Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 17:45:00 (2847)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það hefur verið þannig hér í dag að tveir hv. þm. urðu að fresta ræðu sinni vegna fjarveru hæstv. heilbrrh. Þingmennirnir gerðu það þó að ljóst væri að það hefði nokkur áhrif á önnur áform þeirra en hæstv. heilbrrh. kaus með sérkennilegum hætti að tala á fundum úti í bæ þegar ríkisstjórnin lagði höfuðáherslu á að taka þetta mál til umræðu og hæstv. heilbrrh. hlaut að vita að hlutur hann yrði nokkuð mikill í þessari umræðu.
    Annar þessara þingmanna, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, flutti mjög merka og góða ræðu um aðgerðir í menntamálum. Mér sýndist hæstv. menntmrh. ekki geta verið viðstaddur þá ræðu. Það er auðvitað þannig, virðulegi forseti, að það er lágmarkskurteisi í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu að ráðherrar séu viðstaddir ræður eða ræðuhluta þingmanna sem eru að fjalla um veigamikla þætti þeirra ráðuneyta. Ef það er þannig að hæstv. ríkisstjórn er það svo lítið kappsmál að koma þessu máli hér áfram að ráðherrarnir láta önnur atriði hafa þar forgang þá skil ég ekki hvers vegna við ættum að vera að halda umræðunni hér áfram um kl. 6 á föstudagskvöldi.
    Nú sé ég aftur á móti að hæstv. menntmrh. birtist í hliðarherbergi. ( Menntmrh: Hann hefur verið hér í allan dag.) Já, það getur verið, en hann sást ekki þegar hv. þm. Ingibjörg Sólrún var að tala um mennta- og skólamálin. ( Menntmrh.: Ég var hér.) Ja, það er alla vega sérkennilegt því að ekki var ráðherrann þarna þegar umræðan hófst hér. Ég ætla ekki að deila við ráðherrann um það en hann sást a.m.k. ekki í þingsalnum.
    Hæstv. fjmrh. hefur verið á útvarpsstöðvunum úti í bæ frá því um kl. 5 og er mér vitanlega ekki kominn aftur og er það nú enn eitt dæmið af mörgum um hvernig fjölmiðlarnir virðast hafa forgang fram yfir umræður á Alþingi. Hæstv. forsrh. sem er flm. þessa frv. hefur ekki sést hér klukkutímum saman þannig að ég vil segja við hæstv. forseta --- kemur nú hæstv. fjmrh. úr fjölmiðlaför sinni --- að mér þykir það hart ef þetta á að ganga svona til að þingmenn eru settir í það að þurfa annaðhvort að hætta við ræður sínar eða una því að þeir ráðherrar sem málaflokkarnir heyra undir eru ekki viðstaddir þeirra ræður. Sjálfur flutningsmaður frv., hæstv. forsrh., er ekki hér og er það auðvitað ekki frambærileg stýring mála hér. Mér finnst því rétt að árétta það við virðulegan forseta að það verði tekið til skoðunar að annaðhvort verði séð til þess að þeir ráðherrar sem hér þurfa að vera séu hér eða þá að beðið verði með umræðuna. Í sjálfu sér getum við haldið þessari umræðu áfram ef þeir ráðherrar verða hér sem á þarf að halda en það er höfuðatriði málsins.

    Nú er hæstv. forsrh. mættur og það er alveg merkilegt með þessa ágætu ráðherra að þeir koma þegar gerð er athugasemd við að þeir séu ekki mættir. En þegar verið er að ræða málin eru þeir ekki mættir hér.