Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 14:14:00 (2884)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menntmrh. fyrir að veita svör við þeim spurningum sem fram komu í umræðunni.
    Það er rétt hjá hæstv. menntmrh. að heildarkennslumagn hefur aukist ef litið er svo sem tvo áratugi aftur í tímann --- guði sé lof. Guði sé lof að hér hefur orðið þróun í skólamálum og kennsla hefur aukist. Það veitti svo sannarlega ekki af. En þrátt fyrir það stöndum við frammi fyrir þeim staðreyndum að skóladagur, sérstaklega yngstu barnanna, er hér mun styttri en gengur og gerist annars staðar. Þá er það ekki endilega að það sé veitt skilgreinanleg kennsla erlendis heldur er gert ýmislegt annað sem flokkast undir að þroska nemendur og hjálpa þeim áfram í lífinu.
    En við búum líka við það að hér eru ekki máltíðir í skólum og hér fyrirfinnst þetta furðulega fyrirbæri, að skólar eru tví- og þrísetnir. Því er svo sannarlega verk að vinna í skólamálum.
    En það sem ríkisstjórnin er að gera er skref aftur á bak. Það er verið að skera niður kennslu og það er verið að veita heimildir til að fjölga nemendum í bekkjum. Þar með

er verið að snúa frá þeirri stefnu sem mótuð hafði verið og ég vona svo sannarlega að hér sé um tímabundna frestun að ræða.
    Hæstv. menntmrh. nefndi að hér væri ekki verið að hverfa frá samfelldum skóladegi. En þessi niðurskurður gerir auðvitað slíka þróun erfiðari en ella.
    Hæstv. menntmrh. nefndi að það ætti ekki að aka nemendum í stórum stíl á milli skóla og ég þakka fyrir ef það verður ekki gert, því að það væri enn þá verra skref ef hér þyrfti að leysa upp bekki og flytja nemendur á milli skóla.