Framkvæmdasjóður Íslands

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 12:46:00 (2827)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegur forsrh. hefur misskilið mín orð. Ég sagði ekki að það mætti ekki kjósa menn í blóma lífsins í bankaráð Landsbankans. Ég tel t.d. að núv. hv. þm. Steingrímur Hermannsson sé í blóma lífsins. Það sem ég var hins vegar að vekja athygli á er að hæstv. forsrh. hefur í sumar og haust þóst vera talsmaður nýrra viðhorfa í samskiptum stjórnvalda og stjórnmálaflokka við sjóði, stofnanir, banka og fjármálakerfi. Ég lýsti þeirri skoðun minni að ég bjóst þess vegna við því að þessi nýju viðhorf kæmu e.t.v. fram þegar Sjálfstfl. veldi nýjan mann í bankaráð Landsbankans. Hann yrði valinn úr hópi þeirra manna sem fyrst og fremst hafa kunnáttu á sviði þessara mála án þess að vera tengdir inn í daglega pólitíska baráttu. Nei, það var ekki.

    Sjálfstfl. valdi þann mann sem er í beinum tengslum við daglega, pólitíska baráttu Sjálfstfl. og flokkslegan rekstur hans, yfirmaðurinn á flokkskontórnum. Það er sá maður í flokkskerfi Sjálfstfl. sem ásamt formanninum ber daglega mesta ábyrgð og skyldur gagnvart rekstri flokksins. Það var því ekki bara verið að velja einhvern forustumann á sviði stjórnmála. Verið var að velja þann mann sem næst hæstv. forsrh. stendur í að reka Sjálfstfl. frá degi til dags.
    Þegar hæstv. forsrh. vildi gera það að hliðstæðu við valið á Lúðvík Jósepssyni í bankaráð Landsbankans vakti ég athygli á því að Lúðvík Jósepsson tók sæti í bankaráðinu um þær mundir sem hann hætti opinberum afskiptum af stjórnmálum. En sá sem Sjálfstfl. valdi í bankaráðið hefur það sem daglegt verkefni að annast hina pólitísku baráttu Sjálfstfl.