Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 13:02:00 (2876)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
     Frú forseti. Við hlýddum áðan á tilfinningaríka málsvörn fjmrh. fyrir þeim niðurskurðaráformum sem hann hefur verið í forsvari fyrir hér í þinginu. Það er auðvitað skiljanlegt að málsvörn hans skyldi vera með þessum hætti vegna þess að hann óttaðist að við værum að saka hann og meðráðherra hans um skepnuskap. Það held ég að okkur hafi ekki dottið í hug og ég held að það orð hafi aldrei verið notað hér heldur þvert á móti hafi kannski verið á það bent að menn þar væru álíka góðir og vondir og hverjir aðrir, hvorki betri né verri. Auðvitað er það hugmyndafræði sem ræður þarna för. Það er hugmyndafræði sem ræður því hvar menn bera niður, ekki illmennska eða skepnuskapur. Sjaldan birtist eðli manna, pólitískra flokka og hreyfinga eins vel og í viðbrögðum við kreppuástandi. Þá birtist hinn sanni kjarni eðlisins, þegar reynir á.
    Það er það sem gerist hjá þessari ríkisstjórn núna. Hún getur ekki lengur verið eins og úlfur í sauðargæru. Úlfurinn verður að koma fram vegna kreppunnar. Það er það sem máli skiptir í þessu sambandi.
    Fjmrh. talaði um samdrátt í þjóðartekjum og það væri við mikla erfiðleika að etja. Líklega yrði samdrátturinn upp á 6% samkvæmt nýjustu spám frá Þjóðhagsstofnun. Hann er auðvitað mikill og skapar ýmsa erfiðleika, en þetta er engin ,,katastrófa``. Þetta er engin ,,katastrófa``, hæstv. fjrmh. Og ef við heimfærum þetta upp á fjárhag heimilanna, hagkerfi heimilanna, og gefum okkur að tekjur efnaríks heimilis, heimilis sem um langt árabil hefði haft úr talsvert miklu að moða, mundu dragast saman um 6% væri það auðvitað engin ,,katastrófa`` fyrir það heimili. En auðvitað skipti máli hvernig við því væri brugðist og á hvern væru lagðar kvaðir um sparnað og hvað væri skorið niður. Það sama gildir hjá þessari ríkisstjórn.
    Það var talað um bótagreiðslur og tekjutengingu þeirra og hæstv. fjmrh. gerði það. Ég verð að mótmæla því að hann skuli tala um að nú eigi að tekjutengja þá sem hafa tekjur langt umfram lægstu tekjur vegna þess að lægstu taxtar eru því aðeins nefndir hér að það þurfi að nota þá sem réttlætingu fyrir tekjuskerðingu. Venjulega heyrum við þau rök að það séu engir á þessum töxtum, það séu engir með þessi laun. Ef við tölum um þjónustugjöldin vil ég benda hæstv. fjmrh. á að 1.500 kr. gjald hjá sérfræðingi eru 3% af launum fiskverkakonu eftir 10 ára starf.