortíðina, í þau skjöl sem komið hafa frá Sjálfstfl. og jafnvel í greinar og ummæli hæstv. forsrh. um hin ýmsu mál sem nú eru til meðferðar. En áður en ég vík að því vil ég aðeins byrja á heilbrigðismálunum og minnast á nokkuð gamalt viðtal sem haft var við hæstv. heilbr.- og trmrh. því ég hygg að honum væri það nokkuð hollt og mönnum umhugsunarefni að rifja upp þau viðhorf sem ráðherra setti fram þá og bera saman við gjörðir hans í dag.
    Ég vil nú, virðulegi forseti, leita í skjölum mínum að þessu gagnmerka viðtali sem birtist í ágætu blaði, sem heitir Þjóðviljinn, 19. okt. 1983. Það er eins og segir í kvæðinu eftir borgarskáldið: Það var fyrir átta árum, virðulegi forseti. Þá var heilsíðuviðtal við hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. um fjárlagafrv. sem ríkisstjórnin hafði þá nýlega lagt fram. Þáv. fjmrh. var Albert Guðmundsson og eins og gefur að skilja hafði hæstv. núv. ráðherra ýmislegt að athuga við þetta fjárlagafrv. Ég vil leyfa mér að lesa hér stuttan kafla úr þessu viðtali til að varpa ljósi á sjónarmið hæstv. ráðherra eins og þau voru á þeim tíma og, með leyfi forseta, hef ég nú tilvitnunina:
    ,,Það er kátbroslegt að heyra frá Albert Guðmundssyni yfirlýsingar um stórfelldan niðurskurð á utanferðum opinberra starfsmanna. Í frumvarpi hans er nefnilega gert ráð fyrir því, að framlög til að semja við erlend ríki hækki um 158% og framlög til að þeir geti sótt alþjóðaráðstefnur hækki um 175%. Þannig er að ekki sést sá pólitíski vilji í fjárlagafrumvarpinu.
    Annað kemur í ljós þegar útgjöld til samhjálpar eru skoðuð. Í aðfaraorðum frv. er gert ráð fyrir því að sparnaður í tryggingamálum verði að upphæð 300 millj. kr. Hægt er að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar að láta þetta gerast í frumvarpinu. Á bls. 227 kemur m.a. í ljós að þar á að lækka útgjöld lífeyristrygginganna um 60 millj. kr. frá því sem felst í núv. reglum. Með öðrum orðum það á að breyta reglum sem lífeyrir er greiddur eftir. Í áætlunum um hækkun á milli ára kemur í ljós að breyta á reglunum til lækkunar hvað varðar elli- og örorkulífeyri og barnalífeyrinn. Barnalífeyrir verður þá lækkaður en hann er greiddur með börnum sem misst hafa foreldri sín. Hins vegar verður tekið af ellilífeyri með því að hækka lífeyrisaldurinn eða lækka lífeyrisgreiðslurnar. Þarna eru komnar 60 millj. kr.
    Á bls. 229 er skýrt frá því að heilbr.- og trmrn. muni spara í rekstri sjúkrahúsa um 150 millj. kr. Í áætlunum um útgjöld kemur í ljós að þetta á að gera varðandi vistgjöld á sjúkrastofnunum. Þau eiga aðeins að hækka um 26% á milli ára á sama tíma og aðrir útgjaldaliðir hækka um 50%. Þetta þýðir að gert er ráð fyrir að leggja 150 millj. kr. vistgjöld á legusjúklinga á spítölunum. Ætli það verði ekki í samræmi við annað sem er að gerast og er fólgið í því að sjúklingar verði látnir greiða sjálfir matinn sem hluta af legu sinni þannig að þegar ríkisstjórnin er búin að leggja eldhús spítalanna niður muni sjúklingarnir verða neyddir til að kaupa matinn af Pétri Sveinbjarnarsyni?
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því á bls. 228 að 90 millj. kr. sparnaður verði af útgjöldum ríkisins vegna lyfjakostnaðar og lækniskostnaðar á spítölum. Þá kemur spurningin hvort heldur á að draga úr læknisþjónustu eða hætta að gefa sjúklingum lyf, fara að lækna með nálastunguaðferðinni. Þannig er þessi 300 millj. kr. sparnaður fenginn með því að þrengja þeim sem eru sjúkir og bágstaddir, sagði Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. fjmrh., að lokum.`` (Gripið fram í.) Þetta er viðtal við núv. hæstv. heilbrrh. sem birtist í Þjóðviljanum miðvikudaginn 19. okt. 1983. Svo hneykslaður er núv. ráðherra á þessum áformum ríkisstjórnarinnar að fyrirsögn við viðtalið heitir: ,,Sultarólin á almenning. Á sama tíma og ríkisstjórnin ætlar sér margfaldað eyðslufé . . .  `` svo vantar nú niðurlagið, virðulegi forseti. Það er kannski ekki nema eðlilegt að hæstv. núv. heilbrrh. botni ekki yfirlýsinguna en hér stendur sem ekki er nú í beinu framhaldi af þessu:
    ,,Auk Alberts gæti enn einn talist fullsæmdur af þessu frv., nefnilega Bör Börsson.``
    Ég hef nú gert lítillega grein fyrir sjónarmiðum hæstv. heilbrrh. til þessara málaflokka sem undir hann heyra eins og þau sjónarmið voru fyrir átta árum. Ég verð að segja að mér kemur í hug kvæði Tómasar um fólkið sem gekk fram hjá Fríkirkjunni fyrir átta árum. Ég sé að hæstv. ráðherra er í fullu fjöri og er engan veginn handan móðunnar miklu eins og kemur fram í kvæðinu, en hins vegar sýnist mér að hann sé kominn handan við ána sem skilur að jafnaðarmenn og aðra, sé kominn yfir til hinna, og hafi tekið upp einhverja nýja jafnaðarmannastefnu sem ríkti a.m.k. ekki í Alþfl. á árinu 1983. Þetta sem lýtur að heilbrigðismálum vildi ég leggja inn í umræðuna til upprifjunar á því sem gerst hafði í fortíðinni. Ég hef þá lokið þeim kafla í ræðunni.
    Það eru fleiri sem hafa svo sem látið sér ýmislegt um munn fara á fyrri tíð. Ég vil nefna til sögunnar hæstv. forsrh. Hann hefur haft nokkra skoðun á þjóðmálum fram til þessa og ekki verið þekktur fyrir að skafa utan af þeim eða vera óskýr í meiningum. Hann hefur lagt fram fyrir þingið ásamt samráðherrum sínum og þingflokkum stjórnarflokkanna frv. sem m.a. skattleggur sveitarfélögin með einhliða aðgerðum eins og þingmönnum er kunnugt því að ég vænti þess að yfir þá hafi dunið mótmælasendingar og ályktanir sveitarstjórna víðs vegar um land eins og mér hafa borist. Til þess að stytta mál mitt vitna ég í þær bréfaskriftir sem fram hafa farið á milli félmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Menn hafa gagnrýnt sérstaklega að ríkisstjórnin skyldi taka þessar ákvarðanir einhliða þvert ofan á þá stefnu sem er í gildi og hefur verið um samráð við sveitarfélögin og er í raun og veru lögfest.

    Fyrir tæpum tveimur árum, 21. febr. 1990, birtist í blaði nokkuð drjúg tilvitnun í ræðu sem hæstv. forsrh., þá varaformaður Sjálfstfl. og borgarstjóri, flutti á fundi flokksráðsformanna sjálfstæðisfélaga og sveitarstjórnarmanna Sjálfstfl. Þar hafði hann ýmislegt að segja um samskipti ríkis og sveitarfélaga og um hlut sveitarfélaga úr þeim samskiptum. Sá hinn sami og nú leggur til að um 750 millj. verði færðar frá sveitarfélögum til ríkissjóðs óbætt, segir hér, með leyfi forseta, um áhrif af verkaskiptalögunum:
    ,,Það var fljótlega ljóst að ríkisvaldið ætlaði sér ekki að láta neina fjármuni af hendi með verkefnatilfærslunni og alls ekki bæta að fullu þá skerðingu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem þau hafa búið við á undanförnum árum. Niðurstaðan í verkefnatilfærslunni varð því sú að hlutur ríkisvaldsins jókst en hlutur sveitarfélaganna minnkaði.``
    Þetta er viðhorf hæstv. forsrh. að hlutur sveitarfélaga hafi versnað við verkefnatilfærsluna fyrir tveimur árum. Hæstv. félmrh. hefur haldið hér öðru fram. Hann hefur m.a. haldið því fram að tekjur sveitarfélaga hafi aukist um 2 milljarða og ekki eru þessir tveir ráðherrar sammála um þetta. En merkilegt er að hæstv. forsrh., sem er þeirrar skoðunar að gengið hafi verið á hlut sveitarfélaga, skuli nú ætla að að höggva þar aftur í sama knérunn.
    Um samskipti ríkis og sveitarfélaga sagði hæstv. forsrh., með leyfi forseta, og hafi menn þá í huga að þá voru sveitarstjórnarkosningar fram undan:
    ,,Það er heldur ekki vafi á að í þessum kosningum hljóta menn að varpa kastljósinu á samskipti ríkisins við sveitarfélögin. Það hefur verið stefna flestra stjórnmálaflokka í landinu og ég býst við að flestar ríkisstjórnir hafi sett inn í sinn stjórnarsáttmála fögur fyrirheit um að efla sjálfstæði sveitarfélaganna og styrkja þau og styðja enda er þar um að ræða stór skref í þágu valddreifingar að sveitarfélögin séu efld á kostnað ríkisvalds og miðstýringar. En því miður hefur aldrei fylgt hugur máli hvað þetta varðar.``
    Hér talar hæstv. forsrh. fyrir allt annarri skoðun en hann hefur í dag. Fortíðarvandi hæstv. forsrh. í málefnum sveitarfélaga er sá að hann sagði eitt áður en hann varð forsrh. og hann segir annað eftir að hann varð það. Þegar málin eru athuguð eru það greinilega ekki fyrirheit og ásetningur ráðherra núv. ríkisstjórnar að hafa það mjög í heiðri sem þeir áður sögðu og gleyma þeim skoðunum sem þeir höfðu áður. Þetta er fortíðarvandi Sjálfstfl. Ég vil rifja hann enn betur upp þannig að mönnum sé ljóst frekar en orðið er hversu mikill tvískinningur íhaldsins er í hinum ýmsu málaflokkum og leyfa mér að vitna í þá heimild sem best er um stefnu flokksins á hverjum tíma og heitir landsfundarályktanir Sjálfstfl. Ég er með í höndunum ályktanir landsfundar Sjálfstfl. frá því í mars 1991 og ef við byrjum til að mynda á menntamálunum, af því að ég sé að hæstv. menntmrh. er hér, þá vil ég leyfa mér að vitna í bls. 3 á þessari ályktun sem fjallar um menntamál, með leyfi forseta:
    ,,Án efnismikillar, fjölbreyttrar og haldgóðrar menntunar fá Íslendingar ekki staðist í samkeppi þjóða. Gildi skólastarfs verður ekki ofmetið. Menntakerfið verður gert fjölbreyttara með einkaskólum og slakað á miðstýringu án þess að draga úr gæðakröfum.``
    Síðan er enn frekar fjallað um menntamál á bls. 34 og þykir mér ástæða til að rifja upp fyrir hæstv. menntmrh. nokkuð sem þar stendur og vakið hefur athygli mína. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstfl. leggur megináherslu á að draga úr núverandi miðstýringu í skólakerfinu.``
    Hvað er svo lagt til í því frv. sem er til umræðu? Það er lagt til að færa í vald ráðherra það sem nú er í lögum. Það er lagt til að auka miðstýringuna, virðulegi forseti. Þetta er samræmið í stefnu flokksins sem hann á hægt með að koma á framfæri þar sem hann hefur þennan málaflokk á hendi. Hér segir einnig, með leyfi forseta:
    ,,Það að draga úr miðstýringu menntakerfisins hvað varðar rekstur, fjármagn, stjórnun, hugmyndir, námsskrá, kennsluefni og kennsluaðferðir er forsenda þess að starfskraftar skólastjórnenda og kennara nýtist sem skyldi.``
    Það sem flokkurinn leggur hins vegar til á þingi gengur til gagnstæðrar áttar við það sem hann ályktar á fundum og það sem hann segir kjósendum fyrir kosningar. Hér segir einnig, með leyfi forseta:
    ,,Ljóst er að eftirspurn fer vaxandi bæði eftir almennri og sérhæfðri fullorðinsfræðslu. Sjálfstfl. lýsir yfir stuðningi við hvers konar framtak í þeim efnum.`` Og enn fremur: ,,Efla þarf og auka námsframboð á landsbyggðinni svo að unnt sé að stunda nám í heimabyggð. Það yrði áhrifamikil byggðastefna.``
    Hvaða stefnu hefur hæstv. menntmrh. fylgt í þessum málum? Hann hefur fylgt þeirri stefnu að leggja niður Héraðsskólann í Reykjanesi. Hann hefur fylgt þeirri stefnu að synja um öldungadeild á Hólmavík. Þannig efnir hann stefnu Sjálfstfl. sem lýsir yfir stuðningi við hvers konar framtak til þess að auka fullorðinsfræðslu og auka námsframboð á landsbyggðinni. Það er greinilega ekki mikið að marka þennan flokk sem fyrir kosningar gefur út fallegt rit til þess að segja kjósendum hvert hann stefnir en eftir kosningar snýr hann síðan öllu á höfuð. Þetta eru efndirnar í menntamálunum. Það er greinilega ekki í verkum ríkisstjórnarinnar eins og hér er sagt í ályktun flokksins að stefna hans sé að allir hafi jafnan rétt til menntunar án efnahags, búsetu eða fötlunar. Það er fyllsta ástæða til þess að talsmaður flokksins í þessum málaflokki, hæstv. menntmrh., útskýri fyrir þingi þennan fortíðarvanda Sjálfstfl.
    Ég hef rakið þær skoðanir sem hæstv. forsrh. hafði í samskiptum við sveitarfélögin fyrir kosningar. Mönnum er kunnugt hvernig ríkisstjórnin undir forsæti hans kemur fram í samskiptum við sveitarfélög og hvernig hún hyggst auka fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna. Menn sjá hvernig það er framkvæmt með einhliða ákvörðunum um skattlagningu á sveitarfélögin. Hvað skyldi nú flokkurinn segja um þessi mál? Hvað var það sem hann sagði kjósendum á meðan hann var að gera hosur sínar grænar eða kannski öllu heldur bláar fyrir þeim? Það skyldi þó ekki vera að hann hafi sagt svolítið annað en hann segir í dag. Hér segir í sérstakri ályktun um sveitarstjórnarmál, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstfl. leggur áherslu á að jafnhliða flutningi á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga verði tekjustofnar fluttir þannig að heildarskattbyrði aukist ekki. Með auknum lögboðnum verkefnum sveitarfélaga er eðlilegt að auka hlutdeild þeirra í staðgreiddum sköttum.`` Og enn fremur segir, með leyfi forseta, vegna þess að þá var nýlega upp tekinn virðisaukaskattur:     ,,Landsfundurinn mótmælir harðlega þeim auknu skattaálögum sem ríkið lagði á sveitarfélög í landinu þegar virðisaukaskattur var tekinn upp.``
    Hvað skyldu það hafa verið miklar álögur, virðulegi forseti? Jú, 250--300 millj. kr. á ári. Hvað er verið að gera nú? Auka álögur á sveitarfélögin um þrefalda þessa upphæð. Var það kannski ástæðan fyrir því að Sjálfstfl. mótmælti þessu að það voru ekki nógu miklar álögur svo að hann gæti fagnað þeim, það var ekki nógu mikið sem var tekið af sveitarfélögunum? Krumlur ríkisvaldsins með miðstýringunni sem enginn flokkur er eins hrifin af og Sjálfstfl., ríkisafskiptaflokkur Íslands númer eitt. Það skyldi þó ekki vera. Hér er annar fortíðarvandi Sjálfstfl. Hann mótmælir því að gengið sé á hlut sveitarfélaga þegar hann er í stjórnarandstöðu en gengur harðar fram en nokkur annar þegar hann er í stjórn. Þá varðar menn ekkert um fyrri skoðanir í þessum málum.
    Ýmislegt fleira má nefna og dregur fram mikið misræmi á milli orða og efnda hjá þessum stærsta stjórnmálaflokki landsins. Kunnug eru ummæli hæstv. forsrh. og stefna hans gagnvart mikilvægum atvinnufyrirtækjum á landsbyggðinni. Á hausinn með þetta, segir forsrh. Þetta eru duglausir stjórnendur sem hafa staðið sig illa og þeir eiga bara að fara á hausinn. En hvað skyldi segja hér í landsfundarsamþykkt síðasta landsfundar Sjálfstfl.? Það segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Skapa þarf nýja öryggiskennd í atvinnumálum meðal fólks á landsbyggðinni.``
    Það var nefnilega það. Það þarf að skapa nýja öryggiskennd fyrir fólk á landsbyggðinni í atvinnumálum og það er gert með því að segja: Þetta eru mál fyrirtækjanna, þetta eru mál atvinnugreinarinnar, þetta eru ekki mál ríkisins. Og þegar fólkið segir: Við, fólkið sem býr í þessum plássum, berum enga ábyrgð á þessum fyrirtækjum, og það spyr: Hvað ætlið þið að gera til að aðstoða okkur við að reisa þessi fyrirtæki úr rústum? þá er svarið: Ekkert. Þið eigið að gera það sjálf. Og þið eigið að borga fyrir að gera það sjálf. Þetta er atvinnustefnan sem ríkisstjórnin rekur, ríkisstjórn Sjálfstfl. Sú atvinnustefna sem heitir samkvæmt landsfundarsamþykkt fyrir kosningar, að skapa nýja öryggiskennd í atvinnumálum meðal fólks á landsbyggðinni. Mér verður orðfall, virðulegi forseti. Það er

greinilega mikill vandi á ferð í þessum stjórnmálaflokki.
    Ég nefni annað í samgöngumálum. Hvað skyldi þessi flokkur hafa lagt til í samgöngumálum fyrir kosningar, virðulegi forseti? Flokkurinn sem leggur til núna eftir kosningar að skera niður framlög til Vestfjarðaganga og vill seinka framkvæmdum, ræðst á uppbyggingu í vegakerfinu, ætlar að skera hana niður um 20% á þessu ári. Hvað skyldi þessi flokkur hafa sagt fyrir kosningar? Jú, hann sagði, með leyfi forseta: ,,Áætlaðar fjárfestingar ríkisins í samgöngumannvirkjum næstu 10 ár eru á bilinu 60 til 80 milljarðar kr. Eftir það er lokið samgöngubyltingu sem er forsenda fyrir hagkvæmri byggðaþróun, atvinnuþróun og hagræðingu atvinnuveganna`` --- sem er forsenda. Fyrst þarf samgöngubyltingu, síðan skulum við hagræða. Hvað er flokkurinn að gera í dag? Hann er að heimta hagræðingu og seinka samgöngubyltingunni. Hvers konar hagræðing er það? Það er náttúrlega hagræðing sem dæmir veikustu byggðarlögin út af landakortinu. Það er sú hagræðing sem þessi ríkisstjórn stefnir að, sú ríkisstjórn sem er með sífelldar kröfur um hagræðingu í sjávarútvegi. Það er alveg ómögulegt ástand að það skuli vera til pláss þar sem er eitt frystihús og einn togari og í næsta firði annað pláss þar sem er annað frystihús og annar togari. Það er alveg ómögulegt, það verður að hagræða. En það á ekki að gera veg þarna á milli þannig að menn komist hann allt árið um kring.
    Ég vil benda hæstv. ráðherrum, öllum þeim sem hér eru viðstaddir, á grein sem birtist fyrir tæpum tveimur árum í Morgunblaðinu eftir doktor Ágúst Einarsson þar sem hann bendir m.a. á að svo vel er sjávarútvegurinn rekinn í heild sinni á Íslandi að hann er rekinn fyrir 25 milljörðum kr. minna en sjávarútvegurinn í Noregi. Það er ekki lítið, það er bara nokkuð vel að verki staðið. Þannig að ég held að menn ættu að hægja á í kröfugerð um hagræðingu í sjávarútvegi þó ég meini ekki að menn eigi að leggja hana til hliðar. En alla vega eiga menn að hraða samgöngubótum til að gera hagræðinguna mögulega.
    Hér var eitt lítið mál í fréttum í gær um tvöföldun á Reykjanesbrautar þar sem einkaaðilar, óskabarn Sjálfstfl., höfðu óskað eftir því að fá að gera athugun á þeirri framkvæmd og jafnvel að taka hana að sér gegn því að láta hvern bíl sem ekur um veginn greiða ákveðið gjald. Þessu hafnaði hæstv. samgrh., sem er dálítið merkilegt í ljósi þess að hann er úr Sjálfstfl. og til að vinna að samgöngumálum hefur hann í veganesti samþykktir landsfundar Sjálfstfl. Og hvað skyldi segja í þeim samþykktum? Jú, virðulegi forseti, með leyfi, segir hér:
    ,,Gera þarf sérstakt átak í vegakerfi höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbrautar vegna mikils umferðarþunga.``
    Það er stefna flokksins. Og hvernig vill flokkurinn framkvæma þetta? Það er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Hönnun, nýframkvæmdir og viðhald samgöngumannvirkja skal fært á svið einkareksturs eftir því sem við verður komið. Við gerð samgöngumannvirkja skal skoða þann möguleika að fyrirtæki og einstakingar taki að sér gerð þeirra fyrir eigin reikning en þeim gefist síðan kostur á að endurheimta kostnaðinn með gjaldtöku á notkun mannvirkisins.``
    Þetta er stefna þess flokks eins og hún var í mars og þegar hæstv. samgrh. fær tækifærið til að framfylgja stefnu síns flokks segir hann nei. Ég er út af fyrir sig ekkert mjög óhress með það því ég er ekki sammála stefnu Sjálfstfl. í þessum efnum. En þetta er enn eitt dæmið um hvernig þessi flokkur talar til annarrar áttar fyrir kosningar en hann framkvæmir svo eftir kosningar. Þetta er enn eitt dæmið um fortíðarvandann í Sjálfstfl. Og ég segi bara eins og hæstv. forsrh.: Ja, þeir skulu fá að horfa framan í þennan fortíðarvanda. Ég held að sjálfstæðismönnum sé ekkert verra að horfa framan í fortíðarvandann fremur en framsóknarmönnum, eins og hæstv. forsrh. hefur mikinn áhuga á að þeir geri.
    Þessi landsfundarályktunarbók er náttúrlega mikið eldsneyti og hægt að flytja margar ræður og langar um það sem hér stendur um það sem flokkurinn vill gera og bera saman við það sem hann er að gera. En ég læt lokið lestri úr þessari ágætu bók og vænti þess að hv. þm. sé nokkuð ljóst ósamræmið á milli orða og efnda.
    Mér er minnisstætt að þegar hæstv. núv. sjútvrh. hafði tapað kosningunni um formannssætið í Sjálfstfl. sagði hann eitthvað í þá veru að nú tækju við hin hörðu gildi. Nú

hefðu þeir sigrað og væru ofan á í flokknum sem væru meiri harðlínumenn í pólitík, meiri frjálshyggjumenn í pólitík. Þá rifjaðist upp fyrir mér að einn fyrrv. þm. Sjálfstfl. hafði fyrir nokkrum árum ritað bók um reynslu sína af þessum flokki og einmitt tekið þetta viðfangsefni fyrir, frjálshyggjuna og þá hættu sem þingmaðurinn sá vegna þess að hún fann þá breytingu sem var að verða á flokknum og fann að þeir menn voru að eflast sem héldu þeim skoðunum fram. Og mér finnst við hæfi, virðulegi forseti, að rifja upp agnarlítinn kafla úr þessari bók þar sem fjallað er um þetta viðfangsefni því ég held að það varpi nokkuð skýru ljósi á þá stefnu sem ríkisstjórnin er að framkvæma, varpi nokkuð skýru ljósi á þau viðhorf sem liggja að baki hjá þeim mönnum sem eru í forustu fyrir Sjálfstfl. í ríkisstjórninni og skýri fyrir okkur hvert þeir stefna, hvers konar þjóðfélag þeir vilja búa til. Áður en ég hef lesturinn vil ég geta þess að sá fyrrv. þm. sem ég er að vitna til heitir Sigurlaug Bjarnadóttir og bók þessi kom út fyrir fimm árum. Tilvitnunin er, með leyfi forseta:
    ,,Sjálf átti ég er ég sat á þingi hlut að því að setja saman eins konar kosningastefnuskrá flokksins fyrir alþingiskosningarnar 1978: ,,Endurreisn í anda frjálshyggju.`` En sú frjálshyggja var, að ég hugði þá, af öðrum toga spunnin en ,,frjálshyggja`` Friedmans og lærisveina hans sem ég helst set innan gæsalappa af því að ég tel hana rangnefni, til þess fallið að villa á sér heimildir. Það því fremur sem boðberar hennar leyfa sér að kenna hana við mannúðarstefnu. Þar er siglt undir fölsku flaggi.
    Réttnefni ,,frjálshyggjunnar`` er markaðshyggja, sem gengur fram með þrönga og brenglaða frelsishugsjón á vopni. Frelsi hennar er fyrst og fremst frelsi hins óhefta, sjálfstýrða markaðskerfis, er jafnað er við eins konar guðlega forsjón, sem er undanþegin mannlegri og siðferðilegri ábyrgð. Hún þýðir frelsi og rétt hins sterka til að traðka á hinum veika í miskunnarlausri samkeppni, meira í ætt við lögmál dýraríkisins og líffræðikenningu Darwins þar að lútandi heldur en samfélag siðaðra manna, byggt á hugsjónum menntunar og mannúðar.
    Engum ætti að dyljast að þessi alræðishugmynd markaðshyggjunnar samrýmist ekki kærleiksboðskap og bræðralagshusjón kristinnar trúar. Hingað til hefur þó Sjálfstæðisflokkurinn, a.m.k. í orði kveðnu, viljað hlú að Kristindómi og kristilegu siðgæði í landinu.
    Hér er nokkuð hart kveðið að orði, en ekki að tilefnislausu. Þeim sem á annað borð hafa augu og eyru opin fyrir því sem er að gerast í íslenskum stjórnmálum hefur mörgum blöskrað ýmsar þær hugmyndir sem haldið hefur verið á lofti í málflutningi og áróðri hinna áköfustu ,,frjálshyggju``manna okkar á undanförnum uppgangsárum þeirra:
    Almenningsmenntun, heilbrigðisþjónusta og félagsleg samhjálp skal gerð að markaðsvöru, sem lýtur lögmálum framboðs og eftirspurnar. Í þessum anda er m.a. mælt með því að ,,leyfa nokkrum læknum að setja upp svo hátt verð fyrir þjónustu sína að biðraðir á stofum þeirra hverfi og þeir neytendur sem vilja og geta greitt þetta verð komist umsvifalaust að``!
    Nema hvað? Fortakslaus forréttindi hinna ríku fram yfir hina sem léttari eiga budduna og minna mega sín. Þarna blasir við augum hin grímulausa peningahyggja, alsystir markaðshyggjunnar sem vílar jafnvel ekki fyrir sér að ,,selja ömmu sína,`` ef því er að skipta.`` Og lýkur hér tilvitnun í bók Sigurlaugar Bjarnadóttur frá Vigur, fyrrv. þm. Sjálfstfl. sem fyrir nokkrum árum varaði við þeim öflum sem nú ráða í Sjálfstfl.
    Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að eftir að hafa lesið þessa bók aftur í stuttu og stopulu jólafríi og velt inntaki hennar fyrir mér þá finnst mér að höfundur hafi reynst nokkuð sannspár og ótti hans hafi verið á rökum reistur. Þetta er að mínu mati heimild sem varpar skýru ljósi á þá ríkisstjórn sem nú situr hér á landi, áform hennar og stefnu.
    Ég vil þá, virðulegi forseti, enn og nú að lokum taka fyrir fortíðarvandann. Nú ætla ég að minnast eilítið á fortíðarvanda hæstv. félmrh. Það er þannig eins og þingmenn vita að tekið var upp á sínum tíma svokallað 1986-kerfi, húsnæðislánakerfi í húsnæðismálum. Hæstv. félmrh hefur ekki verið neinn sérstakur stuðningsmaður þess kerfis og hefur lagt nokkuð á sig til að koma því fyrir kattarnef. Allt um það, við höfum svo sem skipst á

skoðunum um það mál áður. En ég vil aðeins rifja upp hvað hæstv. félmrh. sagði fyrir kosningar við fólk sem er í biðröð eftir lánum úr þessu kerfi. Og ég vil líka rifja upp hvað hæstv. félmrh. sagði fyrir rúmum tveimur árum þegar verið var að taka upp núverandi kerfi. Þá sagði hæstv. félmrh. um húsbréfakerfið að það væri gott kerfi, þar gætu menn fengið lán og þyrftu ekki að bíða og þar yrðu engin afföll. Það sagði hæstv. þáv. félmrh. sem enn situr í stólnum og eru afföllin yfir 20%. Hvernig ætlar hæstv. félmrh. að útskýra þetta fyrir því fólki sem er að taka að sér að borga af 1 millj. kr. en fær ekki í reiðufé meira en 780 þús. kr. eða þar um bil? Er það svo gott kerfi?
    Hitt atriðið sem er fortíðarvandi hæstv. félmrh. í húsnæðismálum er að í viðtali 20. mars sl. sagði hæstv. félmrh. í sjónvarpi þetta um forgangshópinn svokallaða, 2.700 manns, með leyfi forseta:
    ,,Við munum hafa þrjú ár til þess að afgreiða þetta fólk sem vill nýta sér þennan rétt og það ræðst af því hve margir komi til með að vilja nýta sér hann hve hratt hægt er að afgreiða þessi lán. En það er þó auðvitað ljóst og hefur margkomið fram að greiðslubyrði fyrir fólk er jafnhagstæð í húsbréfakerfinu svo að ég á nú ekki von á því að það verði mjög margir sem sækja þarna um. En engu að síður þá er óvissunni eytt.`` Þetta var sagt 20. mars á síðasta ári. Þá var óvissunni eytt fyrir hjá því fólki sem beið í forgangshópi eftir lánum í Húsnæðisstofnun ríkisins úr 1986-kerfinu.
    Það voru ekki liðnir margir dagar frá því að ríkisstjórnin var mynduð þar til hún samþykkti að kasta þessum hópi út, loka því ákvæði í lögum sem eyddi óvissu forgangshópsins. Þetta er nokkuð bærilegur fortíðarvandi, virðulegi forseti. Fyrir kosningarnar er óvissunni eytt, eftir kosningarnar er sagt: Út á götu með ykkur.
    Ég vil vekja athygli á því hvernig hæstv. félmrh. og ríkisstjórnin í heild fer að því að virða lög að vettugi. Það er með því að gefa fyrirmæli til stofnana og segja: Þið framfylgið ekki þessum lögum. Það er ekki enn búið að fella úr gildi þessa lagaákvæði. Ef ekki hefði verið fyrir fyrirmæli ríkisstjórnarinnar hefði Húsnæðisstofnun ríkisins framfylgt lagaákvæði eins og henni ber. Hvers konar stjórnsýsla er þetta? Ráðherrar geta bara sagt: Þessi lög og þessi lög, þið framfylgið þeim ekki. Bráðum eru liðnir níu mánuðir síðan ríkisstjórnin var mynduð og allan þennan tíma hefur þetta bráðabirgðaákvæði verið í lögum og er enn. ( Gripið fram í: Þetta er meðgöngutíminn og þess vegna er ormurinn fæddur.) Má vera, hv. þm., en illa líst mér á afkvæmið. Ég tel nauðsynlegt að hæstv. félmrh., fyrst hann er svo vinsamlegur að vera hér viðstaddur sem ég þakka honum fyrir, geri fólki grein fyrir því, því fólki sem er í biðröðinni, 2.700 manns, hvers vegna hann stendur að því að svíkja þetta fólk.
    Þannig er, virðulegi forseti, ef að er gáð, að fortíðarvandinn er víða. Hann er kannski ekki hvað síst hjá þeim aðilum sem standa að núverandi ríkisstjórn. Það vill þannig til með þá eins og alla aðra að þeir eiga sér fortíð. Ég held að hæstv. forsrh. ætti að fara sér hægar í skurðgrefti í fortíðinni ef hann vill að umræðan snúist einhvern tíma um eitthvað annað en ávirðingar stjórnarandstæðinga. Ég vil minna á að einn af forverum hæstv. forsrh. í stóli formanns Sjálfstfl. sem hefði orðið 100 ára gamall núna eftir þrjá daga, 19. jan., Ólafur Thors, hafði það lífsviðhorf, eins og fram kemur í ævisögu hans sem rituð er af Matthíasi Johannessen, að menn ættu að horfa fram en ekki aftur. Hann vitnaði gjarnan í þann stjórnmálamann sem hann hafði hvað mestar mætur á, Winston Churchill. Hann vitnaði í það sem Winston Churchill sagði þegar hann tók við forsætisráðherraembættinu í Bretlandi 1940: ,,Ef við ætlum að nota nútíðina til að dæma fortíðina, þá glötum við framtíðinni.`` Þetta var sjónarmið Ólafs Thors. Hann horfði fram en ekki aftur, horfði til framtíðar en ekki fortíðar. Í því liggur mikill munur á núv. formanni Sjálfstfl. og þeim fyrrverandi. Í því liggur allur áherslumunur. Enda hygg ég að dómur sögunnar verði kannski ekki eins vilhallur núv. formanni Sjálfstfl. og hann er þeim sem ég vitnaði til og hefði orðið 100 ára eftir þrjá daga.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, fara yfir fáein varðandi málefni sveitarfélaga. Ég vænti þess að hæstv. félmrh. sé ekki alveg horfinn af vettvangi. Ef ráðherrann skyldi vera hér nærhendis bið ég forseta um að gera honum viðvart svo ráðherrann megi vita að hér

ræði ég í fáum orðum um sveitarfélögin. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra, ekki man ég lengur í hvaða umræðu það var, að tekjur sveitarfélaga hefðu aukist um 2 milljarða, hafi ég tekið rétt eftir, í kjölfar verkaskiptalaganna. Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um að það var markmið þessarar verkaskiptingar, eitt af markmiðunum, að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Ég sæki heimild fyrir þeirri fullyrðingu í þingskjal sem heitir frumvarp til laga um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988 af þáv. hæstv. félmrh. Á bakhlið þess, bls. 32, er fylgiskjal sem metur áhrif þessara lagabreytinga á fjármál sveitarfélaga. Þar kemur fram að hagur þeirra muni batna um 639 millj. kr. við þessar breytingar. Ég ítreka það svo að það sé ljóst að eitt af markmiðum breytingarinnar var að bæta stöðu sveitarfélaga enda var staðan á þeim tíma ekki betri en svo að níu af kaupstöðum landsins höfðu ekki rekstrartekjur til að standa undir útgjöldum hvað þá fjárfestingu. Þess ber að geta að af þessari fjárhæð, sem metið er að hafi flust yfir til sveitarfélaganna við þessa breytingu, tók virðisaukaskatturinn til baka hluta, u.þ.b. 250 millj. kr. á ári samkvæmt upplýsingum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga í dag. Eftir stendur að hagur sveitarfélaga hafi batnað um 400 millj. kr. í heild. Nú ætlar ríkisstjórnin að taka 750 millj. og sjáum við að þá er lítið eftir og hagurinn verri en fyrir breytingar.
    Á verðlagi ársins 1991 voru heildartekjur sveitarfélaga árið 1980 20,1 milljarður kr. 10 árum seinna 1990 voru tekjurnar 28,2 milljarðar kr. en útgjöldin höfðu aukist úr 19,9 milljörðum í 28,6 milljarða. Samkvæmt þessum tölum sem ég hef fengið frá Sambandi ísl. sveitarfélaga voru rekstrargjöld sveitarfélaganna hærri en rekstrartekjurnar. Þetta er ekki beysin staða og kannski ekki til þess fallin að leggja auknar álögur á sveitarfélögin. Hafa álögur þó bæst við t.d. vegna umhverfismála þar sem lögboðnar kröfur hafa verið settar á sveitarfélög sem þeim ber að uppfylla og eins vegna atvinnumála þar sem sveitarfélögin hvert á fætur öðru eru nauðbeygð til að taka þátt í atvinnulífinu til að halda því gangandi vegna þess að núv. ríkisstjórn vill ekki koma nálægt því. Henni kemur þetta fólk ekkert við. Hvað halda menn að sveitarfélög sem þurfa að ganga inn í stóru atvinnufyrirtækin í plássunum eða stofna ný hafi mikið til aflögu til að borga sérstakan skatt til ríkisstjórnarinnar? Ég er hræddur um að fjárhagsstaða sveitarfélaga verði orðin býsna slæm áður en þetta ár er á enda runnið.
    Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvernig hún hugsar sér að bæta stöðu sveitarfélaga eða hvort hún er yfir höfuð sammála mér um að þörf er á því að bæta stöðu sveitarfélaga en ekki gera hana verri. Hvernig á sveitarfélag eins og Ólafsvík að standa undir slíkum kröfum sem er búið að leggja óhemju mikið fé í það að halda uppi atvinnu með því að kaupa aðalfyrirtækin? Ég get nefnt fleiri sveitarfélög en læt það ógert.
    Ég er hræddur um að margt verði skrýtið á Íslandi þegar kemur að haustmánuðum, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég hygg að það sé mál sem kemur hverjum félagsmálaráðherra eða sveitarfélagamálaráðherra við hvers konar byggðastefnu menn reka í landinu. Sveitarfélögin eru jú um allt land og allt landið er verkefni ráðherrans. Hvernig telur ráðherra að landslagið líti út í haust? Hvað með öll plássin þar sem menn sjá ekki neina örugga framtíð í atvinnumálum? Það verður auðvelt að sameina þau sveitarfélög sem verða orðin tóm. Þá þarf varla að skipa nefnd til þess. Menn geta bara beðið fram á haust. Menn geta þá sameinað þessar reytur sem eftir eru.
    Virðulegi forseti. Ég hef leitast við að gera grein fyrir sjónarmiðum mínum til þessa frv. með nokkuð almennum hætti og bendi forseta á að ég hef ekki talað fyrr í umræðu um þetta mál. Mér gafst ekki tækifæri til þess fyrir jól af sérstökum ástæðum. Því hefur ræða mín kannski orðið lengri en til stóð við þessa umræðu. Þó er margt sem ég vil gjarnan koma inn á en kýs að geyma þar sem ég hef rétt til að tala öðru sinni í þessari umræðu og get komið því að síðar.
    Ég vil í lokin beina einni fyrirspurn enn til hæstv. félmrh. varðandi eitt af þeim málum sem gerð er tillaga um að breyta í þessu frv. Það er að fella niður ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot. Það kemur fram í ályktun frá Alþýðusambandi Íslands að um þessar mundir sé verið af hálfu Íslands að yfirfara drög að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á skuldbindingum þjóða til að tryggja launafólk vegna gjaldþrota fyrirtækja. Áformað er að þessi samþykkt verði afgreidd á næsta þingi sem haldið verður í sumar hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Ég þekki ekki þessi drög að samþykkt en ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er það sem nú er verið að gera í samræmi við þessi drög? ( Félmrh.: Já.) Svarið er já. Er það þá upplýst að hæstv. ríkisstjórn er að framfylgja þeirri stefnu sem menn hugsa sér að koma á hjá aðildarþjóðum þessarar stofnunar. Er það nokkuð fróðlegt í ljósi þeirrar áherslu sem ríkisstjórnin hefur, að taka upp gerðir erlendra þjóða sem mest og gera þær að innanlandslögum. Það er efni í mikið mál og allt annað, en mér þykir rétt að minna á að það er ekki allt gull sem glóir í útlöndum, virðulegi ráðherra.