Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 13:09:00 (2879)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :

     Virðulegur forseti. Ég tel að hæstv. fjmrh. sé að túlka svar Ríkisendurskoðunar með hætti sem mér finnst ekki vera viðeigandi. Ég tel alveg skýrt eftir það samtal sem efh.- og viðskn. átti við Ríkisendurskoðun að hún er þeirrar skoðunar að eftirlitsaðilar eigi ekki að fara með ákvarðanir um fjárskuldbindingar. Þetta er, hæstv. fjmrh., einfalt grundvallaratriði. Ég skil ekki hver hefur ráðlagt hæstv. fjmrh. að eftirlitsaðili skuli taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar. Ég veit ekki til þess að það þekkist í nokkru öðru landi nema þá þar sem aðrir stjórnarhættir eru við lýði. Þetta er atriði sem á ekki að þurfa að valda deilum. Það á ekki að þurfa að valda deilum með sama hætti og önnur atriði þessa máls sem hæstv. fjmrh. kom inn á.
    Hann fór enn á ný að verja af hverju tekjuskattur er sérstaklega hækkaður á þeim sem eiga börn en ekki á hinum sem eiga ekki börn. Hann fór enn á ný að reyna að verja af hverju lífeyrisréttur sjómanna sem þeir unnu til með samningum er sérstaklega skertur. Það voru ýmsar aðrar starfsstéttir sem fengu ýmislegt fram í þeim samningum. Það er ekki verið að taka það burt. Það er sérstaklega verið að taka það burt sem sjómenn náðu fram í þeim samningum. Það er óréttmætt að gera með þessum hætti, hæstv. fjmrh. Það er ekki ávallt nóg að vitna til erfiðs efnahagsástands og réttlæta allt sem gert er í því ljósi. Það skiptir líka máli, hæstv. fjmrh., hvernig það er gert.