Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 15:29:00 (2841)


     Halldór Ásgrímsson (frh.) :
     Herra forseti. Það var fyrir jól að ég var nýlega búinn að hefja ræðu mína um þetta mál þegar málinu var frestað og vil ég þá halda áfram þar sem frá var horfið. Það er svo með þetta mál að full ástæða hefði verið til að láta það bíða því það hefur komið í ljós að margt af því sem fram var lagt var illa undirbúið og ekki nægilega vel hugsað. Þess vegna vekur það upp margar spurningar hvernig á því stendur að hæstv. ríkisstjórn hafði ekki undirbúið þetta mál betur en raun ber vitni.
    Þegar núv. ríkisstjórn var mynduð þá var það alveg ljóst að eitt af þeim miklu

vandamálum sem hún mundi hafa við að glíma var fjárlagavandinn. Ríkisstjórnin gerði mikið úr þeim vanda strax í upphafi og ekkert að nauðsynjalausu. En því hefði mátt ætla að tíminn yrði vel notaður til að undirbúa aðgerðir að því er varðaði fjárlögin.
    Ríkisstjórnin ákvað að byggja þjóðhagsáætlun á þeirri forsendu að hér yrði reist álver á næsta ári. Það var að sjálfsögðu mikilvægt að vinna að því máli af fullum krafti en að margra mati óvarlegt að gera ráð fyrir því í áætlunargerð þá strax í upphafi að þetta álver mundi rísa. Það hefði verið betra að standa þannig að málum eins og t.d. Vinnuveitendasamband Íslands lagði til, að gera ekki ráð fyrir byggingu þessa álvers heldur endurskoða þjóðhagsáætlun ef svo vel vildi til að þessi bygging myndi rísa. Það var því byggt á nokkuð björtum vonum og þar af leiðandi lenti ríkisstjórnin í verulegum vanda með fjárlagaundirbúninginn. Og bera þessi vinnubrögð hér á haustmánuðum þess glögg merki.
    Í upphafi þessa máls, þegar fyrir því var mælt þann 6. des. sl., þá hélt hæstv. forsrh. almenna ræðu um stöðu efnahagsmála og gerði þar margt að umtalsefni. Hann gerði m.a. grein fyrir því hvað stjórnarandstaðan vildi gera við núverandi aðstæður og ég vil í upphafi ræðu minnar vitna til þess en hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þeir vilja stórhækka skatta og aðrar álögur á almenning. Þeir vilja grípa til stóraukinnar erlendrar lántöku, eins og áður sagði. Þeir vilja veita fjármunum á báða bóga í fyrirtækin án tillits til þess hvernig staðið er að rekstrinum. Umfram allt vilja þeir að skömmtunarvaldið sé hjá sér í því skyni öðru fremur að hygla sér og sínum.``
    Þetta eru stór orð. Og það eru alvarlegar ásakanir þegar hæstv. forsrh. sakar stjórnarandstöðuna í heild sinni um að vilja grípa til ráðstafana sem byggja fyrst og fremst á því að hygla sér og sínum. Við hvað er átt í þessu sambandi, hæstv. forsrh.? Á hæstv. forsrh. við það að stjórnarandstaðan hér á Alþingi vilji gera ráðstafanir í samræmi við það sem hentar persónulegum hagsmunum hennar? Eða hagsmunum sérstakra umbjóðenda stjórnarandstöðunnar? Mér er alveg fullkomlega ljóst að hæstv. forsrh. hefur gagnrýnt margt af því sem áður hefur verið gert og sumt af því er gagnrýnivert. Það er t.d. alveg ljóst að það hafa orðið veruleg mistök í sambandi við uppbyggingu fiskeldis. Og þau útlán sem þar hafa tapast er að hluta til um að kenna ófullnægjandi undirbúningi. Hins vegar hygg ég að erfitt sé að kenna einum einstökum flokki um þó að hæstv. forsrh. sé mjög gjarn á að orða slíkt sérstaklega við Framsfl.
    Ég vil t.d. fullyrða að lánveitingar, sem áttu sér stað af hálfu Atvinnutryggingarsjóðs í sjávarútveginum, byggðu á almennum aðgerðum og almennu mati sjóðstjórnarinnar. Og þar voru ágætir embættismenn sem fjölluðu um það mál. T.d. var af hálfu sjútvrn. þannig að staðið að einn hæfasti embættismaðurinn í því ráðuneyti var valinn til að vinna að því verki. Það er því ansi mikið sagt þegar menn gera stjórnarandstöðunni upp slíkar skoðanir.
    En látum það vera. Hvað er það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera? Er hún ekki að hækka skatta? Er hún ekki að auka álögur á almenning í þessu máli? Það er að vísu rétt að hæstv. ríkisstjórn leggur mikið upp úr því að skattprósentan í tekjuskattinum breytist ekki. M.a. af þeirri ástæðu að ríkisstjórnarflokkarnir höfðu lýst því yfir að skattar mættu ekki hækka. Í stað þess eru aðrir skattar hækkaðir og einnig er útgjöldum velt yfir á sveitarfélögin sem menn töldu að væru aflögufær en hefur hins vegar þau áhrif að sveitarfélögin hækka sína skatta.
    Hvaða tilgangi þjónar það að standa þannig að málum að breyta alls ekki skatthlutfalli ríkisins en leggja hins vegar byrðar á aðra aðila sem verða þá að hækka sitt skatthlutfall? ( Forsrh.: Ekki öll.) Ekki öll? Það má vel vera, hæstv. forsrh., að í einstaka tilvikum þá sérstaklega að því er varðar stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, sem telur sig hafa stöðu til að taka þessar álögur á sig. Það má vera vegna þess að þetta sveitarfélag hafi eytt það miklu fé til verka sem menn sjá nú möguleika á að draga saman og ætla ég ekki að fara út í nánari útlistanir á því hvaða stórvirki það eru þó að full ástæða væri til. En það sem ég tel sérstaklega gagnrýnivert í því sem það sveitarfélag hefur verið að gera er hin mikla uppbygging á veitingahúsarekstri hér í borginni. Ég tel það ekki vera verkefni sveitarfélaganna að standa fyrir byggingu og kaupum á veitingahúsum. En það vill svo vel til

að mögulegt er í því tilviki að draga seglin saman í sambandi við uppbyggingu á þeirri starfsemi og þar af leiðandi getur þetta sveitarfélag vonandi tekið þetta á sig. Og auðvitað eru ýmsar aðrar ástæður þar að baki eins og sterk staða þess sveitarfélags, m.a. vegna þess að það hefur almennt hærri tekjustofna en mörg minni sveitarfélögin. En hin sveitarfélögin verða að gera það, sveitarfélögin úti um land þar sem menn eru ekki sérlega vel í stakk búnir til að taka á sig auknar álögur. Og við erum jafnframt áhugasöm um að fólkið búi sem víðast um landið. Og þegar þannig er staðið að skattheimtu að hún komi fyrst og fremst fram sem aukin skattlagning í minni sveitarfélögunum þá verður það að sjálfsögðu til þess að beina athyglinni að stærsta sveitarfélaginu og er þá væntanlega ábending ríkisstjórnarinnar um að þar sé best að búa og þangað skuli menn flytja því þar sé skattheimtan minnst.
    Menn verða að hafa í huga hvaða afleiðingar skattheimtan hefur en ekki að standa við ákveðnar kennisetningar og hanga í því að skattprósenta ríkisins megi alls ekki breytast þegar niðurstaðan verður sú að heildarskattheimtan eykst. Það er mikilvægara að hafa í huga að skattheimtan sé réttlát heldur en að hanga í þeirri kennisetningu að skattheimta ríkisins megi alls ekki aukast. Ég er ekki með því að segja að það sé heppilegt að auka skattheimtu ríkisins. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að halda henni í skefjum. En ég vil líta á það mál í samhengi við aðra skattheimtu í landinu.
    Nú er það svo, hæstv. forseti, að mér skilst að sá ræðumaður sem ætlaði að tala hér á undan hafi ekki getað gert það vegna fjarveru tiltekinna ráðherra. Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að gera kröfu til hæstv. forsrh. eða fjmrh. Ég skil það vel að þeir þurfi að bregða sér frá í þessum umræðum en ég vænti þess, ef það væri mögulegt, að hér síðar á fundinum meðan ég flyt mitt mál, en ég ætlaði mér ekki að hafa það mjög langt, yrði formaður fjárln. hér viðstaddur og jafnframt hæstv. samgrh. Og ég á mjög erfitt með að ljúka minni ræðu áður en þeir hafa komið en ég ætlast ekki til að þeir hafi hér mjög langa viðdvöl en vildi hins vegar biðja um að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að ég gæti --- ( Forseti: Forseti mun gera það, en ef forseti man rétt þá er hv. form. fjárln. veikur, hafði veikindaleyfi í gær og forseti telur að hann hafi ekki komið til þings í dag. Varðandi samgrh. mun forseti gera ráðstafanir.) Nú, ég þakka forseta. Að sjálfsögðu gerir ræðumaður ekki kröfur um að veikir menn verði sóttir því ekki liggur svo mikið við og væri það bæði óeðlilegt og ósanngjarnt að gera slíka kröfur þannig að ég fell þá þar með frá henni.
    En það er mikil spurning hvernig að slíku er staðið. Og það er mikill misskilningur hjá hæstv. forsrh. að halda að stjórnarandstaðan vilji byggja á slíku óréttlæti eins og að ausa fjármunum á báða bóga og hygla sér og sínum. Það var margt fleira sem hæstv. forsrh. sagði í þessari ræðu. Hann sagði jafnframt og ég held gott sé að rifja upp þegar hann var að tala um þá sem hafa staðið hér að málum á undanförnum árum. Orðrétt segir hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þeir vilja komast á nýtt stefnumót við fortíðina, efna til annarrar veislu á kostnað framtíðarinnar þar sem þeir bjóða mönnum til sætis og útvega veisluföngin á kostnað afkomenda okkar.``
    Já, það voru stór orð notuð af hæstv. forsrh. þegar hann mælti fyrir þessu máli. Það má vel vera að hæstv. forsrh. líti þannig á að hér hafi verið sérstök veisluhöld á undanförnum árum og jafnvel áratugum. En þrátt fyrir allt, þó að ýmis mistök hafi átt sér stað, höfum við verið að byggja hér upp gott samfélag og velferðarkerfi sem stendur framar en víðast hvar er í heiminum. Okkur hefur auðnast að byggja upp samhjálp í landinu sem er máttarstólpi í lýðræðisvitund Íslendinga. Ekki hafa menn gert það með þá hugsun að baki að þar væri mönnum boðið til veislu og vísað þar sérstaklega til sætis. Sem betur fer hafa það verið almenn réttindi í okkar landi að eiga kost á skólagöngu og góðri heilsugæslu. Vandfarið er með slíka hluti. Auðvitað er tilhneiging til þess að slíkt vindi upp á sig og ekki er endalaust hægt að auka útgjöld á þeim sviðum, það skal ég fúslega viðurkenna. En hvað um það, þá eru það hlutir sem ég átti ekki von á að hæstv. forsrh. mundi ræða með þessum hætti. Ég vil ekki gera honum upp neinar slíkar hvatir að hann vilji standa þannig

að málum.
    Oft er sagt að hér falli þung orð og þeir sem í stjórnarandstöðu starfa séu lítt málefnalegir, og fyrir hefur það komið að þeim sem hér stendur hefur fundist það. En ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að mikilvægt væri fyrir ríkisstjórn og aðstandendur hennar á hverjum tíma að þola gagnrýni og verða að hlusta á aðrar raddir því að þeirra er ákvörðunarvaldið, þeirra er meiri hlutinn. Þó er það jafnframt hollt fyrir stjórnarandstöðuna að fá á sig gagnrýni og þola margt sem menn segja. Þó að auðvitað séu hlutir líka gagnrýniverðir hjá stjórnarandstöðunni tel ég að hér sé mælt með þeim hætti að ekki sæmi hæstv. forsrh. --- Þar sem hann hefur þurft að bregða sér frá vil ég taka fyrir mál sem varða hæstv. fjmrh. því hann er hér staddur og bíða þess að hæstv. samgrh. komi hér.
    Hæstv. fjmrh. hefur lagt það til, eða ég hef skilið það svo, að settir yrðu sérstakir tilsjónarmenn til að hafa eftirlit með starfsemi ríkisstofnana. Ég var reyndar búinn að lofa hæstv. fjmrh. því að ég mundi halda um það eina ræðu enn og tel ég fulla ástæðu til. Upphaflega lagði hæstv. fjmrh. það til að lög yrðu sett um þetta mál með eftirgreindum hætti. Vitna ég þá til 6. tölul. bréfs hæstv. forsrh., sem ég hygg að leggi það til fyrir hönd fjmrh. til efh.- og viðskn. Það er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Hlutaðeigandi ráðherra er heimilt að setja mann, eða nefnd manna um tiltekinn tíma, til að vera fjárhaldsmenn stofnana, einnar eða fleiri í senn. Starfssvið fjárhaldsmannanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og áætlanagerð stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal um starfsmannahald. Kostnaður við starf fjárhaldsmanna greiðist af viðkomandi stofnun.``
    Síðan hefur þessu verið breytt og ný tillaga borist um þetta efni og í brtt. meiri hlutans hefur --- þakka þér fyrir, hæstv. fjmrh. Ég er með heldur mikið af plöggum með mér en einhvers staðar er þetta nú. --- Þar hefur þessi breyting verið gerð:
    ,,Hlutaðeigandi ráðherra er þó heimilt að setja mann eða nefnd manna, um tiltekinn tíma, til að vera tilsjónarmenn stofnana . . .  `` Ég vek athygli á því að í stað orðsins fjárhaldsmenn er nú komið tilsjónarmenn. Þetta er út af fyrir sig mikilvæg orðalagsbreyting. En ég tel að það skipti ekki meginmáli, hæstv. fjmrh., hvað þessir menn heita. Aðalatriðið er hvað þeir eiga að gera. Nú er búið að bæta því við að það skuli aðeins gera, eins og kemur fram í brtt., ef sýnt þykir að kostnaður við rekstur þeirra fari fram úr þeim fjárveitingum sem fjárlög ákveða.
    Það er afar mikilvægt að halda fjárveitingum innan ramma fjárlaga. En maður spyr sjálfan sig: Hvert er vandamálið? Er líklegt að sérstakir fjárhaldsmenn eða tilsjónarmenn geti leyst þetta vandamál? Ég held ekki. Það hefur líka komið fram að allar heimildir eru til þess að herða eftirlit með stofnunum eftir því sem viðkomandi ráðherra telur rétt á hverjum tíma. En síðan kemur það sem meginmáli skiptir, óbreytt og er eftirfarandi: ,,Starfssvið tilsjónarmanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlana stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal um umfang starfsmannahalds, í samráði við ráðherra, eftir því sem nánar er lýst í erindisbréfi hverju sinni.``
    Þetta er aðalatriðið, hæstv. fjmrh., þ.e. hvað þessum mönnum er ætlað að gera. Þeim er ekki aðeins ætlað að hafa eftirlit með reikningshaldi og fjárhagsáætlunum og athuga rekstur þessara stofnana og tilkynna það til viðkomandi ráðherra svo að hann geti tekið frekari ákvarðanir. Nei, þeim er ætlað að taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar. Þar með eru þeir fjárhaldsmenn viðkomandi stofnana, hvort sem þeir heita fjárhaldsmenn, tilsjónarmenn, pólitískir kommissarar eða hvaða nafngift menn annars nota í þessu sambandi. Mér þykir það ekki samrýmast venjulegum viðskiptareglum og stjórnunarreglum að sú staða geti komið upp að þyki eitthvað athugavert við rekstur stofnunar sé þar settur inn sérstakur maður til þess að vera fjárhaldsmaður hennar.
    Við skulum taka dæmi um stóra stofnun, sem er eftir því sem ég veit best tiltölulega vel rekin. Við skulum taka stóra stofnun eins og Póst og síma og taka það dæmi að þar þyki illa á málum haldið. Eftir því sem ég veit best eru alls ekki nein efni til að efna til slíks í því tilviki. Halda menn að það væri gott til árangurs í því tilviki að senda þangað inn aðila sem ættu að taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar þeirrar stofnunar ef forstjóri og stjórn þeirrar stofnunar sætu jafnframt eins og ekkert hefði í skorist? Er það venjulegt í fyrirtækjarekstri, ef illa gengur í viðkomandi fyrirtæki, að setja nýjan forstjóra við hliðina á þeim gamla sem er sendur þangað inn til þess að taka af honum öll völd? Það er mjög óvenjulegt og ég veit ekki mörg dæmi þess. Það er hins vegar eðlilegt að fá aðila til að fara ofan í reksturinn, gera tillögur um úrbætur, gefa viðkomandi forstöðumönnum fyrirskipun um að gera þar breytingar á og skipa þeim að framkvæma þær. Ef viðkomandi aðilar vilja ekki gera það og telja sig ekki hæfa til þess þarf væntanlega að grípa til nýrra ráðstafana.
    Ég vil benda á að fyrir eru í ríkiskerfinu margar eftirlitsstofnanir og margar aðferðir til þess að koma vilja ráðherra í framkvæmd. Ríkisbókhaldið annast allt bókhald fyrir þessar stofnanir almennt séð. Hagsýslan er ávallt reiðubúin til þess að hafa hönd í bagga. Ráðuneytin hafa flest hver aðila til þess að fylgjast með fjárhag stofnana og síðan er Ríkisendurskoðun sá aðili sem hefur eftirlit með framkvæmd fjárlaga og gefur ábendingar um það sem miður fer. Núorðið gefur Ríkisendurskoðun út skýrslur um framkvæmd fjárlaganna að því ég best veit tvisvar á ári.
    Ríkisendurskoðun hafði líka margvíslegar athugasemdir við þetta mál og setur fram þarfar ábendingar um það hvað einkum þurfi að gera. Það er satt best að segja dæmigert fyrir alla þá vinnu sem farið hefur fram að undanförnu að lítt er hlustað á gagnrýni og þarfar ábendingar. Ríkisstjórnin er tilbúin að breyta orðalagi og finna betri nöfn á það sem gera skal en efnislega vill hún engu breyta. Það er mjög slæmt í máli sem þessu að hætta ekki einfaldlega við það. Ég skal hins vegar viðurkenna að erfiðara er orðið um vik að draga þetta til baka af þeirri einföldu ástæðu að menn mundu sjálfsagt líta þannig á, ef hætt yrði við þetta, að það stæði ekki til að hafa neitt eftirlit með ríkisstofnunum. En ég undrast að slíkt ráðslag skuli sett fram í tillögum um lagabreytingar þegar það er beinlínis viðurkennt af þeim sem að þeim stóðu að ekki séu lagalegar ástæður til þess heldur fyrst og fremst pólitískar og efnahagslegar.
    Lögin eru til þess að gera það mögulegt að koma ákveðnum hlutum í framkvæmd. Ef lög eru þannig að það er hægt að hafa fullt eftirlit með framkvæmd fjárlaga þarf ekki að breyta þeim. Ef menn vilja leggja sig sérstaklega fram um að framkvæma þessi lög með mjög ákveðnum hætti gera menn það ekki með því að leggja fram tillögur um lagabreytingar. Menn skrifa bréf og kalla menn fyrir og tilkynna þeim að nú standi til að taka mjög ákveðið á framkvæmd mála.
    Vel má vera að hæstv. ríkisstjórn líti svo á að svo mikið sé af óhæfum forstöðumönnum innan ríkisgeirans að sérstök ástæða sé til að styrkja heimildir sínar í þessu sambandi. Það má vel vera að hæstv. ríkisstjórn leggi svo mikla áherslu á að koma einhverjum tilteknum mönnum til starfa að finna þurfi fyrir þá einhver góð verk. Ég ætla ekki að hafa uppi neinar fullyrðingar um það en þetta vekur allt tortryggni og merkilegt að mínu mati að hæstv. ríkisstjórn skuli leggja slíkt ofurkapp á ákvæði sem þetta.
    Ég hef gagnrýnt þetta mál mjög harðlega og tel það ekki samrýmanlegt venjulegum stjórnunarreglum að senda sérstaka menn til að taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar nema öðrum sé vikið til hliðar. Ég óttast að það muni hafa í för með sér alvarlegt ástand í þeim stofnunum sem þetta annars kann að hitta. Nú má vel vera að hæstv. ríkisstjórn ætli sér ekkert með þetta og væri þá illa farið með þann tíma sem það hefur tekið að ræða málið. En það má hæstv. fjmrh. vita að full ástæða er til þess að þetta sé rætt. Ég vil hins vegar hvetja hann til þess að flytja á Alþingi það frv. sem hefur verið alllengi í vinnslu og varðar greiðslur úr ríkissjóði því ég held að slík löggjöf sé mjög mikilvæg og varði grundvallaratriði þessa máls.
    Nóg um það, ég skal ekki ræða frekar um þessa tilsjónarmenn en vænti þess að hæstv. fjmrh. hugsi um þetta einu sinni enn og athugi hvort ekki gæti verið betra að láta þetta bíða en leggja fram í þess stað hið fyrsta frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði sem ég veit að hæstv. heilbrrh. er jafnframt mikill áhugamaður um. Hann hafði forgöngu um það sem formaður fjvn. að koma því máli fram. ( Gripið fram í: Það verður gert líka.) Já,

það er nú það.
    Ég var að vænta þess að hæstv. samgrh. mundi koma hingað. ( Forseti: Samkvæmt viðveruskrá var ráðherrann einmitt að ganga í húsið í þessum töluðum orðum. Hann hlýtur að ganga hér í salinn.) Hæstv. forseti, ég fagna því sérstaklega að hæstv. samgrh. skuli hingað kominn og ég skil vel að það hefur tekið tíma.
    Ég vil meðan ég bíð eftir hæstv. samgrh. víkja að verkefnum sveitarfélaganna. --- Þar kemur hæstv. samgrh. Ég vil gjarnan, hæstv. samgrh., að hæstv. fjmrh. hlýði á það líka en það er ekkert sem skiptir meginmáli. Það er alveg nóg að hafa einn ráðherra í einu, ég vil ekki vera allt of kröfuharður í þeim efnum. ( Gripið fram í: Þú ert með tvo.) Það er sérstakur heiður --- og þrjá.
    Það sem ég vil gera hér að umræðuefni eru lífeyrisréttindi og eftirlaunagreiðslur til sjómanna og er gott að hæstv. heilbr.- og trmrh. hlýðir á það líka. ( Gripið fram í: Og formaður Sjómannafélags Reykjavíkur.) Ég vil minna hæstv. samgrh. á að þessi mál heyra líka undir hann, þ.e. öryggismál sjómanna, og oft hefur verið nokkur vafi á því hvaða ráðherra fari með þessi mál. Talið hefur verið að fjmrh. bæri ábyrgð á lífeyrismálum, heilbr.- og trmrh. á almannatryggingalöggjöfinni, samgrh. á öryggismálum og síðan hefur embætti sjútvrh. jafnframt blandast inn í þessi mál, m.a. inn í lífeyrismálin. Ég fór fram á það í efh.- og viðskn. að saga þessa máls yrði rifjuð upp þannig að mönnum mætti vera ljóst hvað bjó að baki þegar það var ákveðið að . . .   (Gripið fram í.) Það kallast fortíðarvandi, hæstv. heilbrrh., og heyrir undir forsrn. Það má vel vera að þetta sé eitt af því sem kallast fortíðarvandi og hæstv. forsrh. sé ekki kominn svona langt. Ég get vel skilið að hann er ekki kominn aftur í forsætisráðherratíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens. En hæstv. samgrh. er hins vegar afar fróður um það tímabil enda opnar maður vart þingtíðindi öðruvísi en að sjá það að núv. hæstv. samgrh. hefur annaðhvort verið að tala um þingsköp eða hefur beðið um orðið utan dagskrár. Ég var að leita að upplýsingum um þetta mál í gær og var þá var við það að hæstv. núv. samgrh. talaði mjög mikið um þingsköp og utan dagskrár þótt ekki hafi það verið daglega.
    Ég vil vekja athygli á því að um þetta mál var samið í kjarasamningum 1980 ásamt ýmsum öðrum réttindamálum launþega. Það var gagnrýnt af mörgum að svo langt væri gengið í að koma í veg fyrir kauphækkanir og tryggja ýmsum launþegum meiri réttarbætur á mörgum sviðum. Hins vegar var það gert og þessar réttarbætur hafa ekki verið teknar til baka nema í mjög litlum mæli. Ég vil vekja athygli á því að þegar ákveðið var að ellilífeyrir væri greiddur til sjómanna á aldrinum 60--67 ára var það gert með algjörri samstöðu á Alþingi. Enginn hv. þm. greiddi atkvæði gegn því. Málið fór hér í gegn tiltölulega umræðulítið. Ég vil í þessu sambandi rifja upp hvað talsmenn núverandi stjórnarflokka sögðu við þetta tækifæri en hæstv. samgrh. sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta, þáv. hv. þm. Halldór Blöndal, þann 18. febr. í neðri deild:
    ,,Hér er um bæði menningarlegt mál að ræða og mikið nauðsynjamál. Og ég vil beina því til þeirrar nefndar sem tekur málið til meðferðar að láta það fá fljóta afgreiðslu og íhuga hvort 25 ár séu eðlilegur tími eða kannski megi lækka mörkin niður í 20 ár. Jafnframt þætti mér sanngjarnt að þessi lög yrðu afturvirk að því leyti að þau næðu a.m.k. til áramóta.``
    Hæstv. núv. samgrh. var ekki með neinar efasemdir um réttmæti þessarar löggjafar í þessari óvenju stuttu ræðu sinni. Hann vildi hins vegar benda á að rétt væri að rýmka réttinn. Í stað þess að miða við 25 ár mætti miða við 20 ár. Trúlega væri rétt að borga þetta eitthvað aftur í tímann svo að réttlætinu væri fullnægt. Nú er ekki verið að hugsa um það. Ekki er verið að hugsa um að borga þetta aftur í tímann, það er verið að hugsa um það, hæstv. samgrh., að taka þetta af um alla framtíð.
    Síðan var annar talsmaður núv. stjórnarflokka í efri deild, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, núv. form. fjárln., og hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, þá ánægju sem menn hafa sýnt yfir því að þetta frv. skuli nú vera komið úr nefnd. Rétt er að geta þess að það ákvæði sem hér hefur verið tekið upp er þáttur í kjarasamningum sem Sjómannasamband Íslands

þurfti að knýja á um en eftir stendur það að Lífeyrissjóður sjómanna er afskaplega illa staddur og lífeyrir sem sjómenn fá er afar nöturlegur, ég tala nú ekki um aðstandendur þeirra. Nokkur bót varð á við síðustu samninga en betur þarf að gera til þess að réttlæti verði náð.``
    Síðan sagði hv. þm.:
    ,,Það var mikils virði að sérstaða sjómanna var viðurkennd. Hjá öðrum þjóðum tíðkast það með þá sem í herþjónustu eru að þeir komast á eftirlaun fyrr en aðrir. Ýmsar aðrar starfsstéttir gera það einnig, stafsstéttir sem eru metnar á þann hátt að þær skipta feikilega miklu máli fyrir viðkomandi þjóð. Ég tel að ástæða sé fyrir okkur að líta á sjómannastéttina sem okkar hermenn, okkar starfsmenn við að halda uppi lífskjörum þjóðarinnar og við þurfum að meta það svo sem unnt verður.``
    Þetta var vel mælt af talsmanni Alþfl. á þeim tíma og sýnir vel hvaða hugur fylgdi þessu máli. Ég vil ítreka að um þetta var algjör samstaða. ( Gripið fram í: Var þetta sagt á Flateyri?) Þetta var sagt þann 10. apríl í efri deild Alþingis.
    Áður en þessi fallegu orð voru flutt á Alþingi hafði hv. þm. Pétur Sigurðsson, fyrrv. alþm., flutt þetta mál hér inn og haldið um það margar ræður og ætla ég ekki að vitna sérstaklega til orða hans í þessu sambandi. En aðalatriðið er að á þessum tíma voru lífeyrisréttindi sjómanna afar lítil og það gekk illa að ná samstöðu um að þeir greiddu af launum sínum í lífeyrissjóð eins og aðrar starfsstéttir í landinu. Það var ekki fyrr en á árunum 1985--1987, eftir endurskoðun sjóðakerfisins, að tókst með sameiginlegu átaki ráðuneyta, starfsstéttanna og útvegsmanna að ná samkomulagi í því máli sem mun verða til þess að byggja upp eðlilegan lífeyrisrétt sjómanna í framtíðinni. En réttur flestra þessara aðila er mjög ungur og gefur því ekki mikil réttindi í dag.
    Menn eru að gleyma miklu úr þessari sögu ef það á að afnema þetta nú með einu pennastriki. Það er sérstaklega óréttlátt í ljósi þess að lífeyrisgreiðslur skerða ekki rétt til ellilauna heldur aðeins aðrar tekjur. Því verður það sérstaklega óréttmætt hjá aðilum sem hafa sáralítinn lífeyri og fengu síðan uppbót í formi ellilífeyris til þess að bæta upp þennan lífeyri, ef nú á að skerða hann.
    Ég vil hvetja til þess að þetta mál verði tekið fyrir á nýjan leik í efh.- og viðskn. og menn verði í fullri vinsemd tilbúnir til að rifja upp hvernig þetta mál er til komið. Það er ekki við hæfi að ganga til samninga um mikilvægt réttindamál við stóra stétt í landinu undir fögrum orðum, samþykkja það á Alþingi mótatkvæðalaust, hver einasti þingmaður, gleyma því svo í einni svipan og vera ekki einu sinni tilbúinn til að rifja það upp. Því miður þá var því neitað í heilbr.- og trn. að kalla fyrir fulltrúa sjómanna í þessu máli. Þó fékkst fram í efh.- og viðskn. að byrja að ræða þetta mál en ég fór þess á leit að sett yrði saman skýrsla um sögu málsins þar sem m.a. þessi sannindi hefðu komið í ljós en menn töldu ekki rétt að gera það.
    Nú er það ekki svo að ekki megi hugsa sér að breyta einhverju í þessu máli. E.t.v. mætti hugsa sér að þessi réttur yrði tekinn af þeim aðilum sem hefðu mjög háan lífeyrisrétt. Ég ætla ekki að fara að skilgreina hvað er mjög hár lífeyrisréttur. Það má e.t.v. segja að óeðlilegt sé að maður á aldrinum 60--67 sem hefur tiltölulega góðan lífeyrisrétt og er þar að auki með fullt starfsþrek njóti þessara réttinda. Ég tel með öllu óeðlilegt að maður sem hefur sáralítinn lífeyri njóti ekki þessara réttinda í samræmi við vilja Alþingis á árunum 1980 og 1981. Það eru aðeins 10 ár liðin síðan þetta gerðist og það er ósæmilegt að breyta því svo í einni svipan, ekki síst í ljósi þess að viðkomandi stétt er með lausa kjarasamninga, hefur gefið út aðvaranir vegna réttindamissis í sambandi við sjómannaafslátt. Ég er viss um að þetta mun fylla þann mæli.
    Finnst hæstv. ríkisstjórn betra að fá þetta mál yfir sig í sambandi við komandi kjarasamninga þar sem öll þessi orð verða rifjuð upp? Finnst mönnum það sæmandi að taka sérstaklega til baka starfsréttindi sem samið var um við íslenska sjómenn? Væri þá ekki rétt fyrir hæstv. ríkisstjórn að fara ofan í allt það sem samið var um og taka allt til baka? Þá væri a.m.k. eitthvert samhengi í óréttlætinu sem er líka mikilvægt ef menn vilja beita því á annað borð. Ég mun fara þess mjög ákveðið á leit að þetta mál verði tekið upp í efh.-

og viðskn. og ætlast til þess að nefndin setji sig inn í það, fari yfir sögu þess og finni einhverja skynsamlega lendingu í málinu.
    Ég ætla ekki að fara út í almannatryggingalöggjöfina að öðru leyti, hæstv. forseti. Aðrir hafa komið að því máli og ég ætla ekki að endurtaka það. Ég vil að lokum koma inn á málefni sveitarfélaganna en þar hefur skýrt komið fram að í þeim samskiptum sem ríkisstjórnin hefur átt við sveitarfélögin hefur samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga verið þverbrotinn og alveg ljóst að ekkert samkomulag er milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna í þeim málum.
    Ég get skilið að tilhneiging sé hjá hæstv. ríkisstjórn til að dreifa þeim vandamálum sem við er að glíma. Það er mjög óheppilegt að það skuli gert með tilviljunarkenndum hætti. Fyrst láta menn sér detta í hug málefni fatlaðra og finna að það gengur ekki. Þá finna menn upp að rétt sé að koma löggæslukostnaðinum yfir á sveitarfélögin. Það gengur ekki og þá er tekinn upp sérstakur skattur til þess að mæta þessum kostnaði í stað þess einfaldlega að fela sveitarfélögunum meiri verkefni. Ég tel mjög mikilvægt að sveitarfélögum séu falin meiri verkefni og þau beri fjárhagslega ábyrgð á þeim. En það er hins vegar afar óheppilegt að fjárhagsleg ábyrgð og framkvæmd mála fari ekki saman.
    Það er nú svo að ekki verða allir hlutir leystir með tilsjónarmönnum og mikilvægara er að þeir sem ábyrgð bera á fjárskuldbindingum séu ábyrgir gerða sinna og látnir standa fyrir þeim. Eftirlitsmannakerfið og kommissarakerfið hefur aldrei reynst vel. Það er t.d. ljóst að sá rekstur sem menn hafa staðið fyrir í hinum sósíalísku ríkjum hefur verið með miklu eftirliti, svo miklu eftirliti að það hefur nánast ekki verið hægt að snúa sér við og jafnvel hafa verið eftirlitsmenn með eftirlitsmönnunum. Þetta eftirlit kostar mikla peninga. ( Gripið fram í: Það eru útsölur núna fyrir austan.) Það er góð regla í sambandi við allt innra eftirlit að eyða ekki meiri peningum til þess en eftirlitið sparar. Sjaldan er réttlætanlegt að eyða krónu til að spara krónu. Vera má að í einstaka tilvikum sé það nauðsynlegt af prinsippástæðum en ég býst ekki við því að það séu slíkir hlutir sem hæstv. ríkisstjórn hefur í huga í sambandi við þetta mál.
    Ég vil að lokum minna á að nú standa yfir kjarasamningar. Ekki fer hjá því að allt sem ríkisstjórnin aðhefst til að skerða kjör almennings mun hafa áhrif á þær viðræður. Ég er ekki með því að segja að hægt sé að koma í veg fyrir að kjör almenning skerðist. Ég geri mér afar vel grein fyrir því að þjóðartekjur hafa dregist saman og það þýðir einfaldlega að við höfum minna handa í milli. En það er eins og fyrri daginn, það skiptir meginmáli hvernig það er gert, hvernig byrðunum er jafnað og það verður eilíft úrlausnarefni stjórnmálanna. Ég er þeirrar skoðunar að núv. ríkisstjórn hafi tekist afar illa upp við að dreifa þessum byrðum og ég spái því að það muni reynast henni erfitt þegar hún þarf að koma inn í málamiðlun á vinnumarkaði. Það gengur ekki að taka mikilvæg réttindi til baka. Það gengur ekki að skerða svo rétt þeirra sem minna mega sín að öllum ofbjóði, þar með talið þeim sem meiri efni hafa. Það munu hljótast af því átök sem verða til þess að allir fara verr frá því borði en annars hefði þurft að vera. Og þótt ég sé almennt þeirrar skoðunar að það eigi að koma í veg fyrir skattahækkanir þá vil ég ekki útiloka þær ef það má verða til þess að betri sátt náist um það hvernig byrðunum er dreift. Menn mega ekki vera svo fastir í þeirri kennisetningu að skattar megi alls ekki hækka að það gleymist þá um leið hvernig byrðunum er dreift.
    Hér er ekki um gífurlega háar fjárhæðir að ræða þó þær safnist saman eins og hæstv. forsrh. nefndi í gær. Og það er góðra gjalda vert að huga að því líka að margar litlar upphæðir verða stórar og þannig næst fram ráðdeild að menn spari þar sem mögulegt er að spara. En það þarf líka að hafa í huga að um það náist bærileg sátt í samfélaginu og það sé almennur vilji samfélagsins að standa þannig að málum. Ef það er almennur vilji t.d. á vinnumarkaði að hækka einhver gjöld umfram önnur þá er nauðsynlegt að hlusta á slíkan vilja. Ef menn telja það réttlætanlegra að breyta tekjuskattsprósentu lítillega en að leggja sérstaklega gjöld á þá sem þurfa á læknishjálp að halda þá eiga menn að hlusta á slík orð. Og ef menn telja mikilvægara að halda uppi starfi í grunnskóla en hækka skatta lítillega þá eiga menn að hlusta á þau orð. En núv. hæstv. ríkisstjórn kýs að gera það ekki

og það hefur verið nokkuð átakanlegt að hlusta á aðila vinnumarkaðarins í sambandi við þessi mál því að þar hefur skýrt komið fram að ekki haft neitt samband þar og eins og einhver viðmælandi orðaði það, það séu tilskipanir ofan frá síðan taki miðstýringin við og svo eigi að koma sérstakir tilsjónarmenn. Þetta er ekki falleg lýsing á stjórnunaraðferðum núv. hæstv. ríkisstjórnar en þetta er mælt af þeim mönnum sem m.a. bera ábyrgð á því hvernig til tekst á vinnumarkaði á næstunni.
    Það má vel vera að þeir segi þessi orð án þess að jafnmikið liggi að baki og ég hef tilfinningu fyrir. Það má vel vera að hæstv. ríkisstjórn hafi efni á því að taka ekkert tillit til þeirra. En mér segir svo hugur að hún eigi eftir að standa frammi fyrir því. Hæstv. forsrh. orðaði það svo í framsöguræðu sinni þegar hann flutti boðskap sinn þann 6. des., með leyfi hæstv. forseta, og mælti þá sérstaklega til okkar framsóknarmanna, en hann sagði: ,,Þeir skulu þurfa að horfa framan í afleiðingar eigin verka.`` Það þurfa menn að gera hvort sem menn eru framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn, alþýðuflokksmenn, alþýðubandalagsmenn eða frá Kvennalista. Þær hafa að vísu aldrei setið í ríkisstjórn og eiga þess vegna hreinni fortíð en allir aðrir stjórnmálaflokkar og þeim verður illa kennt um ýmis þau ,,óhæfuverk`` sem hæstv. forsrh. hefur verið svo sérstaklega vinsamlegur að gera að umtalsefni í vetur. Ég er a.m.k. þeirrar gerðar að ég vil horfa framan í afleiðingar eigin verka og tel nauðsynlegt að gera það ekki síst til að læra af því, hvort sem það hefur orðið til góðs eða ills og svo er með alla menn og alla flokka að ekki er allt gert til góðs, því miður. Stundum gera menn hluti sem betur hefðu verið ógerðir. Og ég held að það sé alveg eins í þessu máli, hæstv. forsrh. Ég held að þú og þín ríkisstjórn verðið að horfa framan í afleiðingar eigin verka og ég hygg að sá tími muni koma áður en nokkur önnur ríkisstjórn getur skipað nýja nefnd til að rannsaka fortíðarvanda. Ég tel það í sjálfu sér ekki sérstaklega mikilvægt að skipa rannsóknarmenn um fortíðina. En ég býst við því að núv. ríkisstjórn þurfi ekkert á því að halda og það þurfi enga nýja ríkisstjórn til þess að hjálpa núv. ríkisstjórn til að horfa framan í afleiðingar eigin verka. Það mun koma af sjálfu sér eins og alltaf hefur gerst nema þá hæstv. ríkisstjórn leyni upplýsingum eins og ég hef heyrt á hæstv. forsrh. að hann telur að fyrri ríkisstjórnir hafi gert.
    Sem betur fer er það þannig, hæstv. forsrh., að ég tel ekki efni til og óttast ekki að núv. ríkisstjórn geti leynt neinu til langframa. Það er sem betur fer sérstök eftirlitsstofnun sem heitir Ríkisendurskoðun sem sér um að koma því á framfæri sem er gagnrýnivert og gerir það skilmerkilega. Því er tekið fagnandi af núv. hæstv. ríkisstjórn ef það er sérstök gagnrýni á það sem áður hefur gerst og menn tala mjög mikið um það, eins og hæstv. forsrh. hefur talað um starfsemi sjóðanna. Ef Ríkisendurskoðun gagnrýnir hins vegar tilsjónarmennina tilvonandi, sem er hugarverk núv. ríkisstjórnar eða fjárhaldsmennina, eins og ég vil kalla þá, er ekki hlustað á það og ég tala ekki um ef borgarendurskoðun gagnrýnir eitthvað af því sem áður hefur gerst í stjórnun Reykjavíkurborgar þá þykir það hið versta mál og ekki gagnrýni sem er sæmandi borgarendurskoðanda. Þannig er þetta allt hjá núv. hæstv. ríkisstjórn. Þeir láta sér vel líka að heyra gagnrýni um fortíðina áður en þeir komust til valda og jafnvel Alþfl. er sérstaklega ánægður með það. Ég tók eftir því að hæstv. viðskrh. fór lofsamlegum orðum um framsöguræðu forsrh. þótt forsrh. sé að sjálfsögðu jafnframt að gagnrýna gerðir Alþfl. En þegar kemur að því að minnast á eitthvað sem þessum herramönnum hefur mistekist sem er vissulega nokkuð, eins og mannlegt er, þá annaðhvort hlusta menn ekki eða mótmæla því mjög harðlega að slíkt geti verið réttmætt.
    Virðulegur forseti. Ég hef þá lokið þeirri ræðu sem ég hóf hér fyrir jól. Hún er að vísu heldur styttri en ég hafði ætlað mér því að þetta mál er með slíkum endemum að um það má tala í marga daga en ég taldi hins vegar mikilvægt að koma því nauðsynlegasta á framfæri, m.a. í trausti þess að hæstv. ríkisstjórn væri tilbúin að breyta einhverju milli 2. og 3. umr. Og það er nú svo, hæstv. heilbrrh., að þetta er smátt og smátt að lagast. Ég er að vonast til að þetta taki veturinn þannig að þetta gleymist bara á vormánuðum alveg eins og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru búnir að gleyma því sem þeir sögðu þegar þeir samþykktu tryggingabætur til sjómanna á sinni tíð. Ef þeir gleymdu þessu líka yrði réttlætinu fullnægt. Þetta mál er svo illa þroskað og lítt undirbúið að ég vonast til að við getum tekið það til umfjöllunar í nefndinni því að það verður að taka þann tíma sem þarf. Og þótt mikið sé talað um að Alþingi þurfi að komast í þingleyfi þá held ég að það skipti minna máli. Það er meira um vert að þessi löggjöf verði lagfærð. Ég vil leggja sérstaka áherslu á þau réttindi sem sjómenn fengu í kjarasamningum 1980. Ég tel að það sé Alþingi til vansæmdar að taka það til baka í ljósi þess að það var samþykkt samhljóða með almennri ánægju allra þingmanna.