Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 11:48:00 (2870)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég talaði fyrr í þessari umræðu, nánar tiltekið þann 18. des., og notaði þá tíma minn til að fjalla fyrst og fremst um I. kafla þessa frv., sem fjallar um breytingar á lögum um grunnskóla, og beindi ég þar nokkrum spurningum til hæstv. menntmrh. sem hann hefur ekki svarað á þessum vettvangi. Hins vegar hefur margt skýrst á þessum tíma varðandi þennan kafla.
    Þær spurningar sem ég einkum varpaði fram var hvort virkilega ætti að fjölga nemendum í bekkjardeildum og hvort það væri meiningin að fækka kennslustundum á bekk. Mér fannst þetta vera svo ótrúlegt. Ég var einmitt að lesa ræðu mína núna í morgun og undraðist mest hvað mér þóttu það ótrúlegar ráðstafanir að það gæti verið að ríkisstjórnin, með menntmrh. í broddi fylkingar, ætlaði að framkvæma slíkar og þvílíkar aðgerðir. Þann 18. des. var ég þeirrar skoðunar að þetta gæti varla verið, þetta hlyti að vera einhver misskilningur af minni hálfu, og þess vegna var ég að spyrja hæstv. menntmrh.
    Síðan hefur komið í ljós að þetta er einmitt það sem á að gera. Það á að fjölga í bekkjardeildum og það á að fækka kennslustundum. Að vísu hefur menntmrh. verið að segja sem svo: Nei, þetta verður kannski ekki almennt --- og reynt að klóra eitthvað í bakkann, en þó hefur þetta verið niðurstaðan að því er ég best veit.
    Síðan er þetta kallaður sparnaður. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum menn geta leyft sér að kalla það sparnað að ráðast þannig að skólakerfinu. Mér þykir einna alvarlegust, þó að það sé kannski erfitt að stigbreyta, aðförin að grunnskólunum.
    Þeir tímar sem skólastjórar telja sig hugsanlega geta skorið niður eða þurfa að skera niður eru tímar sem notaðir hafa verið til að kenna íslensku, stærðfræði og tungumál. Þetta eru þær greinar sem eru hvað mikilvægastar, sérstaklega íslenskan og kannski stærðfræðin, en þó vil ég setja íslenskuna þar efst á blað.
    Þannig verð ég, virðulegur forseti, að hafa nokkur orð um þennan sama kafla, þó ég hafi varið drjúgum tíma í að ræða hann á sínum tíma, vegna þess að mér blöskrar algjörlega.
    Mig langar í sambandi við þetta atriði að vitna í Morgunblaðið föstudaginn 15. nóv. sl. þar sem segir undir fyrirsögninni ,,Lesskilningi er ábótavant hjá grunnskólanemum``, með leyfi forseta:
    ,,Staða 10% nemenda í 4. og 9. bekkjum grunnskóla er mjög veik hvað varðar lesskilning. Fjöldi þessara nemenda er 400 í hvorum árgangi. Auk þess virðist þurfa að

fylgjast með lesskilningi annarra 15% nemenda í 4. bekk og 10% nemenda úr 9. bekk.``
    Mér þykja þetta mjög slæm tíðindi og var þetta mikið til umræðu þegar þessar fréttir komu og m.a. var þetta haft að umtalsefni í forustugrein Morgunblaðsins í desember. Ég ætla þó ekki að eyða tímanum í að lesa það, það geta menn gert sjálfir. En ég veit ekki hvernig hæstv. menntmrh. hugsar sér að standa að þessu. Hvernig í ósköpunum ætlar menntmrh. að reyna að verja það að ráðast þannig að grunnskólunum?
    Ég hef að vísu heyrt fremur lítið frá sjálfum menntmrh. í þessu sambandi, það eru ráðherrasveinarnir sem koma fram og ræða helst um þessi mál. Það gildir það sama í menntamálum, að þar hefur Ólafur ráðherrasveinn aðallega verið í því að skýra þessi mál.
    En það sem kom mér einna mest á óvart þegar verið er að ræða þessi mál var það sem kom fram í Þjóðviljanum 15. jan. þar sem haft er eftir forsrh. að íslenska skólakerfið sé allt of dýrt. Ég veit ekki hvaðan hæstv. forsrh. hefur þetta. Það er að vísu ekki orðrétt haft eftir honum þannig að maður getur þó alltaf vonað og verið bjartsýnn og haldið að forsrh. meini þetta ekki. En það er ekki hægt annað en að trúa því að þetta sé rétt eftir haft þar sem ríkisstjórnin ræðst á þennan hátt að skólakerfinu.
    Mig langar í þessu sambandi að benda á ályktun sem við fengum senda og sem send var til allra foreldra grunnskólabarna frá Samfok, sem er samband foreldrafélaga í grunnskólum. Þar segir, með leyfi forseta, ef ég fæ að lesa nokkrar línur þar úr:
    ,,Íslensk börn búa að mörgu leyti við lakari kjör en jafnaldrar þeirra annars staðar. Skólinn á Íslandi er eini skólinn í velferðarríki sem er tvísetinn.`` --- Það liggur nú við að það þurfi að setja sérstakt upphrópunarmerki við ,,velferðarríki`` því það liggur við að eftir aðgerðir ríkisstjórnarinnar verði að hætta að tala um að á Íslandi sé velferðarríki.
    Síðan segir síðar í þessari sömu ályktun: ,,Atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist úr 20% í 85% á 30 árum, en á sama tíma hefur vikulegur skólatími barna þó dregist saman.`` --- Það þarf því ekki að grafa djúpt til að sjá að þetta er alveg rétt og ég er alveg viss um að hæstv. menntmrh. veit þetta. Hann hefur kynnt sér málin svo vel að hann veit, þegar verið er að tala um að skólakerfið sé of dýrt og að það þurfi að draga þar úr, að í samanburði við aðrar þjóðir er þetta ekki rétt. Mig langar til að varpa því til hæstv. menntmrh. hvort hann sé sammála því sem fram kom hjá forsrh. að íslenska skólakerfið sé of dýrt. Og þá langar mig til að spyrja: Við hvað er hann þá að miða?
    Í nál. minni hluta menntmn. sem sent var efh.- og viðskn., framhaldsnál., segir á einum stað og mig langar til að lesa það, með leyfi forseta:
    ,,Við hljótum einnig að spyrja hvort það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að þvinga foreldra til að grípa til sinna ráða með stofnun einkaskóla. Ef svo er standa þeir verst að vígi sem verst hafa kjörin í samfélaginu.``
    Þetta er það sem ég óttast. Ég óttast að ríkisstjórnin muni með þessari aðför að grunnskólanum og reyndar skólakerfinu í heild þvinga þá íslensku foreldra sem hafa ráð á því að koma upp einkakennslu fyrir börn sín og taka mörg skref til baka, marga tugi ára aftur í tímann þegar betur efnum búið fólk hafði bara einkakennara heima til að kenna og var það kannski ekki svo títt hér á Íslandi, en aðrir, sem ekki höfðu ráð á því að ráða kennara, urðu að sjá um kennslu heima hjá sér fyrir sín börn.
    Er í raun kominn tími til að stíga svo mörg skref aftur í tímann að afnema skólaskyldu á Íslandi? Ég verð að viðurkenna það, sem á barn í grunnskóla, að það hefur stundum hvarflað að mér. Er ég skyldug til þess að senda börnin mín í þann skóla sem er með 30 nemendum í bekk e.t.v., litlar skólastofur, kennara sem á ekki nokkurn möguleika til að sinna öllum þeim nemendum sem þarna eru að starfa? Það hlýtur öllum að vera ljóst að það er nánast útilokað fyrir kennara að sinna nemendum svo fullnægjandi sé ef 30 nemendur eru í bekk, það hljóta allir að sjá. Ég fer því að velta því fyrir mér hvort það sé meiningin hjá hæstv. ríkisstjórn að þvinga fram að skólaskylda verði afnumin og einungis verði um að ræða einkaskóla fyrir fáa útvalda. Svo langt finnst mér það ganga sem ríkisstjórnin er hér að gera. Og ég segi aftur: Síðan er notað orðið ,,sparnaður`` um þessi ósköp.
    Mig langar til að gera að mínum orðum það sem stendur í bréfi frá Samfok þar sem

þeir segja, með leyfi forseta: ,,Framtíð okkar sem þjóðar ræðst ekki síst af því hvernig börnin okkar verða í stakk búin til að takast á við verkefni 21. aldarinnar.``
    Og þurfum við þá ekkert vegabréf frá Evrópubandalaginu til að komast þangað ef við hödlum rétt á málum hér heima og leggjum ekki út í þessa bölvuðu vitleysu sem hér er verið að reyna að gera.
    Enn er tími fyrir ríkisstjórnina til að snúa frá þessari villu sinni því að við eigum enn eftir að greiða atkvæði um þetta og ég ítreka það, sem ég reyndar hef sagt áður, að auðvitað styð ég það, sem fram kemur í nál. minni hlutans, að þessi kafli frv. verði felldur út.
    Áður en ég skil alveg við þetta langar mig til að vitna til ræðu sem haldin var á iðnþingi Íslendinga í haust, 23. okt. sl., þar sem Þórólfur Matthíasson er að ræða um framlög til menntamála --- kannski ekki síst vegna þess að íslenski forsrh. telur að íslenska skólakerfið sé of dýrt. Þar er Þórólfur reyndar búinn að tala um að heilbrigðiskerfið sé of dýrt að hans mati, en kemur síðan að menntamálum, og mig langar til að lesa nokkrar línur úr hans ræðu, með leyfi forseta:
    ,,Berum okkur enn saman við Dani``, --- hann er búinn að bera okkur saman við Dani varðandi heilbrigðiskerfið. ,,Berum okkur enn saman við Dani, en fræðslulöggjöf okkar er jú upphaflega þýðing á samsvarandi löggjöf danskri. Það lætur nærri að Danir veiti 50% meira en við til þessa málaflokks af opinberu fé. En ekki nóg með það. Ríflega 25% Íslendinga eru á aldrinum 5 ára til tvítugs, en aðeins 19% Dana. Sé tekið tillit til þessa sýnist mér að útgjöld pr. nemanda af opinberu fé séu 45% lægri hér en í Danmörku, þ.e. Danir kosti næstum tvöföldu á við okkur til að koma sínu unga fólki í gegnum skóla.``
    Þegar verið er að tala um að íslenska menntakerfið sé of dýrt veit ég ekki við hvað hæstv. ráðherrar eru að miða. Þeir eru a.m.k. ekki að miða við OECD-löndin. Þeir eru ekki að miða við nein lönd sem eru nálægt okkur. Þeir eru væntanlega að miða við einhver ríki þriðja heimsins sem hafa þó verið að reyna að auka framlög til menntamála eins og þau geta vegna þess að flestir gera sér grein fyrir því að menntun er það sem er þjóð til framdráttar. Menntun og rannsóknir og þess háttar er það sem mun skapa tækifæri fyrir okkur í framtíðinni en ekki það sem ríkisstjórnin er að gera. Ríkisstjórnin ætti því að athuga sinn gang og athuga hvort aðförin að skólakerfinu er ekki eitthvað sem betur væri að við hættum við í sameiningu á þessu þingi.
    Ég hef, virðulegur forseti, eins og ég gerði reyndar í minni fyrri ræðu, lagt aðaláhersluna á skólakerfið, en ég ætla aðeins að minnast á nokkra aðra þætti og ætla reyndar ekki að hafa mörg orð um aðra þætti þessa frv. þar sem hér hefur verið gerð ágæt grein fyrir afstöðu okkar kvennalistakvenna til þessa frv. af öðrum þingkonum Kvennalistans sem hafa verið að vinna í nefndum að þessum málum. Ég gat bara ekki stillt mig um að minnast á menntamálin. Þó að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefði auðvitað gert það mjög vel og skilmerkilega í sinni ræðu fannst mér ekki hægt annað en að grípa þetta tækifæri til að fá að segja nokkur orð um það þar sem hæstv. menntmrh. var hér staddur, sem hann reyndar hefur verið undir þessari umræðu mestmegnis. Hann hlýddi ekki á mína fyrri ræðu en hún var að vísu haldin um miðja nótt þannig að það var kannski ekki óeðlilegt.
    Um þetta frv. í heild má segja að það er sett fram af mikilli fljótfærni, alls ekki hugsað, og það sem verra er, að þrátt fyrir að búið sé að setja fram ýmsar breytingar og lagfæra það er í mörgum atriðum alls ekki vitað hvernig í ósköpunum á að framkvæma það. Ég er nærri viss um að þó að ríkisstjórnin þykist ekki vita það nú mun hún lenda í miklum vandræðum með að framkvæma það sem hér segir.
    Það sem ég vil minnast á er aðförin að sveitarfélögunum. Það hefur komið fram að áætlað er að það séu milli 700 og 800 milljónir sem sveitarfélögin eigi að taka á sig af þeim skuldbindingum sem ríkissjóður hefur tekið á sig með ýmsum lögum og það allt saman án samráðs við sveitarfélögin. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, skrifaði um helgina í Morgunblaðið ágæta grein þar sem hann lýsir viðhorfum Sambands ísl. sveitarfélaga til þessa máls og ráðlegg ég hæstv. ráðherrum að lesa þá grein, þeir hefðu gott af því. Þar kemur fram viðhorf sem ég tel að þeir hefðu gott af að kynna

sér og breyta síðan um verklag og hætta að vinna með þeim hætti að ekki sé talað við fólk. Það er hvorki talað við sveitarfélögin, skólana né nokkurn einasta mann heldur vaðið áfram í blindni og síðan er ekkert hugsað um afleiðingarnar.
    Það sem mér þykir einna merkilegast við þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú, ef maður hugsar um það í einhverju samhengi, er að það kom aldrei fram nokkurt einasta orð um það, hvorki í kosningabaráttunni né heldur í máli þeirra manna sem hér hafa verið sl. ár á Alþingi fyrir hönd Sjálfstfl. og Alþfl., að það ætti að framkvæma með þeim hætti sem hér er ráðgert og hefur verið boðað sl. mánuð. Það er ekki hægt að finna það neins staðar í stefnuskrám þessara flokka að það eigi að ráðast að skólakerfinu með þeim hætti sem nú er verið að boða. Það er m.a.s. svo, og ég ætla mér ekki, virðulegur forseti, að lesa upp úr stefnuskrám Sjálfstfl. og Alþfl., það geta þeir gert sjálfir, að í þeim stefnuskrám er lögð mjög mikil áhersla á eflingu grunnskólans, lengingu skólatímans, máltíðir í skólum, samfelldan skóladag. Hvar er þetta allt saman?
    Það hefur verið lesið úr þessum ræðustól úr hvítbókinni ríkisstjórnarinnar. Þar er ekki heldur neitt um þetta. Þar er talað fallegum orðum um hvað á að gera í skólamálum. Ríkisstjórnin hefur því ekki haft það á stefnu sinni fyrir kosningar né heldur eftir kosningar að svona eigi með að fara. Og síðan kalla þeir stefnu sína Velferð á varanlegum grunni og fara svo með eins og hér hefur lýst úr þessum ræðustól margoft. Það hefur enginn kosið þessi ósköp yfir sig. Fólk vill ekki þessa stefnu. Fólkið í landinu ætlast ekki til þess að þessir flokkar fari að með þeim hætti sem þeir hafa gert. Þeir hafa ekkert leyfi til þess. Þeir hafa ekki leyfi til þess að ráðast að velferðarkerfinu með þeim hætti sem þeir ætla sér að gera núna.
    Ég ætla mér, virðulegur forseti, ekki að hafa fleiri orð um þetta þó að auðvitað mætti lengi tala um þessar dæmalausu ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur gripið til. Og ég er alveg undrandi að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar á Alþingi skuli ekki rísa upp og segja: Hingað og ekki lengra. Það getur ekki verið að það sé þannig að allir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar séu svo ánægðir með þær aðgerðir sem hún hefur hér gripið til. Við höfum margoft bent á að það er hægt að grípa til annarra aðgerða til að sækja meira fé til að reka grunnskólana og menntakerfið og ýmislegt fleira og það er hægt að spara á ýmsum stöðum. Það er hægt að taka upp annað skattþrep, skatt á fjármagnstekjur og fleira og fleira. Það þarf ekki að ráðast að velferðarkerfinu eins og hér er gert.