Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 13:05:00 (2877)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að þurfa enn einu sinni að tala við fjmrh. um tilsjónarmenn. Hann sagði áðan að það væri ekki mikill munur á þeim tillögum sem komu frá sérstakri nefnd og birtust í frv. sem lagt var fram til kynningar á Alþingi og því sem hann er nú að leggja til. Hann sagðist jafnframt hafa komið til móts við gagnrýni Ríkisendurskoðunar --- að langmestu leyti, held ég að hann hafi orðað það.
    Ég minni hæstv. fjmrh. á að það sem er verið að gera í þessari lagagrein er að blanda saman eftirlitshlutverkinu og fjármálastjórninni. Það er á móti öllum grundvallaratriðum í stjórnun og eftirliti að sami maður framkvæmi eftirlit í stofnun og hafi jafnframt með að gera ákvarðanir um fjárskuldbindingar. Það er þetta sem Ríkisendurskoðun er að gagnrýna með því að segja m.a.: ,, . . .  er hæpið að fela nýjum aðila að fara með útgjaldaákvarðanir án þess að sá hinn sami taki ábyrgð á þeim``. Og síðan segir Ríkisendurskoðun jafnframt: ,,Jafnframt sýnist nokkur hætta á að þessi skipan geti valdið óöryggi og óvissu í daglegum rekstri stofnana.``
    Ég tel nauðsynlegt vegna orða hæstv. fjmrh. að Ríkisendurskoðun verði enn á ný kölluð til til að svara því hvort þeir telji að fjmrh. hafi með þeim litlu breytingum sem hann hefur lagt til svarað gagnrýni Ríkisendurskoðunar. Það er, hæstv. fjmrh., algjörlega í andstöðu við öll grundvallaratriði að blanda með þessum hætti saman eftirliti og fjármálastjórn og hæstv. fjmrh. ætti að viðurkenna það með því að koma nú með breytingu á þessu ákvæði enn einu sinni og koma þar með til móts við þá gagnrýni sem hefur komið fram.