Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 12:09:00 (2871)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Í tilefni þingskapaumræðna sem fóru fram í morgun tel ég ástæðu til að taka til máls. Ég hef reyndar einu sinni í þessari umræðu veitt andsvar við ræðu en ekki aftur og ég tel ástæðu til þess vegna áskorunar þingmanna um að ég tali sem fyrst að láta verða af því. Ég sakaði reyndar suma hv. þm. stjórnarandstöðunnar um að flytja sömu ræðuna. Það átti kannski sérstaklega við í umræðunni um lánsfjárlög þar sem efnisatriðin voru færri en í því mjög svo flókna frv. sem hér er til umræðu og er auðvitað allt annars eðlis en lánsfjárlögin. Það er ósköp eðlilegt að hv. þm. stjórnarandstöðunar flytji langar ræður um það frv. sem hér er til umræðu.
    En það eru örfá atriði, virðulegi forseti, sem mig langar til að minnast á og hafa komið fram í umræðunum. Ég átti viðræður við hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur eftir hennar ræðu og þarf ekki að ítreka það sem þar kom fram.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson er ekki við eins og sakir standa, en ég tel samt ástæðu til að nefna örfá atriði sem fram komu í hans ræðu og reyndar hafa komið fram aftur hjá öðrum ræðumönnum.
    Það fyrsta sem fyrir ber í þeim efnum eru svokallaðir tilsjónarmenn, en margir hv. ræðumenn hafa rætt um það ákvæði í frv. sem reyndar er nýtt og kom ekki til skjalanna fyrr en eftir áramótin og er þess vegna eðlilegt að um það sé sérstaklega rætt við 2. umr. málsins. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson óskapaðist nokkuð yfir þessu ákvæði í frv. og taldi að þetta ákvæði væri allt annars eðlis en það ákvæði sem finna mátti í frv. sem hann

sem forsrh. flutti á sínum tíma á Alþingi.
    Mig langar, virðulegi forseti, til að rifja upp hvaða efnisatriði það voru sem voru í frv. sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson lagði fram í efri deild á sínum tíma, á 112. löggjafarþinginu, og var þá þskj. 927. Þetta var stjfrv. að sjálfsögðu og ekki lagt fram nema með samþykkt og samþykki stjórnarþingmanna. Það er hins vegar rétt að frv. hlaut ekki afgreiðslu og vera má að innan stjórnarflokkanna þáverandi hafi verið andstaða við frv. Frumvarpsgreinin var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ráðuneyti hefur umsjón og eftirlit með stofnunum sem undir það heyra enda þótt þeim séu með lögum skipaðar sérstakar stjórnir.
    Hafi verulegir annmarkar komið fram á rekstri stofnunar og ekki úr bætt þrátt fyrir fyrirmæli ráðuneytis er ráðherra heimilt að ráða sérstakan eftirlitsaðila um stundarsakir, þó ekki lengur en til árs í senn, til að fylgjast náið með rekstri stofnunarinnar fyrir hönd ráðherra.``
    Í athugasemdum við frv. er þetta skýrt enn frekar. Þar segir, auk þess sem öllum er kunnugt að ráðuneyti bera þá ábyrgð að hafa eftirlit með starfrækslu stofnana, í 2. mgr. og næstu málsgreinum þar á eftir allt til lokaákvæðisins í athugasemdunum:
    ,,Reynslan hefur sýnt að menn hafa talið á því nauðsyn að setja ýmsum stofnunum sérstaka eftirlitsaðila um stundarsakir. Tilefni til þessa geta verið með ýmsu móti, en sérstaklega þegar um er að ræða:
    a. að stofnun hafi farið verulega fram úr greiðsluheimild fjárlaga eða aðrir annmarkar komið fram á rekstri,
    b. að ekki hafi verið bætt úr þrátt fyrir skýr fyrirmæli ráðuneytis.``
    Síðan segir: ,,Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að eftirlitsaðili ráðherra með stofnun geti verið einstaklingur, fyrirtæki eða félag sem sinni eftirlitshlutverki tímabundið.``
    Hér hef ég lokið við að lesa frumvarpsgreinina annars vegar og athugasemdir hins vegar. Samkvæmt orðanna hljóðan er ljóst að þeim sem samdi þetta á sínum tíma þótti eðlilegt að setja lög þar sem hægt var að setja umsjónarmenn, eftirlitsmenn með stofnunum, ,,enda þótt``, eins og segir í greininni, ,,þeim séu með lögum skipaðar sérstakar stjórnir.`` Með öðrum orðum: það var ætlan þeirra sem lögðu fram frv. að þrátt fyrir ákvæði ýmissa laga um stjórnir yfir viðkomandi stofnunum gætu ráðuneytin skipað þeim eftirlitsaðila. Annmarkarnir sem til eru nefndir eru fyrst og fremst þeir að stofnunin hafi farið verulega fram úr greiðsluheimild fjárlaga eða, eins og segir í athugasemdagreininni, að ,,aðrir annmarkar hafi komið fram í rekstri``. Það er því alveg ljóst að hugmynd þeirra sem lögðu fram frv. á sínum tíma var að setja lög sem gæfu ráðuneytum og viðkomandi ráðherrum tækifæri til að hafa eftirlit með viðkomandi stofnunum og þessir eftirlitsaðilar áttu að hafa mjög rúmar heimildir.
    Það er einnig athygli vert að þeir sem áttu að sinna þessu eftirlitshlutverki ráðherranna gátu verið einstaklingar, fyrirtæki --- og þá að sjálfsögðu fyrirtæki utan opinbera rekstrarins --- og félög. Ég tel ástæðu til að þetta komi fram til að sýna að í raun og veru er sú hugmynd sem nú er á ferðinni ekkert ný.
    Ég vil vegna orða hv. þm. Steingríms Hermannssonar og einnig vegna þess að þetta atriði hefur verið gagnrýnt af fleiri hv. þm., þar á meðal hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, aðeins minnast á það ákvæði sem nú er í brtt. við frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Greinin hefur breyst. Hún hefur í tímans rás og í meðferð nefndarinnar orðið skýrari, skilmerkilegri og þær breytingar sem gerðar voru á henni voru auðvitað gerðar í samráði og samvinnu við ráðuneytið og sumt kom beinlínis úr ráðuneytinu. Það sem eftir stóð á sínum tíma, þegar málið var til meðferðar í nefnd, var sú gagnrýni sem kom fram frá Ríkisendurskoðun, en nú hefur verið bætt úr henni, a.m.k. að langmestu leyti.
    Ég minni á orðalagið í brtt., en hún hljóðar þannig, með leyfi forseta: ,,Ráðherra skal enn fremur með erindisbréfi tilsjónarmanna kveða skýrt á um ábyrgðarsvið þeirra.`` Því er beinlínis skotið inn í frumvarpstextann til að koma til móts við helstu gagnrýni Ríkisendurskoðunar, en Ríkisendurskoðun segir í umsögn sinni, eins og hún birtist á bls. 24 í

minnihlutaálitinu, með orðum sem þar er að finna og ég les upp með leyfi forseta:
    ,,Að mati Ríkisendurskoðunar er hæpið að fela nýjum aðila að fara með útgjaldaákvarðanir án þess að sá hinn sami taki ábyrgð á þeim en samkvæmt frv. er ekki nægjanlega skýrt hver ábyrgð ,,tilsjónarmanna`` verður í þessu tilliti. Jafnframt sýnist nokkur hætta á að þessi skipan geti valdið óöryggi og óvissu í daglegum rekstri stofnana.``
    Nú er tekið af skarið í þessum efnum og þess vegna komið til móts við helsta gagnrýnisatriði Ríkisendurskoðunar sem fram kemur í umsögn hennar sem send var nefndinni á sínum tíma.
    Ég vek athygli á að Ríkisendurskoðun tiltekur nokkur atriði í lok umsagnarinnar og ítrekar að hún telur þau vera mikilvæga liði í aðgerðum er miða að bættum fjárreiðum ríkisins og stofnana þess, en þau eru að áliti Ríkisendurkoðunar:
    1. að frv. um greiðslur úr ríkissjóði verði lögfest,
    2. að skýrt verði kveðið á um hver ber ábyrgð á umframkostnaði,
    3. að ábyrgð á framkvæmd fjárlaga sé fyrst og fremst í höndum viðkomandi fagráðuneytis og forstöðumanna ríkisstofnana, og
    4. að tryggt sé að hin sameiginlegu upplýsingakerfi veiti allar nauðsynlegar upplýsingar til stofnana ríkisins.
    Ég held að öll þessi atriði séu til umfjöllunar og verði notuð þegar fylgjast þarf með framkvæmd fjárlaga.
    Ég hef áður sagt, og það má gjarnan koma fram aftur hér vegna þess að á það hefur verið minnst í þessari umræðu, að frv. um greiðslur úr ríkissjóði er til meðferðar í fjmrn. Það verður vonandi þannig að stjórnvöld og Alþingi nái saman um frv. sem fjárln. gæti hugsanlega flutt og báðir aðilar staðið að. Að því er unnið um þessar mundir. Ég rifja upp að á sínum tíma var ágreiningur á milli þáv. fjmrh., 8. þm. Reykn., og fjárveitinganefndar hins vegar, a.m.k. þeirra sem sátu þá í neðri deild og fluttu frv. um þetta efni. Ég vona að sá ágreiningur verði leystur á næstunni. Ríkisfjármálanefnd hefur með þetta mál að gera og reikningsskilanefnd, held ég hún sé kölluð, sem starfar á vegum ráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar, hefur mikið um þetta mál fjallað. Þannig á ég á von á að nú á vorþinginu verði hægt að flytja frv. um þetta efni. Þá sé ég ekkert á móti því að hv. fjárln. flytji slíkt frv., enda sé hún þá samþykk frv. sem fyrir liggur.
    Um ábyrgðina hef ég áður rætt. Það er komið inn í frumvarpsgreinina. Og ég fagna því að Ríkisendurskoðun skuli ítreka að ábyrgð á framkvæmd fjárlaga sé fyrst og fremst í höndum viðkomandi fagráðuneytis og forstöðumanna ríkisstofnana. Það hefur verið okkar álit í fjmrn. að einmitt þannig skuli farið að og allt það, sem gert verður til þess að fylgjast með því að framkvæmd fjárlaga sé samkvæmt því sem Alþingi samþykkti, verður gert með þeim hætti að viðkomandi ráðuneyti hafa eftirlit með framkvæmdinni.
    Og loks um upplýsingakerfið. Það kemur einmitt fram í þessu fræga minnisblaði, sem nokkuð hefur verið til umræðu, að það verður gert með þeim hætti að upplýsingakerfi ríkisins verður notað til að kalla fram greiðslustöðu stofnana á hverjum tíma, hvort sem eiga í hlut laun starfsmanna eða önnur gjöld.
    Ég hef nú, virðulegi forseti, rakið að í raun og veru er ekki mikill munur á þeirri hugsun sem kemur fram í þessari brtt. og hinni greininni sem ég nefndi áður til sögunnar. Menn hafa sagt: Ja, munurinn felst í því að nýjum tilsjónarmönnum er ætlað að taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar. En á móti kemur að ráðherra er gert að skrifa erindisbréf og í erindisbréfinu skal skýrt taka fram hve langan tíma tilsjónarmaðurinn á að starfa í viðkomandi fyrirtæki eða stofnun og eins hvert sé ábyrgðarsvið hans. Þá er í greininni ljóslega sagt að honum er ekki ætlað að ráða starfsmenn heldur að ákveða umfang. Með þessu er verið að undirstrika að forstöðumenn stofnana, sem fara með fagleg efni, eigi að ráða því hverjir séu ráðnir, hafi þeir vald til þess samkvæmt lögum eða stjórnir þeirra stofnana, en hins vegar sé það hlutverk tilsjónarmannanna að ákveða umfang starfsmannahaldsins til þess að ljóst sé að farið sé að fjárlögum.
    Það má vel vera, eins og fram hefur komið í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, að þeim finnist að þeir hafi náð miklum árangri með því að sveigja til frumvarpsgreinina. Ef

þeim finnst svo vera gleðst ég yfir því því að ekkert vil ég fremur en að eiga gott samstarf við þá og taka tillit til þeirra hugmynda sem fram koma frá stjórnarandstöðunni á hverjum tíma. Ég vona að sá sveigjanleiki sem sýndur hafi verið einmitt í tilurð þessarar greinar sýni og sanni að það skortir ekkert á samstarfsvilja ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ég vil reyndar þakka hv. þm. sem ræddu málið á þessum nótum, reyndar kannski fyrst og fremst hv. þm. Jóhanni Ársælssyni sem talaði fyrr í dag.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sem er fjarstaddur og leitt að þurfa að vera að svara fjarstöddum manni, minntist á önnur atriði í sinni ræðu sem ástæða er til að svara. Hann kom reyndar víða við í sínu máli sem er ekki óeðlilegt enda tekur hann ekki mjög oft til máls en er þeim mun málefnalegri þegar hann talar úr þessum ræðustól. ( HÁ: Er hann með aðra ræðu en hinir?) Það voru ekki mín orð, hv. 1. þm. Austurl., því að jafnvel þótt menn flytji alltaf sömu ræðuna kann sú ræða að vera málefnaleg. Það hefur ekkert með það að gera hversu oft ræðan er flutt hvort hún er málefnaleg eða ekki. Vona ég að hv. þm. sé sammála mér því að hann hefur haft a.m.k. sama kafla í flestöllum ræðum sem hann hefur flutt hér á Alþingi frá áramótum.
    En það var þannig að hv. þm. Steingrímur Hermannsson fjallaði um heilbrigðismálin og taldi það vera af og frá hvernig ríkisstjórnin hagaði málum sínum á því sviði og sagði að það væri óhæfa að ætlast til greiðslu af hálfu þeirra sem þyrftu á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda. Nú vill svo til að ég á útskrift af hluta úr ræðu hv. þm. sem hann flutti á sínum tíma --- ég held á einhvers konar landsfundi Framsfl. --- þar sem hann vék að þessu máli. Þá var hann forsrh. og orðaði þetta svo í ræðu sinni, ég er með þetta hérna nákvæmlega, með leyfi forseta:
    ,,Ég fékk einnig bréf frá gömlum manni sem var nýlega kominn af sjúkrahúsi og hann spurði: Hvernig stendur á því að ég er ekki látinn greiða fyrir matinn hér svipað og ég spara heima og þó held ég fullum eftirlaunum heima? --- Þetta var framsóknarmaður, heilbrigður maður, en eru þetta ekki nokkuð góðar spurningar?``
    Og tilvitnun lýkur í ræðu formanns Framsfl., þáv. forsrh., þar sem hann 18. nóv. 1988 var --- með sínum hætti þar sem hann vitnaði til ónefnds manns úti í bæ --- að gefa í skyn að til greina kæmi að sjúklingar greiddu fyrir þá þjónustu sem þeir fengju á sjúkrastofnunum. Ég vil, vegna þess að hv. þm. ræðir ekki oft um þessi mál, taka undir með honum. Mér finnst vera full ástæða til þess að þetta sé kannað. ( Gripið fram í: Með gamla manninn?) Ja, með þeim sem sá ástæðu til að nefna þetta sérstaklega til sögunnar þegar hann opnaði fund Framsfl. 18. nóv. 1988 og læt ég liggja á milli hluta hvort þið kallið hann gamlan eða ekki. En hann er nú enn þá í fullu starfi og er enn þá formaður Framsfl. Vona ég að ég hafi svarað frammíkallinu skýrt og skorinort. --- En hann stendur sig betur en margir aðrir sem yngri eru hér í salnum.
    Þá vék hv. þm. að öðrum málum, sem kannski eru honum kærari að tala um, einkum vaxtamálum. Hann spurði um hvort ekki væri kominn tími til að grípa til ákvæðis laga um að Seðlabankinn tæki á vaxtamun. Ekki síst þegar litið væri á vaxtamun í bönkunum, viðskiptabönkunum, um þessar mundir. Margoft hefur verið sagt frá hvers vegna vaxtamunur er nú svo mikill á óverðtryggðum skuldbindingum í bankakerfinu. Ástæðan er að á fyrri hluta sl. árs var vaxtamunur óvenjulega lítill á óverðtryggðu skuldbindingunum.
    Þegar gerður var svokallaður þjóðarsáttarsamningur var hann gerður með þeim hætti m.a. að aðilar vinnumarkaðarins höfðu samband við viðskiptabankana og viðskrn. og Seðlabankann og fóru fram á að vaxtaþróunin í landinu sigldi eftir ákveðnum fyrir fram gerðum hugmyndum og tillögum. Það var gert en bankarnir, viðskiptabankarnir, einnig ríkisviðskiptabankarnir, gerðu þann fyrirvara að vaxtamunurinn þyrfti að ná ákveðnu marki innan ársins. Það er einmitt skýringin á því hvers vegna vaxtaþróunin hér á landi er eins og hún er, að bankarnir telja sig geta náð upp á síðari hluta ársins vaxtamun, ef þeir hafa misst hann niður á fyrri hluta ársins, t.d. vegna þess að þeir hafa farið að hugmyndum ríkisstjórnar um að halda niðri vöxtum á óverðtryggðum skuldbindingum. Þetta kemur ekki að sök þegar skuldbindingar eru verðtryggðar því að þá er tekið tillit til verðþróunarinnar í hvert skipti, í hverjum einasta mánuði.

    Ekki ætla ég að svara þessari hugmynd eða fyrirspurn hv. þm., en ég get ekki annað en bent honum á að það eru bankaráðin sem taka afstöðu til vaxtanna og það eru einmitt bankaráðin sem fyrst og fremst skoða vaxtamuninn. Svo vill nefnilega til að ég hef setið í bankaráði Landsbankans og ég veit að hv. þm. situr þar núna. Og ég veit enn meira. Ég veit að stjórnarandstaðan hefur meiri hluta í því bankaráði. Ef hv. þm. er áhugasamur um að draga úr vaxtamuninum, sem ég er líka, hefur hann völdin til þess en ekki ég. Það hefur hins vegar komið til skoðunar í þessu máli hvort grípa ætti til þeirra ráða, sem til eru í íslenskum lögum, að lækka vexti í landinu vegna þess að vextir hér á landi séu hærri en gengur og gerist annars staðar. Í því sambandi finnst mér kannski nærtækast að vitna til Hagtalna mánaðarins, síðasta heftis, þar sem Seðlabankinn hugleiðir þetta mál m.a., en þar segir:
    ,,Meðalvextirnir [þ.e. hér á landi] eru að sönnu talsvert hærri en gerist og gengur í stóru hagkerfunum sjö. Þeir eru hins vegar álíka og raunvextir á Norðurlöndunum eða í smærri Evrópulöndum að Sviss frátöldu. Atvinnulíf þessara landa og stærð fyrirtækja eru nær því að vera sambærileg við það sem gerist hér á landi heldur en ef tekið er mið af hagkerfum stórþjóðanna og verður ekki séð að samanburðurinn við þau gefi tilefni til aðgerða.``
    Af því að hv. þm. spurði hvort rætt hefði verið við Seðlabankann um þessi atriði tel ég rétt að það sé rifjað upp hvað Seðlabankinn hafði um þetta mál að segja við lok síðasta árs. Reyndar kom þetta rit ekki til okkar fyrr en eftir áramótin.
    Ég hef fyrr vikið að því sem kom fram hjá hv. þm. og snýr að raungenginu. Það mun vera einhver misskilningur í gangi um að raungengi hafi hækkað um 9% á valdatíma ríkisstjórnarinnar sem nú situr. Því hef ég þegar svarað og reyndar kemur það fram í skýrslu sem Seðlabankinn skilaði frá sér laust fyrir jól.
    Ég hef að nokkru leyti svarað því sem kom fram og var til mín beint af hálfu hv. 1. þm. Austurl., í fyrsta lagi um tilsjónarmennina, í öðru lagi um greiðslur úr ríkissjóði, en það var það atriði sem hann beindi sérstaklega til mín ef ég man rétt. Ég hef einnig fyrr í morgun rætt nokkuð um svokallað minnisblað til ráðherra sem er umræðugrundvöllur til nota á fundum með forstöðumönnum ríkisstofnana. Það minnisblað er eitt af því sem er til umræðu nú til að ná árangri í þeim sparnaði í ríkisrekstrinum, þessum almenna sparnaði, sem stundum er kallaður flatur niðurskurður.
     Ég tók sérstaklega fram í ræðu minni í morgun, þegar rætt var um þingsköp, að það væri kristalstært að ríkinu bæri eins og öðrum launagreiðendum að greiða laun fyrir umbeðna og unna vinnu á þeim tíma sem um hefði verið samið. Það stendur og ekkert minnisblað eða ummæli einhverra annarra breyta því. Það eru lög hér á landi og auðvitað ber ríkinu að fara að lögum öðrum fremur. Hafi þetta valdið misskilningi, sem ég efast ekkert um og hef reyndar heyrt, vil ég að þetta komi enn einu sinni ákaflega skýrt fram. Ég tel að samkvæmt minnisblaðinu --- sem er í raun og veru ekki opinbert plagg þó að það hafi orðið það eins og svo mörg önnur sem ekki er ætlast til þess að fari í fjölmiðla og ekkert við því að segja því að það er bara gott að almenningur fylgist með því hvað verið er að gera --- eigi að skilja þetta eftirlitshlutverk með þeim hætti að í fyrsta lagi gera stofnanirnar sjálfar greiðsluáætlun. Sú greiðsluáætlun er samþykkt af viðkomandi fagráðuneyti og fjmrn. og eftir þeirri greiðsluáætlun á síðan að fara. Hins vegar eru leyfð ákveðin frávik á launakostnaði hverrar stofnunar, þær heimildir fara síðan lækkandi eftir því sem líður á árið, en þá er heimilt að draga umframgreiðslur launa frá öðru rekstrarfé stofnunar.
    Þá er í minnisblaðinu bent á að fari launagreiðslur umfram tilgreind mörk skuli útborgun stöðvuð samkvæmt ákveðnum reglum. Það er kannski einmitt þetta orðalag sem veldur hvað mestum misskilningi. Ég hef leyft mér, eins og ég skildi þetta orðalag, að segja hreint út --- og það er auðvitað það sem ræður --- að þetta getur ekki gerst nema fram í tímann. Þ.e. hafi stofnun farið verulega fram úr og er búin að eyða öðrum rekstrargjöldum á að tala við yfirmanninn og segja: Nú verður greiðsluframlagi til stofnunarinnar breytt þannig að það verður ætlast til þess að stofnunin spari í yfirvinnu og síðan koll

af kolli. Í raun og veru er verið að segja viðkomandi stofnun: Ef hún kýs að gera allt það sem hún ætlaði sér að gera og eyða öllum launum á fyrri hluta ársins verður forráðamaður stofnunarinnar að gera ráðstafanir til þess að launagreiðslur verði litlar sem engar á síðari hluta ársins.
    Hins vegar er í 3. töluliðnum sagt að með samþykki hlutaðeigandi ráðuneytis sé auðvitað mögulegt að samþykkja nýja rekstrar- og greiðsluáætlun, að millifæra almennt rekstrarframlag á launareikning, enda sé afkoman góð að öðru leyti --- eða að stofnunin fái aukna yfirdráttarheimild.
    Þetta vil ég að komi fram því að þetta hefur valdið misskilningi og ég viðurkenni að orðanna hljóðan og eins og þetta er skrifað hefur ýtt undir þann misskilning. En ég vonast til þess að það hafi skýrst og reyndar vil ég nefna það hér að þegar á föstudaginn, undir ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, átti ég viðtal við formann BSRB í útvarpi og gerði þar glögga grein fyrir mínum sjónarmiðum og mínum skilningi á þessu máli þótt Ríkisútvarpið hafi ekki kosið um kvöldið að vitna til þeirra viðtala heldur birt önnur viðtöl og önnur sjónarmið og reyndar Ríkisútvarpið--sjónvarp líka. Veit ég þó til þess að oftsinnis áður hefur það gerst að vitnað hefur verið til umræðuþátta í Ríkisútvarpinu í kvöldfréttum þess. En það er stundum þannig að fjölmiðlar, og þá ekkert frekar þessir en aðrir, hafa meiri áhuga á að kalla fram ágreining í þjóðfélaginu en að segja það sem er fyrst og fremst sagt í upplýsingaskyni. Við því er sjálfsagt lítið að gera, það tilheyrir fjölmiðlum nútímans en gerir okkur stundum erfitt fyrir sem þurfum að sjálfsögðu að eiga góð og vingjarnleg samskipti við fjölmiðlana og verðum að reiða okkur á að þeir segi sem sannast og réttast frá því sem þeir vita.
    Að síðustu, virðulegi forseti, langar mig almennt til þess að segja frá því hvernig á því stendur að við þurfum að leggja fram frv. eins og það sem hér er til umræðu. Það gleymist stundum í þessari umræðu að ástæðan fyrir því er ekki sú að núverandi stjórn vilji ráðast að velferðarmálum, heilbrigðismálum og menntamálum af --- ja, eins og skilja mætti a.m.k. suma --- hreinum skepnuskap. Ástæðan er önnur og hún er að þjóðin þarf nú í þeirri efnahagslægð sem gengur yfir að sníða sér stakk eftir vexti. Við höfum á undanförnum árum horft upp á að útgjöld íslenska ríkisins hafa vaxið jafnt og þétt. Við höfum á undanförnum árum horft upp á að þrátt fyrir skattahækkanir hafa útgjöldin ávallt hækkað meira en skattarnir. Afleiðingin af þessari stefnu hefur verið sú að íslenska þjóðin, ekki síst íslenska ríkið, hefur þurft að sækja sér lánsfé og það lánsfé hefur verið sótt í stórum stíl erlendis. Það hefur verið mismunandi mikið frá ári til árs, en í stórum stíl hefur það verið gert erlendis. Órækasti vitnisburðurinn um þetta er viðskiptahallinn sem hefur verið viðvarandi frá ári til árs.
    Þeir sem halda að það sé verið að skera svo duglega niður nú að öll lántaka hafi verið stöðvuð verða að átta sig á því að þrátt fyrir allan niðurskurðinn, þrátt fyrir allan sparnaðinn kemur í ljós samkvæmt spám að á yfirstandandi ári mun viðskiptahallinn verða 15 milljarðar kr. Með öðrum orðum erum við að taka inn lánsfé hingað til lands til að standa undir ekki eingöngu fjárfestingum að nokkru leyti heldur hreinlega eyðslu þjóðarinnar, ekki eingöngu opinberri eyðslu heldur auðvitað einkaneyslu líka að hluta.
    Þetta verðum við að hafa í huga og ekki síst þeir sem saka stjórnvöld núna um að beita ekki þeim tækjum sem sumir töldu að rétt hefði verið að beita í kreppunni miklu, en það er að auka ríkisútgjöldin þegar við förum inn í kreppu eins og þá sem við núna erum að fara inn í í ár. Við getum kallað þetta efnahagskreppu eða efnahagslægð, mér er alveg sama hvort nafnið er notað, en sannleikurinn er sá að þrátt fyrir allt hafa stjórnvöld ákveðið að herða ekki ólina meira en svo að áfram verður um skuldasöfnun að ræða um hríð. Þetta er auðvitað gert viljandi og vitandi vits til að koma í veg fyrir harkalegri áhrif aðgerða stjórnvalda. Ef við hefðum skorið enn þá meira niður, ef við hefðum t.d. ekki haft halla í ríkisfjármálunum hefði samdrátturinn bitnað mun harðar á almenningi og velferðarkerfinu og okkur öllum en þó gerist þegar við þurfum aðeins að laga stakkinn sem við sníðum okkur.
    Þegar fyrsta þjóðhagsáætlun var gefin út í sumar, og reyndar í haust, var gert ráð

fyrir að landsframleiðslan mundi breytast um 1--2% þannig að á þessu ári yrði hagvöxturinn sem nemur 1--2%. Það hefði þýtt að kjör okkar í ár hefðu verið betri en á síðasta ári. Nú er hins vegar ljóst að niðursveiflan verður umtalsverð. Ef við reiknum þetta út og fáum það í milljörðum með því að finna hlutfallið af landsframleiðslunni, sem er í kringum 370 milljarðar kr., kemur í ljós að sveiflan í þjóðhagsspánum, bara í þjóðhagsspánum á nokkurra mánaða millibili, er u.þ.b. 22--22,5 milljarðar kr. Munurinn á spánni sem var lögð fram snemma í haust og spánni sem kom fram núna eftir áramótin og hefur verið birt er einfaldlega sá að það munar yfir 22 milljörðum í landsframleiðslu. Til að gera sér einhverja grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefur á ríkissjóð getum við áætlað að þetta séu 4--4,5 milljarðar sem þessi veltusamdráttur hefur áhrif á ríkissjóð.
    Þegar við gætum að því að á síðasta ári var halli á ríkissjóði a.m.k. 10 milljarðar, líklega nær 11 ef eitthvað verður, og að á þessu ári töpum við niður svona miklum tekjum til ríkisins sjá menn á augabragði við hvaða vanda er að etja og menn sjá einnig að það hlýtur að hrikta í stoðum þjóðfélagsins þegar við ætlum að ná því marki að hallinn verði ekki nema 4 milljarðar. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við erum að fjalla um þessi mál. Ég tel að ríkisstjórnin sé nú að reyna eftir bestu getu að viðhalda velferðarkerfinu, að halda í það sem við þurfum á að halda í velferðarþjóðfélaginu, en fórna hinu, sem við getum verið án, um tímabundið skeið.
     Ég held að hver einasta ríkisstjórn sem hefði starfað hérna, hvort sem Sjálfstfl. á sæti í henni eða ekki, hefði orðið að grípa til slíkra ráðstafana. Mér finnst það nokkuð hart þegar sagt er að við séum að ráðast á sjúklinga, ráðast á gamalmenni, ráðast á barnmargar fjölskyldur, ráðast á sjómenn þegar ljóst er að okkar aðgerðir byggja fyrst og fremst á því að draga úr bótum til þeirra sem hafa tekjur talsvert langt umfram lægstu tekjur. Ég lýsi furðu minni á því þegar menn leyfa sér að segja í öðru orðinu: Þessir menn eru að ráðast á barnafjölskyldurnar --- og nefna jafnvel tugi þúsunda í því sambandi þegar talað er um barnabæturnar --- og svo í hinu orðinu: Og þannig ætla þeir að fara með fjölskyldurnar sem hafa aðeins 60 þúsund kr. á mánuði, svo ég vitni til manns sem ekki situr á Alþingi en er framarlega í launþegahreyfingunni og tók mál upp með þessum hætti.
    Sannleikurinn er sá að það falla engar barnabætur af fólki fyrr en tekjurnar eru komnar langt umfram þessi lægstu laun. Við erum einmitt í okkar aðgerðum öllum að gæta þess að fólkið með lægstu launin, lökustu kjörin, geti áfram lifað við sambærilegar aðstæður, en hinir sem hærri launin hafa og eru aflögufærir taki á sig þær byrðar sem við þurfum nú að skipta á okkur. Við skulum viðurkenna að sjómenn hafa sem betur fer góðar tekjur og hafa jafnvel bætt tekjur sínar á undanförnum árum umfram aðra þótt það sé vissulega rétt að á þessu ári geti tekjur þeirra rýrnað meira en annarra stétta.
    Þetta vil ég að komi skýrt fram af því mér finnst stundum gagnrýni stjórnarandstöðunnar, og reyndar ekki eingöngu stjórnarandstöðunnar á þingi, vera dálítið ósanngjörn þegar kemur til þess að segja hverjir taki á sig byrðarnar. Við höfum nefnilega í okkar aðgerðum reynt að tekjutengja bæturnar sem þýðir ósköp einfaldlega það að þeir sem hærri hafa tekjurnar, þeir missa, en hinir, sem lægri hafa tekjurnar, þeir halda. Svo einfalt er að lýsa þessum málum.
    Hinn þátturinn snýr að þjónustugjöldunum sem eru auðvitað gjaldamegin í ríkisfjármálunum og dregur úr útgjöldum til stofnana. Við höfum líka verið gagnrýndir fyrir það. Ég ætla bara að benda á að alls staðar í nálægum löndum, ekki síst á Norðurlöndunum sem telja sig vera mestu og bestu velferðarþjóðfélögin, hefur það gerst á undanförnum árum að allir stjórnmálaflokkar, líka þeir sem eru lengst til vinstri eins og t.d. SF-flokkurinn í Danmörku, hafa tekið upp þjónustugjöldin í sína stefnuskrá. Vegna hvers? Vegna þess að þeir hafa talið að það væri betra fyrir velferðarþjóðfélagið að þeir sem hafa efni á því að greiða fyrir þjónustuna taki þátt í þeim kostnaði. Og þeir hafa hafnað þeirri gagnrýni, sem allt of oft heyrist hér, að þeir sem eru að greiða fyrir ákveðna þjónustu séu að greiða skatta.
    Þegar ég fer í strætó og borga þar lítilræði, sem ekki er nema hluti af kostnaðinum, er ég ekki að borga skatta. Ef ég á barn á barnaheimili og borga hluta af rekstrarkostnaðinum er ég ekki að borga skatta. Ég er að borga hluta af þeim kostnaði sem fellur að öðrum hluta á skattgreiðendur, hvort sem það er með útsvari eða almennum sköttum. Og ég hvet alþingismenn til að kynna sér hvað er að gerast í öðrum löndum. Ég hvet þá til að skoða t.d. þá bók sem hv. 8. þm. Reykn., þegar hann var fjmrh., lét gefa út á vegum fjmrn. og fjallar um velferðarþjóðfélögin á Norðurlöndum á aðhaldstímum. Ég hvet hv. alþm. til að kynna sér þessi efni vegna þess að ég er sannfærður um að þá átta þeir sig á að allar aðrar þjóðir, sem hafa svipað kerfi og við, hafa leyst sín vandamál á aðhaldstímum með þessum sama hætti. Ég er enn fremur sannfærður um að það er nákvæmlega sama hver ríkisstjórnin hefði verið, hún hefði gripið til þessara sömu ráða.
    Stundum hefur verið sagt að við ættum að gera eins og aðrar þjóðir, og ég hef sagt það sjálfur í minni ræðu, og Finnar hafa verið nefndir til sögunnar a.m.k. tvívegis og menn hafa sagt: Ekki réðust Finnar á hitt eða þetta í sínu mennta- og velferðarkerfi. Ég veit ekki hvort menn átta sig á því að þessi mikli samdráttur í Finnlandi er líklega fjórum sinnum minni í landsframleiðslunni á þessu ári en hjá okkur, fjórum sinnum minni. Samt eru þau verkefni uppi þar að menn hafa talað um það í fullri alvöru að lækka launin. Reyndar fór það allt yfir um þegar gengið féll seint á síðasta ári vegna þess að vextirnir spýttust upp úr öllu valdi og fjármagnið fluttist úr landi. Ástæðan fyrir því var eingöngu sú að eitt verkalýðsfélagið tók sér frest til að athuga hvort það ætlaði að samþykkja fyrirliggjandi samningsdrög.
    Virðulegi forseti. Það sem við erum að gera er að fjalla um frv. sem er frv. til að koma til móts við þær áætlanir sem eru í fjárlögum íslenska ríkisins, þeim fjárlögum sem samþykkt voru fyrir síðustu jól. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að þau fjárlög og þau lánsfjárlög sem nú eru til umræðu á hinu háa Alþingi eru þannig úr garði gerð að gera má ráð fyrir því að lánsfjárþörf ríkisins dragist verulega saman á yfirstandandi ári. Þar með ættu að vera skapaðar forsendur fyrir hvoru tveggja í senn, annars vegar að ná fram raunsæjum kjarasamningum, sem byggjast á því að verðlag breytist lítið á þessu ári, og hins vegar að lækka vextina í þjóðfélaginu vegna þess að allir vita að vextir og vaxtaupphæðin mótast að verulegu leyti af eftirspurn eftir fjármagninu. Læt ég þá máli mínu lokið.