Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 10:39:00 (2859)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um þingsköp) :
     Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um gæslu þingskapa til að kvarta undan skorti á svörum frá ráðherrum við þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið bornar fram í nánast allri 2. umr. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Sérstaklega vil ég kvarta undan því að fjmrh. skuli sl. föstudag ekki hafa séð ástæðu til að svara spurningum sem til hans var beint vegna svokallaðs minnisblaðs sem kom frá fjmrn. og var ætlað forstöðumönnum ríkisstofnana og ráðuneytum.
    Ef ég man rétt lýsti fjmrh. því yfir ekki alls fyrir löngu að hann hefði tekið þá stefnu að svara ræðumönnum jafnharðan og nota til þess andsvörin. Hann var spurður mjög ákveðinna spurninga sl. föstudag og þær voru í raun ítrekaðar í þingskapaumræðu en engin svör fengust.
    Ástæða þess að ég fjalla um þetta hér og nú er sú að í kvöldfréttum sjónvarps sl. föstudag, eftir að þingfundi hafði verið slitið, var viðtal við aðstoðarmann ráðherrans þar sem hann útskýrði hvað átt væri við með því sem stendur í plaggi frá ráðuneytinu og fjallar í rauninni um heimild til forstöðumanna ríkisstofnana og ráðuneyta að hýrudraga starfsfólk sitt. Það er ekkert um annað að ræða en að það stendur í rauninni í plagginu að mönnum sé heimilt að hýrudraga starfsfólk sitt. Og það er aðstoðarmaður ráðherrans sem kemur í sjónvarp sl. föstudag og útskýrir þetta mál með mjög svo undarlegum hætti.
    Mér finnst fjmrh. skulda Alþingi ákveðnar skýringar og sé ekki hægt að halda áfram umræðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum nema fá slík svör. Það mátti skilja aðstoðarmanninn þannig að með því að hýrudraga starfsmenn væri verið að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Ekki var hægt að skilja hann öðruvísi.
    En ég vil sem sagt biðja fjmrh. um að svara þessum spurningum. --- Nú er ekki eins og þetta sé bara minnisblað einhverra ónafngreindra embættismanna sem þarna er á ferðinni heldur langar mig, með leyfi forseta, að lesa titilinn á þessu minnisblaði og hvernig það hefst, en þar stendur:
    ,,Minnisblað. Efnisatriði vegna funda ráðherra með forstöðumönnum ríkisstofnana um almennan sparnað í rekstri ríkisins.``
    Og síðan segir, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin ákvað að skipa sérstaka ráðherranefnd til að útfæra nánar framkvæmd niðurskurðar ríkisútgjalda í fjárlögum. Meðfylgjandi eru efnisatriði nefndarinnar um útfærslu sparnaðarátaks sem hafa verið samþykkt í ríkisstjórn.`` --- Sem hafa verið samþykkt í ríkisstjórn.
    Þetta er með öðrum orðum tillaga ráðherranefndar sem hefur verið samþykkt í ríkisstjórn ef marka má þetta plagg.
    Og það kemur fram á bls. 4 í þessu plaggi, með leyfi forseta: ,,Ef launagreiðslur fara umfram tilgreind mörk skal útborgun stöðvuð samkvæmt ákveðnum reglum: a) fyrst yfirvinna og aukagreiðslur, b) því næst fyrirframgreiðslur og c) að lokum aðrar mánaðargreiðslur.``
    Stöðva á með öðrum orðum launagreiðslur sem fólk hefur unnið fyrir. Ég bið um svör, hæstv. forseti, og að það verði séð til þess að þau fáist.