Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

69. fundur
Föstudaginn 17. janúar 1992, kl. 17:59:00 (2858)

     Svavar Gestsson :
     Hæstv. forseti. Ég vil víkja að þessu viðamikla frv. sem hér liggur fyrir um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Satt að segja er það ekki undarlegt þó að menn vilji ræða allnokkuð um efni þess vegna þess að þetta frv. er óvenjulegt. Það er út af fyrir sig ekki óvenjulegt að flutt séu frv. sem snerta marga lagabálka, það hefur oft áður gerst. Það sem er óvenjulegt við frv. er að þetta kemur við óvenju marga slíka meginlagabálka og í raun og veru snertir þetta frv. alla grundvallarlöggjöf velferðarkerfisins ef grannt er skoðað. Það snertir í fyrsta lagi lög um grunnskóla, og ég hygg að þetta sé í fyrsta sinn sem lög um grunnskóla eru dregin inn í frv. af þessu tagi. Það snertir í öðru lagi lög um heilbrigðisþjónustu. Það snertir í þriðja lagi lög um almannatryggingar og það snertir í fjórða lagi lög um sveitarfélögin og tekjustofna sveitarfélaga. Þannig að í rauninni er þetta frv. inni í svo að segja öllu lagasafninu og þess vegna ekkert óeðlilegt við það þó að menn þurfi að ræða þetta frv. talsvert.
    Ég hafði hugsað mér, virðulegi forseti, að fara talsvert yfir einstök atriði varðandi annars vegar mennmtrn. og grunnskólalögin og hins vegar almannatryggingalögin. Ég get þó sparað mér hluta af þeim ræðuhöldum vegna þess að fyrri ræðumenn hér í dag hafa gert þessum málum ágæt skil og ég hef engan áhuga á því að endurtaka það sem áður hefur verið sagt í þessum umræðum.
    Það sem mig langaði kannski til þess að gera, virðulegi forseti, í fyrsta lagi var að reyna að átta mig á því ásamt þingmönnum sem viðstaddir eru hvað er í raun og veru að gerast. Hvað er að gerast í þjóðfélaginu? Hver er ástæðan til þess að þetta frv. er flutt? Jú, hún er sú að það er sagt að þjóðin standi frammi fyrir miklum efnahagslegum þrengingum. Sagt er að samdráttur í þjóðartekjum sé kannski í kringum 17 eða 18 milljarða kr. á þessu ári. Á þeim forsendum eru þessi frv. byggð, 17 eða 18 milljarðar kr.
    Síðan þessi spá um árið 1992 var gefin út hafa hins vegar birst nýjar upplýsingar sem í raun þurrka út u.þ.b. 1 / 3 af þeim vanda sem hér er um að ræða vegna þess að menn

vita að loðnustofninn er sterkari, heimildir hafa verið auknar til veiða á rækju og olían hefur lækkað í verði. Allt gerir þetta ávinning fyrir þjóðarbúið upp á 5--6 milljarða kr. ef allt gengur eftir eins og menn eru að horfa á það núna. Með öðrum orðum er 1 / 3 af þeim samdrætti sem menn voru að tala um að yrði e.t.v. á árinu 1992 horfinn. Þarna er ég að vitna til talna sem hafa að nokkru leyti birst frá Þjóðhagsstofnun en ég er líka að vitna til ummæla hæstv. forsrh., sem mig minnir að hann hafi látið falla á fundi hjá Verktakasambandinu þar sem einhverjir voru staddir, a.m.k. fjölmiðlar, en elli- og örorkulífeyrisþegar örugglega ekki í stórum stíl af því að aðganseyririnn var 10 þúsund kr. að þessari ráðstefnu þar sem hæstv. forsrh. kaus að gera grein fyrir því að allt væri ekki eins svart og menn höfðu talið.
    En til hvaða ráða er þá gripið þegar menn standa frammi fyrir þessum vanda? Hvað er að gerast? Og að hvers konar þjóðfélagi stefnum við með Ísland? Hvers konar land viljum við byggja og hvers konar land verður byggt ef þessum hlutum heldur fram sem horfir?     Í raun og veru er það sama, herra forseti, hvert við lítum, að þar sem ríkisstjórnin hefur borið niður eru hlutirnir í býsna alvarlegu horfi. Ég vil rifja það upp í þessu sambandi að í nýársávarpi sínu minntist forseti Íslands sérstaklega á lífskjör barna sem undirstöðu framtíðarþjóðfélags í landinu. Forseti hvatti til þess að stjórnmálamenn og aðrir hygðu að lífskjörum barna í víðum skilningi. Hvað er að gerast í þeim efnum? Er eitthvað að gerast í sambandi við börnin að því er varðar t.d. leikskólana? Nei, það er ekki nema þá helst afturför. Annars vegar með því að leikskólalögin eru ekki framkvæmd af ríkisstjórninni og hins vegar með því að sveitarfélögin eru verr í stakk búin til þess að byggja upp leikskóla en ella hefði verið, m.a. vegna þess að lagðar eru verulegar byrðar á sveitarfélögin. Þar er með öðrum orðum ekki um að ræða framfarir og ekki stöðnun heldur afturför.
    Horfum á grunnskólana, hver er staðan þar? Jú, hún er þannig að verið er að skera niður tíma. Það er verið að fækka tímum í grunnskólum, það á að fjölga í bekkjum. Jafnvel er boðað að tekinn verði upp verulega aukinn akstur á skólabörnum á milli hverfa, t.d. hér í Reykjavík, og það er boðað að jafnvel þurfi að leggja niður skóla í þó nokkrum mæli eins og gert var í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Það er alveg greinilegt þegar við stöndum frammi fyrir því að leggja þurfi niður um 200 stöðugildi kennara að það mun einhvers staðar koma niður og alveg augljóst mál að þó nokkrir skólar verða lagðir niður.
    Jafnframt því að ríkisstjórnin er að taka ákvörðun um þetta atriði --- og það tel ég vera langalvarlegasta atriðið í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum --- er gert ráð fyrir því, herra forseti, að fella niður ákvæðið um lágmarkstíma fyrir börn í skólum. Í raun og veru er þar með verið að veita menntmrh. heimild til þess að ákveða tímafjölda fyrir börn í grunnskólum landsins eftir aðstæðum á hverjum tíma, skulum við orða það vægilega. Þar með er verið að segja að eini hópurinn í landinu sem ekki á varin mannréttindaákvæði í lögum eru börn. Til eru ákvæði í lögum sem segja til um það að veikt fólk skuli komast á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Það eru til ákvæði í lögum sem segja að gamalt fólk skuli fá ellilífeyri og tekjutryggingu. Það eru til ákvæði í lögum sem segja að öryrkjar skuli fá lífeyri og tekjutryggingu. Það eru til ákvæði í lögum um það hvernig á að meðhöndla lífeyri fólks sem verður fyrir slysum. En í þessu tilviki er hæstv. ríkisstjórn að gera tillögu um það, herra forseti, að fella út þetta mannréttindaákvæði barna, að börnum sé tryggður lágmarkstími í skólum landsins.
    Ég vona satt að segja, herra forseti, að þetta mál sé þannig vaxið að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. menntmrh. hafi ekki áttað sig alveg á því hvaða tillögur menn voru þarna að gera. Ég vil skora á hæstv. menntmrh. að taka það mál til alvarlegrar athugunar að þessi niðurfelling ákvæðis um lágmarkstímafjölda handa börnum í grunnskólum verði kölluð aftur. Ég tel að þetta sé svo mikil afturför, svo alvarlegt skref, að menn þurfi að gæta sín áður en þeir gera þetta.
    Ég er alveg sannfærður um að við getum öll ímyndað okkur að það komi jafnvel verri menntamálaráðherrar og verri fjármálaráðherrar en þeir sem nú sitja. ( Gripið fram í: Það er ekki hægt.) Nei, það er kannski rétt. En það er þó alla vega fræðilegur möguleiki. Ég segi alveg eins og er að ég vil ekki sjá það reglugerðarvald í höndum hvaða manns sem er, sem verið er að setja inn í grunnskólalögin samkvæmt þessu frv., eins og það lítur út hér. Ég vil ekki sjá það. Þarna er sem sagt verið að fella út mannréttindaákvæði barna, grunnskólalögin eru mannréttindalög barna í þessu landi á tilteknu skólastigi, einu lögin sem kveða á um samfélagslega þjónustu handa þeim. Ég mótmæli þessu ákvæði og segi: Þetta þarf að draga til baka.
    En hvernig lítur það út á öðrum skólastigum? Ég hef rætt aðeins um leikskóla og grunnskóla. Í framhaldsskóla lítur þetta þannig út að fyrir liggja yfirlýsingar frá hæstv. menntmrh. um að það standi til að loka framhaldsskólunum eða öllu heldur að takmarka aðgang að framhaldsskólunum í haust. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla frá vorinu 1988, sem sett voru af þáv. hæstv. menntmrh., Birgi Ísl. Gunnarssyni, er gert ráð fyrir að allir eigi rétt á því, sem lokið hafa grunnskóla, að fara í framhaldsskóla. Þetta ákvæði var samþykkt samhljóða á Alþingi. Ég viðurkenni það fúslega að ég stórefa að þáv. ráðherra hafi gert sér fulla grein fyrir því hvað þetta ákvæði gæti þýtt. A.m.k. var það þannig að skólarnir voru ekki undir þetta búnir sem skyldi, hvorki að því er varðar húsnæði, að því er varðar kennslukrafta né heldur að því er varðar námsframboð og námsskipulag, það er ljóst. Hitt er annað að þetta var sett í lög og við höfum starfað eftir þessum lögum um nokkurra ára skeið. Það væri auðvitað hrópleg mismunun á milli árganga ef það gerðist núna að farið yrði að loka framhaldsskólum í haust í einhverjum mæli fyrir nemendum og settar þar ýmsar reglur sem kannski yrðu meira og minna tilviljunarkenndar.
    Auk þess er það þannig að reiknað er með því, ef þessi niðurskurður á allur að eiga sér stað í haust, að leggja niður um 140--150 kennarastöður í framhaldsskólunum. Það jafngildir því t.d. að leggja niður alla menntaskóla úti á landi og auk þess Kvennaskólann í Reykjavík. Það jafngildir því að leggja niður Menntaskólann á Ísafirði, Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann á Laugarvatni og jafnframt Kvennaskólann í Reykjavík, þar sem fer fram hefðbundið menntaskólanám, bóklegt framhaldsskólanám. Framhaldsskólinn stendur þarna ekki frammi fyrir því að menn séu að reyna að taka á innri vandamálum hans með því að endurskipuleggja hann, eins og auðvitað verður að gera, heldur stendur hann frammi fyrir því að verið er að skera niður fjármuni til hans og loka. Þetta gerist á sama tíma og að undirlagi sömu manna úr Alþfl. og Sjálfstfl. sem segja: Íslendingar þurfa að vera samkeppnisfærir í lífskjörum við aðrar þjóðir á komandi árum. Þeir verða að taka þátt í hinu mikla Evrópusamstarfi á komandi ári. Og ég segi: Það er ekki hægt að taka þátt í því samstarfi eða samkeppni öðruvísi en að menn hafi vit á því að reisa menntakerfið og verja það með kjafti og klóm fyrir árásum, hvaðan svo sem þær kunna að koma. Ég tel að ekki sé verið að gera það eins og sakir standa.
    Það sama er auðvitað að segja um háskólana, virðulegi forseti. Þar er gert ráð fyrir niðurskurði, þar er gert ráð fyrir samdrætti. Háskólarektor sagði í sjónvarpinu núna fyrir nokkrum kvöldum að Margrét Thatcher hefði fyrirskipað niðurskurð í háskólum í Bretlandi um 14% á þremur árum. Á Íslandi væri þetta þannig að það væri verið að fyrirskipa 10% niðurskurð í Háskóla Íslands á einu ári. Ég er sannfærður um að þarna eru menn að spilla grundvellinum, lífskjaragrundvelli þjóðarinnar, og þetta lýsir ótrúlegri þröngsýni.
    Hið sama er að segja um Lánasjóð ísl. námsmanna, sem var rætt um fyrr í dag af hv. þm. Steingrími Hermannssyni. Vitaskuld er það þannig þegar þetta er allt undir eins og það leggur sig, leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli, háskóli, Lánasjóður ísl. námsmanna, fullorðinsfræðsla og endurmenntun, allt undir samfelldum árásum, ekkert tekið út úr til að lyfta því, þá er alveg ljóst að hér er verið að vega að sjálfum grundvallaratriðunum, ekki aðeins í velferðarkerfinu í núinu heldur líka lífskjörum þjóðarinnar í framtíðinni.
    Hvað verður um börnin? Hvað verður um unglingana? Er þetta kannski allt í lagi? Er það kannski þannig að fólk sem hefur verið að kenna í skólunum, framhaldsskólum eða grunnskólum, hafi verið að kenna tóma vitleysu og kannski sé bara betra fyrir börnin að fara út? Er það þannig? Auðvitað er það ekki þannig. Auðvitað vitum við að eftir því sem

skólinn er lakari er meiri hætta á því að eitt og annað misfarist í uppvexti og uppeldi þessara barna. Er hugsun ríkisstjórnarinnar kannski sú að um leið og fækkað er tímum í skólum og fjölgað í bekkjum að þá eigi fjölskyldurnar að taka við börnunum úr grunnskóla og framhaldsskólum? Er þá ríkisstjórnin að gera fjöskyldunum lífsbaráttuna auðveldari einmitt um þessar mundir? Er sérstakt átak í gangi á vegum hæstv. ríkisstjórnar til að bæta lífskjör barnafjölskyldna? Nei, það er nú eitthvað annað. Því á sama tíma og verið er að kasta börnunum út úr barnaskólunum fyrr en ella og loka framhaldsskólunum er verið að lækka og skerða barnabætur og auka útgjöld þessa fólks á öðrum sviðum eins og m.a. hefur verið bent á.
    Telur ríkisstjórnin kannski að félagslegum vandamálum í þjóðfélaginu muni fækka við það að börnin hætti í framhaldsskólum eða grunnskólum, komist ekki inn í framhaldsskóla og hætti fyrr á daginn í grunnskólunum? Auðvitað er það ekki þannig. Hvað ætli þau kosti þessi félagslegu vandamál sem þarna yrði um að ræða, mun fleiri en ella, ef þessari stefnu verður fylgt? Ég held, virðulegi forseti, að þetta sýni alveg ótrúlega skammsýni hjá hæstv. ríkisstjórn að því er varðar lífskjörin í bráð og lengd og sömuleiðis að því er varðar vanda þessara barna hvers fyrir sig.
    Ég verð að segja það að ég tel líklegt, virðulegi forseti, að menn hafi kannski ekki hugsað alveg út í þetta eða ég er að vona það. Auðvitað eru þetta ekki útmetnir fantar, þessir menn sem sitja í ráðherrastólum þótt þeir séu í íhaldinu og krötunum, auðvitað er það ekki þannig. Þeir eru örugglega góðir við börn og gamalt fólk eins og gengur. En ég er að gera mér vonir um að þeir hafi kannski ekki hugsað út í þetta og muni þess vegna vera tilbúnir til þess að bæta fyrir og laga þessa hluti. Auðvitað er það þannig bæði með menntmrh. og heilbrrh. að við þurfum að eiga menntmrh. og heilbrrh. sem hafa metnað fyrir sín ráðuneyti en vinna ekki eins og aðstoðarmenn hjá fjmrh.
     Hvað með heilbrigðismálin, eru þau kannski skilin sérstaklega undan? Er þeim hlíft? Tryggingastofnuninni og tryggingamálunum, velferðarkerfinu, er það þannig?
    Það var einu sinni til flokkur hér sem hét Alþýðuflokkurinn, án þankastriks. Alþýðuflokkurinn hét hann bara og var nokkuð stoltur yfir því nafni. Á hans tíma voru sett lög sem voru kölluð lög um lífeyrissjóð Íslands og seinna, tíu árum seinna, lög um alþýðutryggingar. Þegar nýsköpunarstjórnin var mynduð 1944 sagði Alþýðuflokkurinn við Sósíalistaflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn: Við förum aldrei í þessa stjórn nema alþýðutryggingarnar á Íslandi verði jafngóðar og þær gerast bestar í heiminum.
    Og viðræðuaðilar Alþýðuflokksins, Sjálfstæðisflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn, voru í nokkrum vanda vegna þess að þeir vissu ekki alveg hvernig þetta var best í heiminum. Þeir spurðu þá einn af forustumönnum Alþýðuflokksins að því: Hvar er þetta best í heiminum? Og leiðtogum Alþfl. vafðist líka tunga um höfuð þegar þetta kom upp. Þeir vissu ekki hvar alþýðutryggingakerfið var best í heiminum. Niðurstaðan varð sú að Ólafur Thors og þeir forustumenn Sjálfstfl. og Sósíalistaflokksins sögðu: Allt í lagi. Við samþykkjum að hér verði komið á alþýðutryggingakerfi sem er jafngott og það besta í heiminum. Og það var farið í það. Hér var komið upp alþýðutryggingakerfi sem var eitt það allra besta sem gerðist þá í velferðarhluta heimsins.
    Síðan er auðvitað mikið vatn runnið til sjávar og margt hefur breyst, m.a. Alþfl. Komið er þankastrik fyrir aftan nafnið og hann heitir núna líka Jafnaðarmannaflokkur Íslands að eigin sögn, minnir mann auðvitað á öfugmælavísur eða kvæðið um Vakra-Skjóna. Og gamlir kratar og nýir segja að þetta frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á almannatryggingalögunum sé ekkert minna en siðlaust. Magnús H. Magnússon, fyrrv. heilbr.- og trmrh., félmrh. og mig minnir varaformaður Alþfl., segir í grein í DV 15. jan, 1992: ,,Ég tel það siðlaust að ætla nú að afnema þann rétt sem fólk taldi sig vera að afla sér --- með einu pennastriki, og segja gamla fólkinu að þetta hafi bara verið plat.``
    Síðan spyr Magnús H. Magnússon, með leyfi forseta: ,,Mér er spurn: Hvenær urðu menn með allt niður í 66 þúsund krónur í mánaðarlaun taldir vera þeir tekjuhæstu á Íslandi? Þær tekjur virðast vera taldar nægilegar fyrir eldra fólk.`` Það er auðvitað greinilegt að þessum manni blöskrar hvernig að þessum málum er staðið að því er varðar ellilífeyrinn.
    Út af fyrir sig get ég haft ýmislegt að athuga við málflutning Magnúsar H. Magnússonar. Ég tel t.d. að vel geti komið til greina að tekjutengja þennan ellilífeyri og ég hef reyndar verið mjög lengi þeirrar skoðunar og hef lýst þeirri skoðun alltaf af og til í fimm eða tíu ár að það geti vel komið til greina. En forsendur þess eru auðvitað þær að menn séu á sama tíma að leggja á hátekjuskatt, að menn séu á sama tíma að nota peningana sem út úr þessu fengjust til þess að bæta almannatryggingakerfið, eins og fyrrv. hæstv. ríkisstjórn lagði til í frv. sem þáv. heilbr.- og trmrh. flutti hér á Alþingi sl. vor.
    Nú er hins vegar gert ráð fyrir því að koma upp undarlegu kerfi, og ég er alveg viss um að það er alveg einstakt í sögunni þetta kerfi og í heiminum, og kannski er það í fyrsta sinn að menn eru búnir að finna eitthvað sem er alveg einstakt í heiminum, brautryðjendastarf um víða veröld. Þannig er þetta kerfi að menn borga skatt, 40%, og fá svo dreginn frá persónuafslátt. Síðan þegar menn eru komnir upp í 66 þúsund kr. á að draga 25% frá tekjunum þeirra að auki þangað til þeir eru komnir upp í 114 þúsund krónur. Kemur þá hátekjuþrep á hærra? Nei, það lækkar. Þetta undarlega kerfi þar sem menn eru með hámarksskattinn á bilinu 66--114 þúsund en lækkar svo skattinn þar fyrir ofan. Þetta undarlega kerfi er afraksturinn af miklum yfirlegum þeirra hæstv. heilbrrh. og aðstoðarmanns hans, sem mun vera prófessor í stærðfræði. Það er ekkert skrýtið þó að mönnum sem eru sérfræðingar í stærðfræði detti svona lagað í hug. En menn sem hafa verið að sýsla við félagslega þjónustu og heilbrigðismál eiga ekki að láta sér detta svona vitleysa í hug. Það er auðvitað alveg fáheyrt.
    Á sama tíma kemur út úr þessum gagnmerku tillögum ríkisstjórnarinnar að tiltekinn hópur manna fer alveg sérstaklega illa út úr þessu dæmi og það eru sjómenn. Hver ætli hafi verið helstur talsmaður þess á Alþingi á árunum 1975--1980 að sjómenn fengju ellilífeyri við 60 ára aldur, hvað ætli hann heiti? Þeir leiðtogar Alþfl., sem eru að fara vestur á morgun, hitta hann kannski. Þeir reyndu að senda honum jólakort en hann sendi það til baka. Það er Karvel Pálmason. Hann flutti fleiri tillögur á Alþingi um það að sjómenn fengju ellilífeyrisrétt við 60 ára aldur. Það er bersýnilegt að þeir krataráðherrarnir eru núna að launa Karvel fyrir að hafa endursent jólakortið frá leiðtoga Alþfl. með því að senda honum sérstakar kveðjur um að þetta hjartans mál hans um margra ára skeið strikist út og að ellilífeyrir sé í í raun og veru felldur niður af sjómönnum. ( Gripið fram í: Enda þora þeir ekki að halda opinn fund á Ísafirði.) Nei, það er nefnilega það sem ég ætlaði að segja. Þeir eru heppnir að göngin eru ekki komin því að þá kæmist Kavel örugglega til þeirra.
    Á þinginu 1980 flutti ég fyrir hönd þáv. ríkisstjórnar frv. til laga um breytingu á almannatryggingalögum og 60 ára ellilífeyrisrétt sjómanna. Þar var gert ráð fyrir því að þarna væri um að ræða alla þá sjómenn sem lögskráðir eru á skipum yfir tilteknum stærðarmörkum. Þá komu auðvitað ýmsir verkalýðsleiðtogar, hér á Alþingi m.a., eins og Karvel Pálmason, og sögðu: Þetta er ekki nóg, það þarf að tryggja að trillusjómennirnir geti fengið þetta líka. Og þess vegna var það sem við fluttum hér á þinginu 1981 frv. til laga um að trillusjómennirnir gætu líka fengið þennan ellilífeyrisrétt við 60 ára aldur. Hverjir beittu sér helst fyrir því á sínum tíma hér á Alþingi auk hv. þm. Karvels Pálmasonar? Það var t.d. hv. 6. þm. Reykn. Hvað heitir hann? Hann heitir Karl Steinar Guðnason.
    Ég fletti upp, virðulegi forseti, í dag í umræðum sem fram fóru á Alþingi um þetta mál á sínum tíma. Það er skemmst frá því að segja að ráðherrann var gagnrýndur mjög í þeim umræðum af einum tveimur mönnum eða svo fyrir að hafa ekki komið með málið fyrir löngu. En ráðherrann átti sér það raunar til málsbóta að hann hafði þá ekki setið á stóli heilbr.- og trmrh. nema í fáeina mánuði. Og hverjir voru að gagnrýna hann? Það voru leiðtogar Alþfl. alveg sérstaklega. Töldu að þetta væri svo mikið réttindamál, 60 ára lífeyrisaldur sjómanna, að það væri auðvitað brýnt að koma þessu á þegar í stað og fluttu margvísleg rök fyrir því. Þess vegna segi ég að það eru auðvitað býsna kuldalegar kveðjur sem leiðtogar Alþfl. senda fyrrv. þm. Karvel Pálmasyni með því að afnema í raun ellilífeyrisrétt sjómanna með þeim hætti sem hér er verið að gera.
    Í frv., sem verið er að fjalla um, er einnig komið inn á almannatryggingalögin að

öðru leyti varðandi ellilífeyrinn og örorkulífeyrinn og reyndar varðandi tannlækningar líka. Þessi mál voru til meðferðar fyrir jólin og þá lagði ríkisstjórnin á það mjög mikla áherslu að þessu máli yrði lokið fyrir jól vegna þess að það væri í raun og veru hin endanlega fullkomnun tilverunnar í lagasmíð að klára þetta mál fyrir jól og enginn maður gæti haldið gleðileg jól öðruvísi en að þessi speki yrði að lögum. Daginn eftir að þing kom saman eftir jól fer ríkisstjórnin sjálf að gera tillögur um breytingar á þessu barni sínu út og suður og það rignir yfir þingið brtt., inn í allar þingnefndir koma brtt. frá ríkisstjórninni um lífeyrismál, almannatryggingamál, skólamál og aðra þætti. Þetta var ekki fullkomnara en það, en þetta var 7. jan., virðulegi forseti. Og þá skyldi maður ætla að niðurstaðan væri fengin að fullu í þessu máli en það var nú eitthvað annað. Vegna þess að 13. jan. kemur nýtt bréf frá hæstv. heilbr.- og trmrh. Hvað er hann að leggja þar til? Er hann að leggja það til að brtt. hans frá 7. jan. eða 20. des. yrðu afgreiddar óbreyttar? Ónei. Þá flytur hann sjálfur níu brtt. við þær tillögur sem hann hafði sent nefndinni 7. jan. Út af fyrir sig ber auðvitað að þakka ráðherranum fyrir að hann skuli ætla að leiðrétta vitleysurnar þegar þær koma upp, það er gott. En þetta sýnir auðvitað að menn eiga ekki að vera að grauta í jafnflókinni löggjöf og almannatryggingalögunum með þeim hætti sem núv. ríkisstjórn hefur verið að gera.
    Eitt dæmi um það er t.d. ákvæðið um öryrkjana sérstaklega og örorkulífeyrinn þar sem það kom í ljós við nánari athugun og ábendingar frá hv. þm. Finni Ingólfssyni að ef tillögur ríkisstjórnarinnar hefðu orðið að lögum óbreyttar þá var barnalífeyrir öryrkja dottinn út. Og það var vegna þess, að stjórnarandstaðan benti á að þetta gæti ekki gengið, að barnalífeyririnn var varinn að því er öryrkjana varðar. Þannig getum við auðvitað nefnt úr meðferð þessa máls, þessa makalausa bandorms, mýmörg dæmi um að menn hafa unnið þetta á handahlaupum og illa tæknilega séð, burt séð frá efni málsins. Og það er satt að segja alveg ómögulegt að mínu mati að umgangast almannatryggingalögin á þennan hátt vegna þess að þau eru auðvitað orðin flókin. Og þau eru okkur öllum til vansa sem höfum komið nálægt þessum málum núna á undanförnum árum vegna þess að menn hafa verið að bæta þetta með nýju fati á hverju einasta þingi. Þessi lög eru auðvitað orðin með þeim hætti að það er mjög erfitt að átta sig á forsendum þeirra innbyrðis. En það lagast ekki með þessu frv. og greinilegt að ríkisstjórnin ræður ekki við þetta.
    Svo ég tali nú ekki um þau ósköp að þegar átti að fara að taka þetta mál út úr hv. heilbr.- og trn. og afgreiða þetta sem fullkomnun, blessaður meiri hlutinn ætlaði að fara að gera það, góður við ríkisstjórnina sína og enginn áfellist menn fyrir það, það er algengt. Þá kemur í ljós að Tyggingastofnun ríkisins, en það er lítil stofnun hér í þjóðfélaginu uppi á Laugavegi sem á að framkvæma þetta, hafði aldrei séð plaggið. Hún hafði aldrei séð tillögurnar. Það er að vísu eitt hús á milli Tryggingastofnunar ríkisins og heilbr.- og trmn., ef ég man rétt. ( Gripið fram í: Það er bara ein hurð.) Er það ein hurð? ( Gripið fram í: Eldföst reyndar.) Já, eldföst hurð, já, það gæti verið skýringin. ( Heilbrrh.: Bara opnanleg okkar megin.) Og opnanleg heilbrigðisráðuneytismegin þannig að það hefði átt að vera auðvelt fyrir ykkur að fara með þetta. Og svo hefði mátt senda þetta í gegnum vegginn á faxi, mér er sagt að svoleiðis tæki séu jafnvel til í heilbrrn.
    Tryggingastofnunin og embættismenn hennar höfðu ekki séð snifsi af þessum tillögum. Það er alveg ótrúlegt. Þó var nýkomin skýrsla frá Ríkisendurskoðun sem var aðallega að skamma ráðuneytið fyrir að hafa ekki haft nógu gott samstarf við Tryggingastofnun ríkisins. Og hvað sögðu svo starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins? Þeir sögðu: Ja, það er vont að við skulum ekki hafa frétt af þessu, en það er ekki það versta. Þetta er óframkvæmanlegt. Hvað áttu þeir við? Jú, þeir áttu við ýmislegt eins og t.d. það að þó nokkur fjöldi af ellilífeyrisþegum býr erlendis. Hvernig á að skerða tekjur þeirra ellilífeyrisþega sem búa á Flórída og hafa búið þar um langt skeið og hafa þessi ein tengsl við land og þjóð? Hvernig á að gera það? Á að gera það eftir tekjunum á Flórída? Hvernig er með skattframtölin á Flórída?
    Hefur verið skoðað hvernig þetta snertir tvísköttunarsamninga, svo ég nefni dæmi? Hvernig á að fara með þetta? Það á að skerða þennan ellilífeyri hjá þessu fólki í útlöndum eftir einhverjum tekjum. Hvaða tekjum? Það hefur engar tekjur á Íslandi yfirleitt, það hefur tekjur einhvers staðar annars staðar. Hvernig á að fara að þessu? Þessir stóru leiðtogar Tryggingastofnunar ríkisins, sem mættu þarna á fundi hjá okkur, fórnuðu höndum. Við getum þetta ekki, sögðu þeir. En sögðu: Það er þá allra fyrst að byrja á þessu 1. mars, það er þó í allra fyrsta lagi að byrja á þessu 1. mars. Og það kemur brtt. inn í nefndina um að byrja á þessu 1. mars.
    Þá kallar heilbrrh. í þá. Eftir þann fund kemur af einhverjum undarlegum ástæðum ný brtt. inn í nefndina um að þetta eigi að taka gildi 1. febr. Blessaðir mennirnir eiga núna að framkvæma hluti sem þeir geta ekki framkvæmt. Og það hafa engar upplýsingar komið um það hvernig á að fara að því að skerða lífeyri hjá þessu gamla fólki sem er í útlöndum, engar upplýsingar af neinu tagi komið um það.
    Hér er með öðrum orðum svo illa að þessum málum staðið að það er náttúrlega alveg dæmalaust. Ekki aðeins tæknilega heldur líka pólitískt. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég er algjörlega sannfærður um að þeir menn úr sjómannasamtökunum, sem hér eiga sæti, áttuðu sig ekki á þessu frv. og þessum tillögum áður en þær komu hér inn. Ég er alveg sannfærður um það. Ég dreg því stórlega í efa, herra forseti, að þetta frv. hafi pólitískan meiri hluta á bak við sig eins og það lítur út. Ég dreg það stórlega í efa. Ég hef rökstuddan grun um að svo sé ekki, að ýmsir af þingmönnum Sjálfstfl. og jafnvel Alþfl. líka, einkum þó Sjálfstfl., muni hugsa sig um tvisvar áður en þeir styðja þau ósköp sem í þessu frv. felast. Vitaskuld er það þannig a.m.k. að mínu mati, virðulegi forseti, að eðlilegt er tvær grímur og þrjár renni á menn ef þeir ætluðu sér að framkvæma hlutina þannig að undanskilja sjómenn sérstaklega. Það er flókið mál að koma því við. En þá segi ég: Þá eiga menn bara að hætta við þetta. Þetta er þannig lagað krukk og þetta eru ekki þeir peningar sem þarna er um að ræða að menn eiga ekki að vera að þessu.
    Menn gætu hins vegar farið aðra leið. Aðra leið en þá að leggja sérstakt hátekjuskattþrep á þessa aðila, á sjómenn. Hún er sú að leggja hátekjuskattþrep á hátekjumenn. Leggja hátekjuskatt á hátekjumenn og fjármagnseigendur sem gæti skilað verulegum fjármunum í ríkissjóð og miklu, miklu meira en því sem hér er verið að tala um.
    Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að skora á hæstv. heilbr.- og trmrh. að íhuga það mjög vandlega að fresta því að knýja þessar tillögur í gegn og skoða þetta mál mikið betur. Ég skil vel að á honum standi öll járn í sambandi við þennan niðurskurð í ríkisfjármálum, ég skil það vel. En ég segi eins og er, ég held að þarna sé verið að gera breytingar sem eru ýmist óframkvæmanlegar eða þá svo flóknar í framkvæmd að það mundi kosta eitt út af fyrir sig stórfé að reikna út forsendur mála. Hérna erum við að tala um þúsundir manna sem þarf að reikna út sérstaklega og ég held að það geti verið skynsamlegt, og ég veit að það er skynsamlegt fyrir hæstv. ráðherra, að hætta við þessar tillögur, eins og þær liggja hér fyrir. Þær eru illa undirbúnar, fljótfærnislegar, í þeim eru engin grundvallaratriði skýr og þetta mun gera tryggingakerfið í heild erfiðara og flóknara en það þó þarf að vera og er þá langt til jafnað.
    Til að menn átti sig á því hvað það er í raun og veru erfitt að gera þessa hluti með hliðsjón af því að þarna er verið að skerða ellilífeyrinn bara út frá tekjum, atvinnutekjum en ekki lífeyrissjóðstekjum og ekki eignatekjum, eignatekjurnar eru ekki teknar með, þá er fróðlegt fyrir þingheim að átta sig á því að ef maður skoðar eignir einhleypra ellilífeyrisþega þá kemur það í ljós að lífskjaramunur þessa fólks er hrikalegur. Og hann ræðst ekki af atvinnutekjunum heldur af eignum. Það er t.d. þannig að heildareignir einhleypra ellilífeyrisþega eru taldar vera 42,5 milljarðar króna. Þar af eiga 18% þessa hóps 54% eignanna. 18% eiga 22 milljarða af þessum 42 milljörðum. Og ef við tökum hér t.d. hjón þá er það alveg það sama, að eignir þeirra, sem eru með meiri eignir en t.d. 6 milljónir, eru langt yfir helming af því sem hér er um að ræða.
    Ég nefni þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að ég er að undirstrika hvað þetta er í raun og veru erfitt og snúið og fráleitt og auðvitað ekkert skrýtið þó að menn lendi í ógnarlegum vandræðum með þetta þó að menn séu góðir í stærðfræði eins og þeir eru þarna í heilbrrn. í seinni tíð, ( Heilbrrh.: Takk.) --- ég var nú ekki að hæla þér, --- ógnarlegum vandræðum með þetta. En heilbrrh. hæstv. er að sjálfsögðu heimilt að bera þetta til aðstoðarmanns síns og sveitarstjórnarmanns á Álftanesi.
    Hérna eru menn að reyna að búa til hluti út frá ýmsum forsendum, menn segja: Við skerðum ellilífeyri en það er ekki hægt að taka lífeyrissjóðina inn í. Og það er ekki hægt að taka eignatekjurnar inn þarna af því að þá verður að taka þær inn alls staðar annars staðar og það er engin samstaða um það í ríkisstjórninni enn þá. Það er ekki hægt að taka fjármagnstekjurnar inn af því að ekki er samstaða um að gera það alls staðar. Og það er ekki hægt að taka öryrkjana inn með sama hætti og ellilífeyrisþegana o.s.frv. Og menn lenda auðvitað í þvílíkum brimgarði, tæknilegum brimgarði, að það er nokkurn veginn alveg útilokað að menn rói þessu fleyi heilu í höfn, það er eiginlega alveg útilokað. Satt að segja er nokkuð gefið að tæknilega séð þá brotnar þetta allt í spón, fyrir utan náttúrlega það pólitíska að það skuli vera Alþýðuflokkurinn --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands sem er að framkvæma þessi ósköp. Og blöskrar fleirum en Magnúsi H. Magnússyni í þeim efnum.
    Ég gæti út af fyrir sig, virðulegi forseti, líka farið nokkuð yfir heilbrigðismálin að öðru leyti, t.d. spítalana. Það er verið að tala um að við þurfum að skera niður rekstrarframlög til spítalanna í Reykjavík um 1.300 millj. kr. eða hátt í það þegar þeir eru allir teknir saman hér á Reykjavíkursvæðinu. Upp í það er til einhver hungurlús einhvers staðar í fjárlögunum eins og þau líta út. Það er alveg bersýnilegt að þar er um hrikalegan vanda að ræða. Auk þess tel ég að hæstv. heilbrrh. hafi farið rangt í þessa hluti og stofnað til uppnáms á spítölunum að óþörfu eins og haldið hefur verið á þessum málum. Það er augljóst mál að biðlistar eftir þjónustu á heilbrigðisstofnunum munu lengjast ef svo fer fram sem horfir og það er mjög alvarlegt umhugsunarefni. Ég ætla ekki sérstaklega, virðulegi forseti, að fjalla þar um einstök atriði, eins og t.d. Landakot, ríkisspítalana eða Borgarspítalann. Né heldur ætla ég sérstaklega að ræða um öryrkja en þar var fundin upp sú snjalla aðferð að láta öryrkjana borga fyrir hina öryrkjana hjá hæstv. ríkisstjórn í breytingum á lögum um almannatryggingar. Þar fundust breiðu bökin og var kominn tími til.
    Við höfum farið, virðulegi forseti, yfir þessa þætti sem eru menntamál, heilbrigðismál og tryggingamál. Það er í raun verið að höggva alls staðar inn í þetta kerfi, og ég segi að óþörfu vegna þess að samdrátturinn í þjóðartekjunum er ekki sá sem menn töldu að hann yrði þegar verið var að leggja af stað með þennan bandorm á sínum tíma, samdrátturinn er ekki sá. Þá var verið að tala um að hann yrði um 17 milljarðar kr., nú er verið að tala um að hann verði u.þ.b. þriðjungi minni.
    En er það þá þannig að einhverjar aðrar stofnanir séu betur færar um að taka við þessu þegar þessu er ýtt út af ríkinu, t.d. sjúklingum? Eru einhverjar aðrar stofnanir betur færar um að taka við þessu? Eða eru spítalarnir kannski bara að fást við heilbrigt fólk? Að dudda við alfríska einstaklinga? Það er ekki þannig. Eru einhverjar aðrar stofnanir tilbúnar til að taka við því fólki sem ekki fær þjónustu á spítölunum? Eru þær stofnanir á vegum sveitarfélaganna? Það er ekki burðugt upplitið á þjónustunni við aldraða hér í þessu ríkasta sveitarfélagi landsins sem við erum stödd í. Sveitarfélögin hafa ekki kost á því að taka við þessu fólki. Sveitarfélögin eiga minni kost á því nú en áður að byggja upp þjónustu fyrir aldraða. Og svo er það líka þannig, virðulegi forseti, að samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem gekk ekki svo lítið á að koma í gegnum síðasta þing, þá eiga sveitarfélögin að tryggja lágmarksframfærslu fólks sem ekki á kost á því af öðrum ástæðum. Og ég fullyrði: Ef þessi stefna gengur eftir að því er varðar skólana, heilbrigðismálin og tryggingakerfið þá mun enn þá harðna á dalnum í lífskjörum hér á þessu svæði og annars staðar í landinu. Því fólki, sem neyðist til að leita til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, mun fjölga. Og það er engin þörf á að gera þetta svona. Það hefur ekki orðið eldgos hér, ekki stórfelldar náttúruhamfarir, það er ekki þannig. Það er engin ástæða til að fara í þetta svona. Auk þess sem það er náttúrlega þannig að ekki er hægt af tæknilegum ástæðum að gera þessa hluti á einu ári með þeirri leiftursókn sem verið er að gera tillögur um.
    Til þess að reyna að framkvæma þetta hefur ríkisstjórnin síðan brotið upp á ýmsum nýjungum. Eitt er það að setja upp kommissarakerfi. Kommissarar eiga að hafa eftirlit með forstöðumönnum ríkisstofnana. Ég veit ekki hvernig það er með forseta Alþingis hvort á að passa þá alveg sérstaklega, það getur verið. En þannig er að koma á upp eftirlitsmannakerfi inn í hverri einustu ríkisstofnun. Og fer þá lítið fyrir valddreifingunni og sjálfstæði stofnananna eins og áður var þó mikið um talað.
    Og hvernig er það með ástandið á landsbyggðinni, er það skárra en hér? Ég hef lýst því aðeins hér á þessu svæði og hjá Félagsmálastofnun en hvernig er það þar? Menn, sem eru búnir að gleyma því, þeir fá kannski að kynnast því aðeins á Flateyri á morgun, ef það verður fært, við vonum að það verði fært. Og hvaða rök eru það sem hæstv. heilbr.- og trmrh. færir svo fyrir þessum ósköpum, þessari allsherjaratlögu að velferðarkerfinu, hvaða rök eru það? Jú, hann var látinn komast upp með það í sjónvarpsþætti fyrir nokkrum kvöldum, að ástæðan væri sú að það væri 30 milljarða halli á ríkissjóði. Það væri 30 milljarða halli á ríkissjóði og hann margtuggði það. Þeir sem ekki þekkja manninn hefðu getað haldið að hann tryði þessu sjálfur. Ég þekki hann og veit að hann trúir því ekki einu sinni sjálfur.
    Auðvitað liggur þetta ekki svona. Auðvitað er hér um að ræða talsverðan efnahagsvanda. En ríkisstjórn, sem hefur innan borðs flokk sem skreytir sig með nafninu Jafnaðarmannaflokkur Íslands, þótt það sé á eftir þankastriki, á ekki að byrja á ellilífeyri sjómanna. Hún á ekki að byrja á öldruðum, hún á ekki að byrja á öryrkjum, hún á ekki að byrja á börnum í grunnskólum og framhaldsskólum og háskólum, hún á ekki að byrja á því að loka lánakerfi íslenskra námsmanna og draga úr því og skerða fjármuni til rannsókna. Hún á ekki að gera það.
    Er ríkisstjórnin að gera eitthvað til þess kannski að þjóðin geti betur tekið við þessum vanda inn í framtíðina? Hvar er atvinnuuppbyggingarstefnan? Hvar er verðmætasköpunarstefna þessarar ríkisstjórnar? Hún er hvergi. Það örlar hvergi á neinu slíku. Ráðherrarnir líða um eins og vofur eftir hvert skipbrotið á fætur öðru, það er ál einn daginn, EES annan daginn. Þeir eru guggnir, sárir og gráir. Og það er engin lending, engar hugmyndir af neinu tagi um það hvernig á að byggja upp íslenska þjóðfélagið og mæta þessum vanda inn í framtíðina --- nema ein. Hún er sú að breyta Íslandi í alþjóðlega fjármálamiðstöð. Þá held ég að eigi nú ekki að leita til núv. ráðherra. Enda hafa þeir að vísu sagt að þetta sé eitt af þeim sviðum þar sem Íslendingar séu hvað bestir, það sé í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum. Það eigi sérstaklega að reyna að byggja á þeim hlutum þar sem Íslendingar séu alveg sérfróðir --- í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum.
    Það er að vísu, eins og kunnugt er, einn og einn maður sem hefur getið sér alveg sérstakt orð fyrir alþjóðleg fjármálaviðskipti erlendis. Ég ætla ekkert að fara yfir það nánar. Menn sem eru jafnvel ættaðir að vestan. Það er að vísu rétt. En um leið og þessu var lýst yfir, að Íslendingar væru alveg sérstakir snillingar á þessu sviði, í alþjóðlegum fjármálaheimi, var sagt að fá ætti útlendinga til að hjálpa Íslendingum til að nota þessa sérstöku hæfileika sína. Ekki var meiri trúin á getu Íslendinga á hinu alþjóðlega fjármálasviði en þarna kom fram.
    Í rauninni er það í alvöru talað þannig: það er ekkert visst, engar tillögur um eitt eða neitt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar annað en að skera, brjóta niður, snúa niður velferðarkerfið með góðu eða illu. Og það er hörmulegt. Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að það væri skynsamlegast frá almennu sjónarmiði séð að fresta þessu öllu sem liggur fyrir og snúa sér að alvöruefnahagsráðstöfunum eins og þeim sem verkalýðshreyfingin er að gera kröfu um. Og hún er reyndar að gera kröfu um að þetta verði ekki afgreitt, að þessir pappírar, sem hér liggja fyrir, verði ekki afgreiddir. Vegna þess að þeir þýða í raun og veru álögur á launafólk sem verkalýðshreyfingin er auðvitað að mótmæla. Þess vegna væri skynsamlegast, virðulegi forseti, og það skulu vera mín lokaorð: Þessi pappír verði dreginn til baka, ríkisstjórnin segi af sér og það verði skipt hér um ríkisstjórn.