Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 10:53:00 (2864)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég skal reyna að misnota ekki tíma þingsins þegar rætt er um gæslu þingskapa með því að rekja efnisatriði, en það stendur reyndar nokkuð sérstaklega á hvað varðar þetta tiltekna atriði. Ég tel mig hafa gefið skýringu á því hvernig skilja eigi þennan texta og ég tel mig hafa sagt hér alveg umbúðalaust hver sé réttur opinberra starfsmanna til launa og reyndar annarra launamanna hér á landi. Og auðvitað verður farið að lögum og samningum í þeim efnum.
    Varðandi hitt, hvort það sé eðlilegt að þingmenn frétti af ákveðnum skýringum eða fái svör í fjölmiðlum, þá vil ég eingöngu segja þetta: Mér var ekki kunnugt um það þegar hv. þm. hóf mál sitt að hann mundi sérstaklega nefna þetta atriði. Mér var ekki heldur kunnugt um það þegar ég var beðinn um að koma í útvarp með formanni BSRB að nákvæmlega þetta efnisatriði yrði þar sérstaklega til umræðu. Hins vegar gerðist það og ég gat auðvitað ekki setið á mér, ég varð að gefa mínar skýringar þar. Þannig vill oft verða að ráðherrar þurfa að tala annars staðar en á þingi og geta ekki alltaf látið þingið sitja fyrst að ákveðnum skýringum eða fréttum.
    Hitt er svo annað mál að það hefur aldrei staðið annað til en að svara hv. þm. og svara þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Og þegar ég sagði að þingmenn hefðu flutt sömu ræðuna átti það sérstaklega við um lánsfjárlögin þar sem efnisatriði eru fá og skýr og ég gaf andsvör. Það vill nú svo til að það er hægt að staðfesta það í bókum. Ég gaf andsvör að lokinni ræðu nánast hvers einasta þingmanns, en næsti þingmaður kom aftur með sömu fyrirspurnina. Það var eingöngu það sem ég átti við þegar ég ræddi þetta sérstaklega, en þetta efnisatriði kom núna fram hjá hv. 9. þm. Reykv.
    Vonast ég til þess að þetta skýri nægilega hvernig á því stendur í fyrsta lagi að þingmenn heyrðu --- þeir sem ekki stóðu í ræðustól --- fyrst mínar skýringar í útvarpi. En þær skýringar voru að sjálfsögðu gefnar áður en viðtöl og yfirlýsingar annarra birtust í sjónvarpi og útvarpi síðar þetta sama kvöld og að mér skilst í fréttum næstu daga á eftir.