Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 15:23:00 (2839)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :

     Virðulegi forseti. Ég hef eiginlega ákveðið að vera ekkert að elta ólar við þá gagnrýni sem hefur komið fram frá ýmsum í stjórnarandstöðunni á m.a. orð mín um samanburð á því sem þeir hafa vilja kalla kommissaranefnd eða eftirlitsaðila og hefur verið gagnrýnt svo mjög, m.a. hér úr ræðustóli. Ég hef að sumu leyti nokkuð gaman af þessu máli en ég vil ítreka þann samanburð sem ég setti fram í tilefni af orðum hv. 7. þm. Reykn. Steingríms Hermannssonar. Hann lagði mikla áherslu á hvernig þetta mál hefði verið unnið á sínum tíma í milliþinganefnd, í frv. um Stjórnarráðið, að hann hefði vitað að það þyrfti að fara varlega í orðalag og að þetta frv. hefði ekki verið samþykkt. Þetta er í raun aukaatriði miðað við það sem a.m.k. ég hef sett fram.
    Um leið og kom fram tillaga um eftirlitsaðila af hálfu þessarar ríkisstjórnar kom fram hávær gagnrýni um að þarna væri verið að setja fram pólitíska kommissara. Það var ekki spurt um orðalag. Það var ekki spurt: Hvað meinið þið? Hversu sterkt og mikið á þetta eftirlit að vera? Það var staðhæfing um að þarna væri verið að gera vonda og ljóta hluti. Það var þess vegna sem ég hafði gaman af því að benda á að áþekkir hlutir hefðu verið settir fram í frv. og á þeim tíma var ekki hrópað upp: Hvað þýðir þetta? Er þetta vont mál? Eru þetta pólitískir kommissarar? Nei, þetta lá ljúflega frammi í efri deild og það er aukaatriði hvort stjórnarliðar voru búnir að samþykkja það, þeir voru ekki að ræða það og það var ekki verið að hrópa upp um það. Því hef ég kallað þetta litbrigði viðhorfa eftir því hvort maður er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þetta mun verða skoðun mín alveg óháð því hvaða skoðun stjórnarandstaðan hefur á því sem ríkisstjórnin ætlar að gera eða hver skoðun almennt er á því að setja eftirlitsaðila, tilsjónarmenn, eða hvaða nöfn eru notuð, þegar menn á annað borð komast að þeirri niðurstöðu að æskilegt sé að geta haft afskipti af stofnunum sem undir þá heyra.