Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 15:21:00 (2838)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Því miður þá get ég ekki svarað öllum atriðum sem komu fram í ræðu hv. þm. núna. Vonandi gefst tækifæri til þess síðar. Vegna orða hans um þróun raungengis vil ég þó að þetta komi fram:
    Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka var raungengi á síðasta ársfjórðungi, 1991, svipað á mælikvarða launa og að meðaltali tímabilið 1980--1990. Á mælikvarða verðlags var raungengið um 2,5% hærra en meðaltal þessa tímabils. Sé hins vegar horft til skemmri tíma fæst sú niðurstaða að raungengi í árslok 1991 hafi verið 4--5,5% hærra en árið 1990. Lægri talan er vegna mælikvarða verðlags, hin vegna launa. Skýringin á hækkun raungengis upp á síðkastið er fyrst og fremst sú að verðlags- og launakostnaður hefur hækkað meira hér á landi en í nágrannalöndunum. Þannig hækkuðu laun að jafnaði um 9--10% á síðasta ári hér á landi en um 5--6% erlendis. Sömuleiðis hækkaði verðlag um 7% en 4,5--5% erlendis.
    Þessi þróun snýst við á þessu ári ef forsendur fjárlaga ganga eftir. Þá munu bæði verðlag og laun hækka minna hér á landi en í nágrannalöndunum og raungengið, sama á hvorn mælikvarðann er mælt, mun því lækka á nýjan leik um allt að 2--3%. Þar með væri staðan í árslok orðin svipuð og var árið 1990. Þetta fannst mér ástæða til, virðulegi forseti, að kæmi fram vegna orða í síðasta kafla ræðu hv. ræðumanns sem hér var að ljúka máli sínu.