Framkvæmdasjóður Íslands

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 12:11:00 (2823)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það er greinilegt að hæstv. forsrh. er í miklum vandræðum með þetta mál. Þessi ræða hans var afar sérkennileg og með miklum endemum. Fyrst var það að hér hefði verið gert samkomulag milli þingflokka um að afgreiða málið á þessum hluta þingsins. Það er alveg rétt. Það hefur verið gert samkomulag um það og stendur ekkert til að rifta því samkomulagi. Ef hæstv. forsrh. er að tala um þá umræðu sem fram fer hér í dag þá veit hann væntanlega jafn vel og ég að ástæðan fyrir því að þetta er tekið hér í dag er að hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sem taldi nauðsynlegt að bera sérstaklega af sér þær furðulegu sakir sem hæstv. forsrh. hefur látið falla í hans garð, gat ekki verið við umræðuna á öðrum tíma, m.a. vegna þess að hann er að fara af landi brott. Þess vegna var það samþykkt milli þingflokkanna að halda fund á föstudegi kl. 10 fyrir hádegið og taka þetta mál fyrir.
    Það var ekki þar með sagt að það væri samkomulag um það að ekkert mætti tala um forsrh., ríkisstjórn hans og stöðu mála. Eða er það þannig að forsrh. er að óska eftir því að gert sé samkomulag um það að menn tali ekki um veigamikla þætti málsins, sérstaklega í máli sem hann sjálfur taldi svo mikilvægt að það var efst á dagskrá þeirra atriða sem hann setti í stefnuræðu sína þegar hann fór að lýsa fyrir þjóðinni hvers vegna þjóðin þyrfti að taka á sig margar erfiðar og óvinsælar aðgerðir? Hver er það sem hefur sett Framkvæmdasjóð Íslands sérstaklega upp sem meginviðfangsefni í glímunni milli stjórnar og stjórnarandstöðu? Það er hæstv. forsrh. sjálfur í stefnuræðu sinni á Alþingi. Ég veit að hann man það og það er óþarfi fyrir mig að fara að rekja hana fyrir forsrh. ( Forsrh.: Búinn að gera það áður.) Já já, ég hef gert það áður þegar hæstv. forsrh. gerði athugasemd við það að af því að hann hefði flutt hér, svo notuð séu hans orð, ,,tæknilega framsöguræðu`` fyrir þessu frv. þá leyfði ég mér við þá umræðu að taka málflutning forsrh. um Framkvæmdasjóð Íslands til meðferðar. Þá hneykslaðist hann á því að ég skyldi leyfa mér að fara að flytja slíka ræðu við þessa umræðu þegar hann hefði bara flutt tæknilega framsöguræðu. Því hæstv. forsrh. talaði nefnilega tvisvar við 1. umr. málsins. Hann er kannski búinn að gleyma því. Það var nokkur munur á seinni ræðunni og fyrri ræðunni, hæstv. forsrh.
    Nei, auðvitað höfum við tekið eftir því, svo að maður fjalli aðeins um vinnubrögð hjá hæstv. forsrh., að hann hefur flutt með sér inn á Alþingi þá aðferð sem hann beitti í borgarstjórn, þ.e. að matreiða sérstaka útgáfu fyrir fjölmiðlana. Umræðum í borgarstjórn er alla jafnan ekki útvarpað eða sjónvarpað. Eftir því sem mér er sagt var forsrh. sem borgarstjóri með hinar og þessar yfirlýsingar og tilþrif í ræðustólnum. Hann var aldrei reiðubúinn að samþykkja að útvarpað og sjónvarpað væri frá almennum umræðum í borgarstjórn. Síðan var búin til sérstök útgáfa handa fjölmiðlunum. Við höfum auðvitað tekið eftir þessari aðferð líka á þinginu, þ.e. þegar umræðum er lokið fer hæstv. forsrh. og segir við fjölmiðla oft aðra hluti en hann hefur sagt eða með öðrum blæ en hann hefur sagt hér í þingsalnum. Nú eða þá að utan þings er hann flytjandi ræður, haldandi blaðamannafundi og annað um málefni sem hann flytur svo bara um tæknilegar ræður í þinginu. Hæstv. forsrh. verður að una því að hann hefur sjálfur kosið að gera málefni Framkvæmdasjóðs Íslands að megintákni fyrir þau þáttaskil sem hann er að beita sér fyrir.
    Nú, síðan hefur hæstv. forsrh. lýst sérstökum vonbrigðum sínum með málflutning minn og að ég geri engar siðferðiskröfur til mín og annað í þeim dúr. Ég vil nú segja við hæstv. forsrh., líka í mestu vinsemd, svo að vitnað sé í það orðalag sem honum er greinilega orðið kært úr mínum munni, að ég tel hann engan sérstakan móralskan meistara á vettvangi stjórnmálanna. Þannig væri hann mjög aftarlega í röð þeirra manna sem ég mundi nefna sem sérstaka dómara um pólitískt siðferði. Mér finnst það fyrst og fremst endurspegla í hvers konar málefnalegt rökþrot hæstv. forsrh. er kominn í þessum leiðangri sínum að hann skuli hafa það eitt að segja um þau efnisatriði sem voru reidd fram að það sé ekki hægt að taka þessa ræðu alvarlega, sá sem hér stendur geri ekki til sín siðferðiskröfur, sé ekki sæmandi, og tala svo um eitthvert þingtæknilegt samkomulag formanna þingflokkanna sem sérstaklega var gert til þess að greiða fyrir því að hv. þm. Steingrímur Hermannsson gæti borið af sér sakir.
    Hæstv. forsrh. talaði um að ég væri hér að bera sökum fjarstadda menn. Það er auðvitað alveg rétt, okkur er nokkur vandi á höndum á Alþingi að taka til meðferðar t.d. ýmsa embættismenn ríkisins sem eiga ekki sæti á Alþingi en það jafngildir því ekki að ekki megi tala um þá og verk þeirra. Það vill svo til að Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að ég hef verið með mjög alvarlegar athugasemdir við margt af því sem Ríkisendurskoðun hefur gert, það er ekki nýtt. Ég gerði það á síðasta kjörtímabili. Ég taldi ástæðu til þess sem fjmrh. að eiga ásamt ráðuneytisstjóra fjmrn. sérstakan fund með þáv. forsetum Alþingis til þess að gera grein fyrir athugasemdum okkar í fjmrn., ekki bara mín sem ráðherra, heldur okkar í fjmrn. við ýmislegt í ályktunum og skýrslugjöf Ríkisendurskoðunar í tilteknu máli. Ég hef hins vegar talið það skyldu mína að greina þinginu frá þessu umbúðalaust. Vegna þess að Ríkisendurskoðun er lykilstofnun í stjórnkerfi okkar og ég er líklegast eini maðurinn í salnum sem hef átt langvarandi samskipti sem fjmrh. við verkefni Ríkisendurskoðunar síðan þessi breyting var gerð á stjórnskipun, að Ríkisendurskoðunin var færð frá fjmrn. og yfir til Alþingis. Það sem ég hef verið að segja hér hvað eftir annað er það að forsetadæmið á Alþingi getur ekki skotið sér undan því að það ber ábyrgð á stjórn Ríkisendurskoðunar og ber þess vegna að skoða þau mál þegar gagnrýni kemur fram, rökstudd, sem ég tel hafa verið, ekki bara hjá mér heldur hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, í umræðum um þetta mál og í skýrslu nefndar, sem forsrh. dreifði sjálfur hér á Alþingi í desember. Þá beri forsetum þingsins skylda til að taka málið til meðferðar. Það er ekki hægt að una því að uppáskriftir Ríkisendurskoðunar á reikninga ríkissjóðs séu gerðar marklausar án þess að tæmandi og viðunandi skýring fáist á því máli.
    Það urðu mér satt að segja vonbrgiði að hæstv. forsrh. skyldi ekki víkja neinu að því hér í sinni ræðu --- hann má hafa hvaða skoðanir sem hann vill á mér, það er aukaatriði í málinu. Hann gæti álitið mig vera algjöran skúrk og að engu hafandi að neinu leyti. ( Forsrh.: Það hef ég ekki sagt.) Nei, ég segi: hann mætti gera það, sagði ég. Ég hef tekið eftir því að hæstv. forsrh. hefur ekki gengið alveg svo langt, enn sem komið er alla vega. Hvað sem liði dómum hans um mig í þessum efnum þá blasa skýr efnisatriði málsins hins vegar við og hafa ekkert með mína persónu að gera. Þau efnisatriði að ríkisendurskoðandi skrifaði upp á ársreikninga Framkvæmdasjóðs fyrir árið 1989 og fann ekkert athugavert. Það var haldinn sérstakur fundur af því tilefni af fulltrúa fjmrn. í stjórn Framkvæmdasjóðs til að knýja á um og spyrja ítrekað að því hvort ríkisendurskoðandi teldi að nægilega tryggt hefði verið gengið frá afskriftum á vegum Framkvæmdasjóðs Íslands og svarið var já. Meira að segja reglurnar sjálfar var sagt að ríkisendurskoðandi hefði samið.
    Síðan skrifar Ríkisendurskoðun upp á reikningana fyrir 1990 núna í mars og það kemur fram í skýrslunni sem forsrh. hefur sjálfur dreift hér á Alþingi frá nefnd sem hann setti upp. Og það kemur fram í þeirri skýrslu að nefndin telur ekki fullnægjandi skýringar á því hvers vegna Ríkisendurskoðun kemst svo að þeirri niðurstöðu í ágúst að það vanti 1.700 milljónir. Og formaður þingflokks Alþfl. hefur séð sérstaka ástæðu til í umræðum, 1. umr. um þetta frv., að rekja þetta mál. Þannig að jafnvel þótt hæstv. forsrh. teldi mig

algjörlega óalandi og óferjandi þá breytir það engu um að þessar staðreyndir liggja fyrir. Og ég skil ekki hvers vegna hæstv. forsrh. getur ekki verið mér sammála um að það þurfi að gera eitthvað í málinu í ljósi þessara staðreynda.
    Ég vil minna hæstv. forsrh. á að ástæðan fyrir því að ég kom þeirri hugmynd hér á framfæri að menn ræddu þetta aðeins utan við þingsalinn var að ég gerði mér fulla grein fyrir að það var kannski ekki heppilegasta formið til að ræða þetta milli manna að gera það í ræðustólnum. Ég tók það skýrt fram að ég væri alls ekki að leggjast gegn því að þetta frv. væri afgreitt núna á þessum hluta þingsins, þ.e. þessum sérstaka hluta þingsins sem haldinn er núna í janúarmánuði. Þannig er það algjör misskilningur hjá hæstv. forsrh. að við séum eitthvað að tefja, eða ég með þessari ábendingu, að þetta frv. verði afgreitt. Það er mikill misskilningur. Ég get hins vegar ekki séð neina þörf á því að afgreiða það endanlega í dag. Það er ljóst að það verða hér fundir á mánudag og jafnvel þriðjudag, kannski miðvikudag svo að við höfum a.m.k. helgina og fyrsta dag í næstu viku til að bera saman bækur okkar í málinu. Og ég get alveg heitið hæstv. forsrh. því að ég skal beita mér fyrir því með honum að málið verði afgreitt. Þannig að það er alveg út í hött hjá honum að vera með einhverjar dylgjur um það að ég sé að reyna að tefja málið. Ég vek hins vegar athygli hans á því að þetta mál var ekki á þeim forgangslistum sem hann kynnti okkur í stjórnarandstöðunni hvað eftir annað á lokadögum þingsins í desembermánuði. ( Forsrh.: Jú, í byrjun.) Já, í byrjun, ég sagði á síðustu dögum. Mér er hins vegar sagt að það hafi verið vegna þess að það hafi gleymst að setja málið á listann og það má vel vera og ég get haft fullan skilning á því. Mér fannst því engin ástæða til að vera með þessar dylgjur af hálfu hæstv. forsrh.
    Forsetadæmið og forsrh. verða auðvitað að eiga það við sig hvað þau vilja gera í þessum málefnum Ríkisendurskoðunar. En ég get sagt það alveg skýrt hér: Ég ætla ekki að hverfa frá þeirri skoðun minni að ég telji gjörsamlega óviðunandi fyrir þingið að skilja þannig við þetta mál að menn hafi ekki samráð um hvað ber að gera. Ég hef óskað eftir því að fá skoðun forsetadæmisins á því hvað það hyggst gera í þessum vanda sem upp er kominn vegna Ríkisendurskoðunar. Ég gerði það í umræðum fyrir áramót, ég hef ítrekað það, ég gerði það í dag og ég tel að þessi umræða sýni að það er orðið ansi brýnt að forsetadæmið axli þá ábyrgð sem felst í því að bera samkvæmt lögum ábyrgð á Ríkisendurskoðun.
    Annað atriði sem hæstv. forsrh. vék að var að ég hefði talað eitthvað ógætilega um Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóra Sjálfstfl., og þátt hans í byggingu flugstöðvarinnar. Hér er skýrsla Ríkisendurskoðunar um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Það má vel vera að þessi skýrsla sé álíka marklaus og uppáskriftin á reikninga Framkvæmdasjóðs 1989 og 1990. En hér er engu að síður skýrslan og á bls. 42 og 43 er því lýst að Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., hafi komið inn í byggingarnefndina í ágúst 1983 og hafi þar tekið við störfum Jóns E. Böðvarssonar sem hafði verið framkvæmdastjóri byggingarnefndarinnar en hann var deildarstjóri í Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Á bls. 43 segir að Kjartan Gunnarsson, eftirmaður Jóns E. Böðvarssonar í nefndinni --- en áður var búið að tilgreina að Jón E. Böðvarsson hefði verið framkvæmdastjóri nefndarinnar --- telji sig, þ.e. Kjartan Gunnarsson, ekki hafa fengið nein sérstök fyrirmæli við skipun sína í nefndina önnur en að vinna að framgangi málsins yfirleitt. Þekking hans á lögfræði leiddi til þess að hann annaðist um samningagerð við verktaka fyrir nefndina. ( Forsrh.: Stendur að hann sé formaður nefndarinnar?) Nei, nei, það kemur ekki fram að hann sé formaður nefndarinnar, enda sagði ég það, virðulegi forsrh., hér áðan að það mætti vel vera að það væri misminni hjá mér að Kjartan Gunnarsson hefði verið formaður nefndarinnar og ég væri alveg reiðubúinn að draga þá fullyrðingu til baka.
    Það er hins vegar alveg ljóst, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að Kjartan Gunnarsson gegndi alveg sérstökum trúnaðarstörfum við byggingu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Hann annaðist samningagerð við verktaka fyrir hönd nefndarinnar, hvorki meira né minna. Þannig að það er rétt munað hjá mér, þó að ég hafi kannski farið rangt með hinn formlega titil, að hlutverk hans við byggingu flugstöðvarinnar var veigamikið. Síðan vil ég benda hæstv. forsrh. á, ef hann las ekki þessa skýrslu á sínum tíma, að það er einmitt gagnrýnin á verktakastarfsemina og hversu margir lausir endar voru við þá samningsgerð sem leiðir til þeirra áfellisdóma sem upp voru kveðnir í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar um byggingarframkvæmdina.
    Sagan var með þeim hætti að forusta Sjálfstfl. hafði tekið ákvörðun um að byggingu flugstöðvarinnar yrði að ljúka fyrir kjördag 1987 svo að hægt væri að opna flugstöðina með viðhöfn í kosningabaráttunni og að þáv. utanrrh., fyrrv. þm. Matthías Á. Mathiesen, og Sjálfstfl. gætu hælt sér af þessu verki, sem þeir og gerðu mjög rækilega í kosningabaráttunni í Reykjaneskjördæmi 1987, og það þekki ég vel, birtu m.a. af sér heilsíðumyndir í Morgunblaðinu og mig minnir einnig í DV þar sem frambjóðendur Sjálfstfl. stóðu fyrir framan flugstöðvarbygginguna til að segja Reyknesingum hvað þeir hefðu fært þeim góðar gjafir. Og þáv. hæstv. utanrrh. Matthías Á. Mathiesen hélt sérstaka og fræga kampavínsveislu í flugstöðinni, mig minnir að um 2.000 manns hafi þar mætt til að fagna þessu verki.
    Síðan komu reikningarnir. Þá kom í ljós að Íslendingar skulda nú tæpa fjóra milljarða í þessari byggingu og þáv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, neitaði að taka við þessu sukki og krafðist þess að farið yrði alveg sérstaklega yfir það hvernig mál hefðu farið svona úrskeiðis því það var alveg ljóst að á síðustu mánuðum verksins hafði verið dælt peningum í það langt umfram það sem fyrri áætlanir stóðu til. Skýringarnar komu svo, m.a. í þessari skýrslu. Kjarni þeirra var á þann veg að samningarnir við verktakana hefðu verið með þeim hætti að þeim hefði verið uppálagt að ljúka verkinu fyrir kjördag en upphæðirnar, reikningsskilin, hefðu hins vegar verið á þann veg að verktakarnir hefðu getað bætt við kostnaði hvað eftir annað eftir því sem þeir þurftu til að geta lokið verkinu fyrir kjördag svo að Sjálfstfl. gæti flaggað því sérstaklega í kosningabaráttunni. Og í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að það var Kjartan Gunnarsson sem fyrir hönd byggingarnefndarinnar annaðist samningagerðina við verktakana.
    Án þess að ég ætli að gera það að löngu máli þá er það alla vega ljóst að Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., var frá ágústmánuði 1983 aðalábyrgðarmaður samningagerðarinnar við verktakana við þessa framkvæmd og eins og fram hefur komið hvað eftir annað, m.a. í umræðum hér á Alþingi, þá er það lausungin í framkvæmdum verktakanna og kostnaðurinn við flýtinguna og möguleikar verktakanna til að skrifa nýja og nýja reikninga eftir því sem knúið var á um að hraða verkinu sem leiddu til þess að kostnaðurinn fór langt fram úr áætlun.
    Ég neita því ekki að mér fannst það þess vegna dálítið sérkennilegt, í ljósi þess sem hæstv. forsrh. hefur sagt á undanförnum mánuðum, bæði um fyrrv. ráðherra og ýmsa aðra, að þeir ættu að taka afleiðingum verka sinna í meðferð opinberra fjármála og hefur verið með harða dóma í þeim efnum, m.a. í frægri 17. júní ræðu sem ég nefndi áðan, að Sjálfstfl. skuli telja sérstaka ástæðu til að verðlauna Kjartan Gunnarsson fyrir vel unnin störf við byggingu flugstöðvarinnar með því að kjósa hann í bankaráð Sjálfstfl. ( Gripið fram í: Bankaráð Landsbankans.) --- Bankaráð Landsbankans, sem er ekki furða að mér verði á það mismæli að kalla bankaráð Sjálfstfl. A.m.k. er það þannig að Sjálfstfl. hefur talið sig eiga rétt á því að velja þarna bankastjóra. Þegar Jónas Haralz var valinn bankastjóri Landsbankans þá sagði hann í viðtali við Morgunblaðið að hann væri fulltrúi Sjálfstfl. í bankanum. Hann var ekkert að fela það. Og þegar Jónas Haralz lét af störfum þá valdi forusta Sjálfstfl. Sverri Hermannsson til þess að taka við þessu sæti. Jónas Haralz tók við af Pétri Benediktssyni, fyrrv. þingmanni Sjálfstfl. og bankastjóra. Svo það má svo sem ýmislegt segja um flokkspólitísk afskipti Sjálfstfl. af peningamálum þessa lands og hvernig sá flokkur hefur beitt pólitískum áhrifum sínum til að fara með opinbert fé og væri ærið efni til að rifja upp þá sögu einhvern tíma ef við hefðum nennu og áhuga á. En það er auðvitað í stíl við gamla kerfið, hæstv. forsrh., að velja Kjartan Gunnarsson í bankaráð Landsbankans. Það er ekkert stílbrot við hina gömlu hefð. Þar sat fyrir Friðrik Sophusson, varaformaður Sjálfstfl.
    En ég hafði í barnaskap mínum talið að hæstv. forsrh. væri marktækur í því sem

hann hefur stundum verið að segja, að hann vildi beita sér fyrir ákveðinni kerfisbreytingu í íslensku þjóðfélagi. Og sú kerfisbreyting sem er brýnust er auðvitað að losa um hin beinu flokkspólitísku tök á ýmsum fjármálastofnunum, sjóðum og ýmsum þeim stofnunum sem ráðstafa fé. Og ég hafði haldið að við val á manni á bankaráð Landsbankans yrði þá sýnt í verki að þessi stefna hefði eitthvert innihald. Ég sé hins vegar --- og er þá ekkert að dæma Kjartan Gunnarsson sem persónu eða hæfileika hans, það er fullkomlega fyrir utan þetta mál --- að þingflokkur Sjálfstfl. hefur bara kosið að viðhalda gamla kerfinu. Yfirlýsingar hæstv. forsrh. um kerfisbreytingar hvað þetta snertir eru því auðvitað jafnmarklausar og á öðrum sviðum.
    Hæstv. forsrh. sagði að hann hefði ekki verið að ráðast á sjútvrh. og það væri enn eitt dæmið um ómerkilegan málflutning minn að ég hefði leyft mér að segja það. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að hann nefndi ekki hæstv. sjútvrh. Það er alveg rétt. Enginn ágreiningur um það. En öll efnisatriðin í gagnrýninni, það sem hæstv. forsrh. kaus að reiða sérstaklega fram sem rökstuðning fyrir ályktunum sínum, voru ákvarðanir sem núv. hæstv. sjútvrh. bar ábyrgð á vegna þess að þær voru teknar annaðhvort þegar hann var fjmrh. eða þegar hann var forsrh. og eins og ég sagði áðan: Hann er sá maður í hópi stjórnmálamanna sem lengst allra hefur borið ábyrgð á Framkvæmdasjóði Íslands á þeim óheillaárum sem hér hefur verið verið talað um, 1985--1988. Það er enginn annar maður sem á sér samfelldan feril ábyrgðar á sjóðnum á þessu tímabili.
    Það má vel vera að þessi ummæli, hörðu ummæli sem hæstv. forsrh. hefur haft hér í dag og áður, svo ég nefni dæmi, varnaðarorðin sem Vilhjálmur Lúðvíksson flutti, sem menn hefðu átt að taka mark á, eigi ekki við hæstv. sjútvrh. Hann einn sé stikkfrí þótt hann hafi manna mest borið ábyrgð á málinu. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson lýsti hér mjög nákvæmlega hvernig nefnd, sem skipuð var af forsrh. Þorsteini Pálssyni undir formennsku Ólafs Ísleifssonar, sem var sérstakur efnahagsráðgjafi þáv. forsrh. Þorsteins Pálssonar og sérstakur trúnaðarmaður Sjálfstfl. og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstfl., ef ég man rétt, fyrir síðustu alþingiskosningar, lagði til að hið fræga og illræmda 800 millj. kr. lán til fiskeldis á vegum Framkvæmdasjóðs yrði tekið. Þetta eru staðreyndirnar, hæstv. forsrh., og það sem ég gerði einfaldlega var að benda á að sá maður sem stjórnarfarslega hefði borið ábyrgð á þessum málum væri núv. hæstv. sjútvrh. Auðvitað segir það sig sjálft að hæstv. forsrh. nefndi hann ekki. En dæmin og tímabilið og tilvitnanirnar voru allar af þessu tagi.
    Ég tók hins vegar eftir því að hæstv. forsrh. kaus að segja ekki eitt orð um það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson rakti hér mjög rækilega varðandi tillögugerð þeirrar nefndar sem Ólafur Ísleifsson var formaður fyrir. En það er auðvitað versta ákvörðunin að frátöldu því hvernig staðið var að sameiningu Álafoss á sínum við iðnaðardeild Sambandsins sem leitt hefur til þess að Framkvæmdasjóður er núna gjaldþrota.
    Virðulegi forseti. Ég hef við umræðu um frv. til lánsfjárlaga vakið nokkra athygli á því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir flytur þar tillögu um að ríkissjóður gerist ábyrgðaraðili á 1.700 milljónum vegna Framkvæmdasjóðs. Við þá umræðu spurði ég að því hver væri afstaða núv. hæstv. fjmrh. til þess hvernig færa ætti þessa yfirtöku í reikningum ríkissjóðs fyrir árið 1992. (Gripið fram í.) Já, það er ágætt. Ég ætlaði einmitt að segja það, hæstv. forsrh., að ég geri engar kröfur til þess að það sé gert við þessa umræðu, þótt það mætti gera það, vegna þess að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kaus að víkja sérstaklega að þessari tillögu í sinni framsöguræðu hér í dag.
    Virðulegi forseti. Ég vil nú endurtaka þá ósk mína að þessari umræðu verði verði frestað þar til tími hefur gefist til að menn beri saman bækur sínar og þar til efh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til þess að ræða við stjórn Framkvæmdasjóðs. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að leggjast gegn því að málið verði afgreitt, t.d. strax eftir helgina, get alveg stutt að það verði gert. Ég vil hins vegar bera fram þá ósk að umræðunni verði ekki lokið fyrr en efh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til þess að ræða við stjórn Framkvæmdasjóðs og við höfum haft tækifæri til þess að bera aðeins saman bækur okkar. Ég vænti þess að orðið verði við þeirri ósk samkvæmt venju. Ef hins vegar forsetadæmið ætlar ekki að

gera það, sem ég sé enga ástæðu til þess að ætla, þá vil ég til vara fara fram á það að atkvæðagreiðslan um þetta mál fari ekki fram fyrr en efh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til þess að ræða það við stjórn Framkvæmdasjóðs og við höfum haft tækifæri til þess að ræða um nokkra þætti þessa máls utan þingsalarins. Ég vil sem sagt fara fram á að atkvæðagreiðslan um málið fari ekki fram fyrr en tækifæri hefur gefist til þess að skoða þessa þætti sem ég hef hér nefnt. Ég vona að menn verði við þeirri ósk í samræmi við þær venjur sem hér hafa skapast.
    Ég ítreka það sem ég hef sagt hér nokkrum sinnum, ef það mætti verða til þess að róa hæstv. forsrh., að ég er reiðubúinn til að beita mér fyrir því að frv. verði endanlega afgreitt áður en þingið gerir hlé á störfum sínum í þessum mánuði.