Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 13:50:00 (2883)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Það er kvartað nokkuð undan því að ráðherrar svari seint spurningum sem til þeirra er beint. Þannig óskaði hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson í morgun eftir því að ég svaraði fyrirspurnum frá hv. þm. Svavari Gestssyni. Ég tel mig hafa hlustað á ræður hv. þm., en hef ekki numið neinar beinar fyrirspurnir frá honum, hins vegar ýmsar fullyrðingar sem gefa tilefni til svara. Og slíkar fullyrðingar hafa reyndar komið fram í máli fleiri ræðumanna en fáar spurningar.
    Ég tel mig líka hafa svarað sumu af því sem hefur komið fram í þessari umræðu, m.a. í umræðu um fjárlög þann 12. des. þegar ég svaraði m.a. fyrirspurnum frá hv. þm. Svavari Gestssyni um niðurskurð í skólakerfinu. En ég tel það svo sem ekkert eftir mér að endurtaka sumt af því sem ég kann að hafa sagt áður.
    Eins og ég sagði hafa komið fram í máli ýmissa ræðumanna fullyrðingar um eitt og annað sem ríkisstjórnin eigi að vera að gera í sambandi við niðurskurð á sviði skólamála og fullyrðingar sem ekki standast.
    Eitt af því sem er fullyrt er að kennslumagn hafi dregist saman í efri bekkjum grunnskólans. Það er að vísu rétt að fyrr hafa verið uppi ráðagerðir um skerðingar á vikulegum kennslutíma og ekki bara ráðagerðir heldur hefur vikulegur kennslutími verið skertur á undangengnum árum. Þannig var það bæði í ráðherratíð hv. þm. Ragnars Arnalds og Svavars Gestssonar að vikulegur kennslutími var skertur, 1979 og 1989.
    Það sem vantar hins vegar í þessa umfjöllun um skerðingu á vikulegum kennslutíma er að heildarkennslumagn í grunnskólum hefur stóraukist á undanförnum áratugum. Skólaárið hefur lengst. Innan við 60% nemenda nutu 9 mánaða kennslu 1974. Í dag er þetta hlutfall komið yfir 80%. Meðaltal nemenda í bekkjardeildum hefur lækkað verulega á undangengnum áratugum. Á landinu öllu eru að meðaltali 19 nemendur í bekkjardeild og sé Reykjavíkurumdæmið skoðað sérstaklega er meðaltalið þar 21,7 nemendur í bekkjardeild. Meðaltöl þessi eru það lægsta sem verið hefur. Skólaskylda 6 ára barna hefur verið lögleidd og kennslutími yngri barna aukinn. Og síðast en ekki síst nefni ég að sérkennsla hefur verið stórefld. Hún var ekki afgerandi kostnaður við rekstur grunnskóla fyrir 15--20 árum, en í dag fer um 1 milljarður kr. til sérkennslu þegar sérskólar fatlaðra eru meðtaldir. Fjárhæð þessi er um 20% af kostnaði ríkisins við grunnskólakennslu í landinu. Þetta vil ég taka alveg sérstaklega fram í sambandi við umræðuna um skerðingu á kennslutíma.
    Þrátt fyrir þá skerðingu sem talað er um nú er auðvitað unnt að halda uppi lágmarkskennslu í lögboðnum námsgreinum samkvæmt viðmiðunarstundaskrá. Skerðingin kemur fyrst og fremst fram í stundum sem skólar hafa til ráðstöfunar til að auka lágmarkskennslu í einstökum námsgreinum eða efla kennslu í ógreinabundnum námsþáttum. Þetta skiptir líka máli í sambandi við þessa umræðu alla. Þess vegna þykir mér ekki sanngjarnt þegar menn tala nú um að verið sé að stíga einhver risaskref aftur til fortíðar og jafnvel inn í 19. öldina eins og mér heyrist að sumir telji.
    Í þessari umræðu er líka gjarnan gerður samanburður við önnur ríki Norðurlanda. Sannleikurinn er sá að við þolum vel þann samanburð þótt hann sé kannski ekki einhlítur. Það er erfitt að bera þetta saman, en til eru þó tölur sem benda til þess að við stöndumst alveg þokkalega vel samanburð við þessi nágrannaríki okkar og ýmis önnur Evrópuríki. Kennslustundum fækkaði að vísu hjá 7--14 ára nemendum tímabilið 1960--1991 úr 31,9 í 30, en þá ber þess að gæta, sem ég var að telja hér upp áðan, að ýmislegt annað hefur gerst eins og t.d. að 6 ára börn eru nú skólaskyld auk þess sem ég taldi upp aukna sérkennslu, lengingu skólaárs og að fleiri skólar en áður starfa nú í 9 mánuði. Árið 1974 voru það 22% skólanna, 1990 eru það orðið 41% og fjöldi nemenda í 9 mánaða skóla er miklu meiri, 1974 voru það 57% nemenda en 1990 er þetta hlutfall komið í 82%.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvernig ég hygðist standa að niðurskurði í grunnskóla um 180 millj. kr. Ég hef í raun áður svarað þessari spurningu, en ég get endurtekið að þetta verður fyrst og fremst gert með fækkun kennslustunda og mögulegri fjölgun í bekkjum. Það sem ég hef sagt er að líkleg skerðing verði tveir tímar í efri bekkjum grunnskólanna, þ.e. í 4.--10. bekk. Lengra hef ég ekki gengið. Ég tek fram að það liggur ekki fyrir endanleg ákvörðun um hver þessi skerðing verður, en ég geri mér vissulega vonir um að hún þurfi ekki að verða meiri en sú sem ég hér nefndi.
    Ég hef alla tíð haft fyrirvara um að þessi niðurskurður næðist á almanaksárinu 1992, ég hef allan tímann sagt að mér þætti miklu líklegra að það yrði að taka þennan niðurskurð á einu skólaári. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að gera á vormissirinu sem nú er hafið og ég hef sagt að þetta yrði of mikill þungi á haustmissirið. Þetta þarf ekki að þýða að menntmrn. skeri ekki það niður sem því er ætlað. Ég er aðeins að segja að á grunnskólann geti vart komið meira en koma niðurskurðinum fyrir á einu skólaári.
    Það er látið að því liggja í málflutningi einstakra þingmanna og hjá talsmönnum kennarasamtaka að það eigi að gera eitthvað allt annað en þetta. Það er talað um að það eigi að skerða kennslu í íslensku og síðan er talað um að þessi niðurskurður jafngildi því að hætt verði kennslu 6 ára barna, að hætt verði kennslu í tungumálum, að lagðir verði niður heilu skólarnir og að 200 stöðugildi kennara verði lögð niður. Þetta er ekki málflutningur sem sæmir neinum því ekkert af þessu er að gerast, ekki neitt. Það er ekki verið að leggja niður neina skóla, það er ekki verið að skerða kennslu í íslensku, það er ekki verið að segja upp kennurum í stórum stíl. Þetta er einfaldlega rangt. Það er hægt að tala um að þetta jafngildi hinu og þessu, en auðvitað er verið að læða því inn hjá öllum almenningi með svona málflutningi að það sé þetta sem eigi að gera. Það er einfaldlega rangt. Það tek ég mjög skýrt fram. Það er enn þá unnið að því í menntmrn. að útfæra hvernig þessi niðurskurður verði, en þetta er það sem ég get sagt á þessu stigi málsins.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði í sinni ræðu að það vantaði 120 millj. vegna þess að hætt var við skólagjöldin. Ég held ég hafi skilið ræðumann rétt. Það sem gerðist við að hætt var við að innheimta skólagjöld á framhaldsskólastigi var einfaldlega að ríkissjóðshallinn jókst, þessum 120 millj. var bætt í framhaldsskólakerfið við afgreiðslu fjárlaga þannig að þær vantar ekki sérstaklega. Breytingin var einfaldlega sú að hætt var við að innheimta skólagjöld en fjárlagahallinn jókst.
    Hv. þm. spurði líka hvernig staðið yrði að niðurskurði í framhaldsskólum. Ég get ekki skýrt það út á þessu stigi málsins. Það hafa verið lagðar fram ýmsar hugmyndir af hálfu ráðuneytisins á fundi með skólameisturum framhaldsskólanna og á þeim fundi komu einnig fram ýmsar aðrar hugmyndir. Það varð að samkomulagi milli ráðuneytisins og skólastjóra framhaldsskólanna að skipa sérstaka nefnd þar sem í eiga sæti fjórir fulltrúar framhaldsskólastjóranna og fjórir embættismenn í menntmrn. Þessi nefnd vinnur nú að því að útfæra með hvaða hætti sparnaði megi ná í framhaldsskólakerfinu.
    Að gefnu tilefni, ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, verður auðvitað áfram unnið að því að samfelldur skóladagur náist. Það hefur ekkert verið fellt brott úr lögum varðandi samfelldan skóladag.
    Það var einnig spurt hvernig ætti að bæta úr kennaraskorti. Þar er ýmislegt á döfinni. Í sambandi við Kennaraháskólann vil ég segja það, sem ætti að vera kunnugt, að það verður stefnt að því að fjögurra ára nám hefjist við Kennaraháskólann 1993 og jafnframt verður tekið upp sérstakt nám fyrir réttindalausa kennara, þriggja ára nám, sem Kennaraháskólinn mun annast. Þá er í athugun, ég segi í athugun, það hefur engin ákvörðun verið tekin en það er í athugun, stofnun kennaradeildar við Háskólann á Akureyri, en í þeim skóla er mikill áhugi fyrir stofnun kennaradeildar sem ég held að sé mjög gott mál og líklegt til að bæta úr kennaraskortinum.
    Þá hefur í þessari umræðu allri verið gert nokkuð mikið mál úr mögulegri fjölgun í bekkjum eins og heimildar er leitað til í frv. sem við erum hér með til umfjöllunar. En þar segir svo í brtt. sem lögð hefur verið fram: ,,Þegar sérstaklega stendur á getur fræðslustjóri ákveðið fjölgun um allt að tvo nemendur í bekkjardeild.`` Þetta er sem sagt heimildarákvæði um að fjölga nemendum í bekkjum. Það er gert ráð fyrir að fræðslustjórum verði heimilt að breyta úthlutun kennslukvóta þannig að hann miðist við 30 nemenda hámark í 3.--10. bekk og 24 nemenda hámark í 1. og 2. bekk. Það er lagt í vald fræðslustjóra í samráði við skóla að meta aðstæður hverju sinni, enda einungis um heimildarákvæði að ræða. Það er ekki gert ráð fyrir að fámennum bekkjum verði kerfisbundið slegið saman eins og mér finnst að hafi komið fram í umræðunni, en það er þá misskilningur, það er ekki gert ráð fyrir því. En það er hugsanlegt að þessi heimild verði notuð þar sem aðstæður leyfa. Í heimildarákvæðinu er ekkert sem breytir skiptingu nemenda milli skóla og skólahverfa og þess vegna gefur ákvæðið ekki tilefni til þess að velta vöngum um að flytja eigi nemendur í stórum stíl á milli skóla, það er ekki. Skólaskipan er fyrst og fremst á valdsviði sveitarfélaga og þau geta hér eftir sem hingað til breytt mörkum svæða sem eiga skólasókn í ákveðinn skóla. Það hefur ekki tíðkast að nemendum væri ekið milli skólasvæða í þéttbýli nema í undantekningartilvikum þegar skólahúsnæði vantar í nýjum hverfum. Hér hefur verið um að ræða heila bekki jafnvel eða árganga. Það er óþekkt að einstökum nemendum sé ekið milli skóla til að ná hagstæðari nemendafjölda í bekkjum og nemendur hafa fengið inni í sínum hverfisskólum. Ef nemendur stunda ekki nám í hverfisskólum er það vegna óska forráðamanna þeirra, t.d. ef nemendur sem flytja milli skólasvæða óska eftir að skipta um skóla. Ákvæði í grunnskólalögum um fjölda í bekk eru viðmiðanir vegna úthlutunar kennslukvóta en ekki fyrirmæli um bekkjarstærðir. Hver skóli getur ákveðið samsetningu nemendahópa og bekkja, t.d. getur skóli ákveðið að kenna sumar námsgreinar í stærri hópum en aðrar í smærri eftir því sem kennslukvótinn leyfir. Lagaákvæði um fjölda í bekk eiga að tryggja rétt skólans til aukins kennslukvóta þegar nemendafjöldi hefur náð því hámarki sem þar greinir.
    Það má vel vera að viðtal við mig í Ríkisútvarpinu fyrir nokkru hafi orðið ástæða til þess að menn töldu að fara ætti að flytja nemendur, sérstaklega í Reykjavík, í stórum stíl á milli skóla. En svo er ekki, ég var einfaldlega að svara spurningu um slíkt og svaraði henni þannig að ég sæi ekkert í veginum með það á stað eins og Reykjavík að færa á milli skóla. Það væri ekkert sem ekki mætti tala um. Það var nú allt og sumt sem ég sagði, en hefur e.t.v. gefið mönnum tilefni til að velta vöngum yfir þessu með þessum hætti.
    Hv. þm. Svavar Gestsson kom víða við í sinni ræðu. Hann sagði m.a. að leikskólalög væru ekki framkvæmd af ríkisstjórninni og talaði þar um beina afturför. Leikskólalög eru auðvitað fyrst og fremst framkvæmd af sveitarfélögunum vegna þess að þau eru alfarið á þeirra verksviði. Hins vegar eru ekki ráðnar núna umdæmisfóstrur einfaldlega vegna þess að ekki er gert ráð fyrir því í fjárlögum. En það er ekki verið að nema neina heimild úr lögum til að ráða þær.
    Annað sem kom fram í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar hef ég þegar rætt án þess að nefna hann. Hann talaði um að það væri boðaður skólaakstur, að það yrðu lagðir niður skólar og 200 stöðugildi kennara yrðu lögð niður, sem þýddi auðvitað að skólar yrðu

lagðir niður, og það yrði fellt niður ákvæði um lágmarkstímakennslu við grunnskólana sem er rangt. Það er verið að taka úr sambandi ákveðin ákvæði grunnskólalaga í eitt ár. En það er ekki verið að nema þau brott úr lögum, á það legg ég áherslu.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir kom inn á sömu atriði sem ég hef þegar svarað, eins og fjölgun í bekkjardeildum og fækkun kennslustunda. En svo spurði hún mig hvort ég teldi að íslenska skólakerfið væri of dýrt og tilefnið var ummæli sem höfð eru eftir hæstv. forsrh. sem ég að vísu hef ekki heyrt en er ekki að rengja að hann hafi viðhaft. Ég ætla ekki að leggja á það dóm hér og nú hvort íslenska skólakerfið er of dýrt. Það er auðvitað háð því við hvað er miðað. Það fara miklar fjárhæðir í íslenska skólakerfið, en ég er ekki með því að segja að það þurfi endilega að vera of dýrt. Ég efast hins vegar ekkert um að á ýmsum sviðum í íslenska skólakerfinu megi hagræða.
    Hv. þm. spurði líka hvort þessar aðgerðir þýddu ekki að verið væri að þvinga til stofnunar einkaskóla. Það er ekki svo. Það er ekki verið að þvinga til stofnunar einkaskóla og ekki nokkur ástæða til að skilja þessar aðgerðir þannig. Ég tek enn og aftur fram að við erum í þessum tímabundnu aðgerðum til að ná tökum á ríkisfjármálunum. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að gera það á tveimur árum og það er það sem við erum að gera. Það er þess vegna sem þessi niðurskurður í grunnskólakerfinu og í skólakerfinu yfirleitt er nauðsynlegur eins og á öðrum sviðum.
    Ég vil aðeins nefna það sem kemur fram í frhnál. minni hluta efh.- og viðskn. Raunar er það álit frá minni hluta menntmn. um brtt. við frv. sem við erum með til umræðu. Þar kemur fram misskilningur sem ég verð að leiðrétta. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Brtt. sem nú var rædd þýðir um 40 millj. kr. sparnað til viðbótar þeim 40 millj. kr. niðurskurði sem frv. felur í sér.`` --- Þ.e. brtt. um mögulega fjölgun í bekkjardeildum sem þarna er verið að ræða. --- ,,Þar að auki er menntmrn. ætlað að skera niður um 180 millj. kr. í grunnskólum landsins vegna hins flata niðurskurðar sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar tóku inn í fjárlög ársins 1992. Samtals er hér því um að ræða niðurskurð upp á um 260 millj. kr., en honum fylgja margháttaðar neikvæðar breytingar á skólastarfi`` o.s.frv.
    Þetta er ekki rétt. Frestun bráðabirgðaákvæða grunnskólalaganna koma í veg fyrir 40 millj. kr. útgjaldaauka ríkissjóðs. Þessi viðbótartillaga, sem kom hér fram á síðari stigum málsins, heimildarákvæði þess efnis að fjölga um allt að tveim í bekkjardeild, gæti hugsanlega sparað 40 millj. til viðbótar. Þessar 40 millj. eru að sjálfsögðu upp í 180 sem grunnskólarnir eru skornir niður um. Bara að þetta sé alveg ljóst: Við erum ekki að tala um 260 millj. heldur 180 millj. kr. allt í allt.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að tefja tímann. Ég held að ég hafi komið að flestum þeim atriðum sem sérstaklega hafa verið gerð að umtalsefni til þessa.