Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 10:51:00 (2863)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um þingsköp) :
     Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann þó gaf hérna. Ég get hins vegar ekki komist hjá því að gagnrýna að hann skuli í rauninni telja sér skyldara eða brýnna að fara upp í útvarp og gefa þar skýringu á þeim ummælum sem er að finna í þessu plaggi en svara þinginu í þessu máli. Þarna er enn einu sinni á ferðinni þetta margfræga fyrirbæri þegar ráðherrar tala við þingið í gegnum útvarp. Við höfum margsinnis orðið vitni að því að ráðherrar stundi það, en ég hélt reyndar að það væri á sérsviði forsrh. að ástunda slíkt. En það eru greinilega fleiri ráðherrar þessu marki brenndir greinilega.
    Hann sagði að svör aðstoðarmanns hans hefðu getað skapað ákveðinn misskilning. Ég verð að segja að mér finnst aðstoðarmanninum nokkur vorkunn þegar litið er til þess texta sem ráðherranefnd er ábyrg fyrir og hefur sett á blað og sem hefur fengið blessun í ríkisstjórninni ef ég skil plaggið rétt og samkvæmt orðanna hljóðan. Þar er skýrlega tekið fram að launagreiðslur skuli stöðvaðar eftir ákveðnum reglum sem eru nefndar. Síðan

segir í næsta lið á eftir: ,,Með samþykki hlutaðeigandi ráðuneytis verði eftirfarandi mögulegt í kjölfar launagreiðslustöðvunar.`` --- Í kjölfar launagreiðslustöðvunar.
    Ég verð að segja að aðstoðarmanninum er nokkur vorkunn að túlka plaggið með þessum hætti. Ég fæ ekki séð að hann geti misskilið það. Hann fer bara eftir því sem á blaðinu stendur.
    En ég er fegin því að ráðherra skuli hafa dregið þetta til baka og sagt að það væri kristalstært að ríkinu bæri að greiða laun fyrir umbeðna og unna vinnu. Það hefðu allir talið sjálfsagt og eðlilegt og þyrfti ekki mörg orð um það. Hins vegar varð ég ekki vör við að hann tæki sérstaklega til fyrirframgreiðslur til opinberra starfsmanna, við vitum að þeir eru margir hverjir og flestir á fyrirframgreiddum launum, og gildir þá það sama um hana eins og umbeðna og unna vinnu?
    En textinn er í sjálfu sér ekkert óskýr eins og ráðherra hélt þó fram. Hann er mjög skýr, en hann er greinilega byggður á einhverjum gjörsamlega röngum hugsunum.