Framkvæmdasjóður Íslands

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 10:59:00 (2817)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. fjallaði fyrst um það mál sem er til umræðu. Að vísu fjallaði hann ekki mikið um málið heldur flest önnur mál en dagskrármálið sjálft. Ég ætla ekki að elta ólar við það sem ekki snertir dagskrármálið sjálft en ég vil aðeins nefna eina setningu sem hann nefndi. Hann sagði sem svo að það væri fráleitt af minni hálfu að láta eins og þeir þættir sem fram kæmu í skýrslu fortíðarvandanefndar hefðu ekki verið ræddir og kunnugir mönnum. Varðandi dagskrármálið sjálft, Framkvæmdasjóð Íslands, þá kemur fram í niðurstöðum fortíðarvandanefndar og Ríkisendurskoðunar að þar hefði þurft að vera tillag í afskriftasjóð Framkvæmdasjóðsins vegna ársins 1990 upp á 1.700 millj. kr., þ.e. 1.300 millj. umfram það sem var. Menn hafa því ekki gert sér grein fyrir stöðu málsins og alls ekki gert sér grein fyrir því að sjóðurinn hefði verið búinn að tapa 2,7 milljörðum kr. af eigin fé sínu.
    Sem dæmi um hvernig á þetta mál var litið í forsrn. má nefna að aðeins örfáum dögum eftir að ég kom í það ráðuneyti kom til mín stjórnarformaður Framkvæmdasjóðs til þess að ræða við mig og gera tillögur um að ráða nýjan aðstoðarforstjóra á bankastjóralaunum að þessum sjóði, sjóði sem vantaði 1.300 millj. kr., 1,3 milljarða kr. að væri réttu megin við núllið. Ég trúi því ekki að menn hafi gert sér grein fyrir því hvers konar staða var hjá þessum sjóði þegar það sem þeim þótti ráðlegast að gera á því augnablikinu var ekki að leggja sjóðinn niður, eins og nú er gert ráð fyrir, heldur að ráða nýjan aðstoðarforstjóra á bankastjórakjörum að þessum sjóði. Stjórnarformaðurinn sagði mér að þessi ráðstöfun væri gerð í samráði við minn fyrirrennara. Ég verð að segja alveg eins og er að ég trúi því ekki að menn hafi gert sér grein fyrir því hvers konar staða var komin upp við þennan sjóð þegar þeim þótti vænlegast í stöðunni að ráða nýjan aðstoðarforstjóra að sjóðnum. Þannig var matið á stöðu sjóðsins á þessu augnabliki. Það er mjög athyglisvert.
    Ég vildi auðvitað fá skýra mynd af því hvernig þessi sjóður stæði. Ég hafði að vísu heyrt efasemdir um að hann stæði mjög sterkt en ég vildi gjarnan fá mjög skýra mynd af því áður en til slíkra mannaráðninga kæmi. Auðvitað sér hver maður nú að það hefði verið afskaplega óheppilegt og ósanngjarnt gagnvart aðila sem hefði verið ráðinn í slíkt starf aðeins örfáum mánuðum áður en sjóðurinn væri lagður niður vegna þess að hann væri ,,fallít``, gersamlega ,,fallít``. Það var nákvæmlega það sem sjóðurinn var. Þetta finnst mér lýsandi dæmi um það hvaða mynd og hvaða mat menn höfðu á stöðu þessa ágæta sjóðs.
    Ég er líka ósammála hv. 7. þm. Reykn. um mat hans á lagaheimildum. Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna að um þetta má deila. Því miður voru þær lagabreytingar sem voru gerðar með gildistöku laga nr. 70/1985 um starfssvið þessa sjóðs kannski ekki nægjanlega skýrar. Það fór þó ekki á milli mála að markmiðið var að þrengja heimildir sjóðsins. Ég hygg að um það þurfi ekki deila að markmiðið var að þrengja verulega heimildir sjóðsins því að hann hefur áður haft heimild til þess að veita fé til framkvæmda og verkefna á vegum einkaaðila. Ég tel að þarna hafi menn túlkað lagaheimildir eftir þessar breytingar afskaplega rúmt. Þetta er út af fyrir sig deiluefni. Ég get alveg tekið undir með síðasta ræðumanni um það að þetta er ekki nógu glöggt og ekki nógu skýrt. Ég tek undir það sem segir í skýrslu fortíðarvandanefndar um þessi atriði að þarna hafa forráðamenn þessa sjóðs túlkað lagaheimildir afskaplega vítt.
    Varðandi fiskeldið og þau mál öll þá er það líka alveg rétt að það er í öllum tilfellum auðveldara að vera vitur eftir á. Það er þægilegra að taka ákvarðanir sem sagnfræðingur með allar upplýsingar á borðinu en sem stjórnmálamaður eða jafnvel embættismaður sem þarf að byggja að verulegu leyti á spám. Það er veruleiki sem við, sem í þessum sal erum, verðum að búa við. Það mun iðulega koma í okkar hlut að þurfa að taka ákvarðanir án þess að allar þær upplýsingar, sem við vildum gjarnan hafa til þess að byggja okkar ákvarðanir á, liggi fyrir. Við erum stjórnmálamenn en ekki sagnfræðingar. Þess vegna getur það gerst að við tökum ákvarðanir sem reynast rangar. En það er ekki rétt sem hv. 7. þm. Reykn. sagði að allir, eins og hann orðaði það, hefðu talað þannig og allt sem sagt var hefði verið á einn veg, (Gripið fram í.) ég skrifaði þetta niður eftir hv. þm., að þarna væri um öruggan veg að rata sem mundi geta skilað okkur miklu.
    Ég vek athygli, með leyfi forseta, á því sem er vitnað til í skýrslu fortíðarvandanefndar á bls. 43. Þar er haft eftir dr. Vilhjálmi Lúðvíkssyni:
    ,,Því miður er það svo að þau atvinnutækifæri sem menn tala mest um, t.d. á sviði líftækni og fiskeldis, eru að miklu leyti enn þá óundirbyggð að því er rannsóknir varðar og hafa þegar orðið af því stórfelld skakkaföll.`` Það er 1985, sem hann skrifar þetta. ,,Ég óttast,`` segir hann, ,,að á næsta leiti sé alda fjárfestinga í fiskeldi sem að miklu leyti verði byggð á sandi.``
    Þetta segir einn af eftirmönnum hv. 7. þm. Reykn., hinn færasti maður, að hann óttist að fram undan sé alda fjárfestinga í fiskeldi sem verður byggð á sandi. Þessi ágæti maður hefur svo sannarlega haft, því miður, rétt fyrir sér. Að vísu voru þessi orð hans, eins og þau bera með sér, líka spá. Hann gat ekki alfarið um þetta vitað. En menn gengu fullir bjartsýni allt of fast fram og það er eins og fram hefur komið auðvelt að gagnrýna það eftir á. En ekki er hægt að halda því fram að engin varnaðarorð hafi verið sögð af aðilum sem mark mátti taka á því að það var gert og reyndar af fleirum en þarna voru tilgreindir.
    Í sjálfu sér held ég að ekki sé veruleg ástæða til þess hér og nú að hafa mörg fleiri orð um þau atriði sem fram hafa komið í þessum umræðum. Vegna þess að hv. 4. þm. Norðurl. e. vitnaði í stjórnarmenn sem Framkvæmdasjóður tilnefndi vegna starfsemi Álafoss, kallaði þá, hygg ég, ,,hverja silkihúfuna upp af annarri`` og ættfærði þá pólitískt til Alþfl., Sjálfstfl. sérstaklega og Framsfl., þá verð ég að taka fram að það hefur verið upplýst að þessir stjórnarmenn komu á fund stjórnvalda og gerðu grein fyrir því hvernig staðan væri. Þeir töldu ljóst að veruleg hætta væri á því að ef meiri fjármunir væru settir í þetta fyrirtæki mundu þeir tapast. Þeir gerðu alveg hreint fyrir sínum dyrum. Engu að síður tóku stjórnvöld þá ákvörðun að setja meiri fjármuni í fyrirtækið til þess að halda Álafossi gangandi. (Gripið fram í.) Ég er ekki með þær dagsetningar, hv. þm., á reiðum höndum eins og þingmaðurinn getur ímyndað sér. En ég get aflað upplýsinga um það. Það hefur komið fram og ég býst við að í þessum sal sitji til að mynda hæstv. þáv. forsrh. sem kannist við að hafa rætt við þessa aðila í þá veru. Ég get fengið staðfestingu á því en ekki hér í ræðustólnum eins og þingmaðurinn sjálfsagt veit. En það er rétt að þetta komi fram vegna þess með hvaða hætti hv. 4. þm. Norðurl. e. var að leggja til þessara manna sem hann kallaði silkihúfur hver upp af annarri ef ég tók rétt eftir.
    Ég vil líka nefna vegna hans orða að ágætir þingmenn hafa oft á orði að ráðherra vanti í salinn þegar til okkar er talað. Þingmenn tala gjarnan og hverfa svo á braut en látum það nú vera. Ég vil vekja athygli á því af því að hann spurði sérstaklega um það hvers vegna væri farið í þennan farveg með Framkvæmdasjóðinn. Við óskuðum eftir því að stjórn sjóðsins gerði tillögur um meðferð sjóðsins við núverandi aðstæður og stjórn sjóðsins lagði þessa tilhögun til í öllum meginatriðum. Þá hefur það verið upplýst.
    Að öðru leyti skildi ég ræðumennina tvo þannig að gagnvart málsmeðferðinni í þinginu væri ekki ágreiningur þó að þeir fyndu að ýmsum málatilbúnaði og umræðum sem fram hafa farið af minni hálfu og mun ég ekki fjalla frekar um það hér.