Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 14:16:00 (2885)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa svarað nokkrum þeim spurningum sem bornar voru fram við hann á dögunum þó að í sjálfu sér megi segja að það sé þörf fyrir miklu ítarlegri umræðu um þessi mál.
    Í fyrsta lagi vakti það athygli mína, og í þessum tíma til andsvars vil ég benda á það að það vakti sérstaklega athygli mína, að hæstv. menntmrh. sagði: Það er ekki víst að þessi sparnaður í grunnskólunum komi allur til framkvæmda í ár. Hins vegar þýðir það ekki að mennmtrn. muni minnka sinn heildarsparnað eða heildarniðurskurð. --- Það þýðir þá að það sem á kann að vanta á sparnaðinn í grunnskólunum verður tekið einhvers staðar annars staðar.
    Ég hlýt í framhaldi af því að spyrja hæstv. menntmrh. hvað hann er með þar í huga. Er ætlunin að skera niður aðrar stofnanir og aðra þætti sem eru hluti af grunnskólanum með beinum eða óbeinum hætti? Hvað á að skera Námsgagnastofnun mikið niður? Hvað á að skera sérskólana mikið niður? Það er alveg óhjákvæmilegt bersýnilega að sá þáttur verði ræddur því að sérskólarnir eru svo stór hluti af grunnskólakerfinu í heild að það verður að fá um það upplýsingar.
    Í öðru lagi vil ég vekja á því athygli að hæstv. menntmrh. og aðstoðarmaður hans segja bæði hér og í fjölmiðlum að þessi samdráttur í tímum geri ekkert til vegna þess að stundir til ráðstöfunar, sem eru fjórar í grunnskólanum, verði skornar út. Það er rétt eins og menn hafi þá bara verið að leika sér í þessum stundum til ráðstöfunar. Hvað hefur verið gert í stundum til ráðstöfunar? Þar eru verk- og listgreinar númer eitt, þar er tónlist, þar er handavinna, smíði, handavinna stúlkna o.s.frv. Og það eru líka viðbótartímar í íslensku og reikningi innan stunda til ráðstöfunar. Þegar hæstv. menntmrh. segir að íslenskukennsla verði ekki skorin niður þrátt fyrir þennan niðurskurð er það beinlínis rangt vegna þess að samdráttur í stundum til ráðstöfunar --- þó að þær séu aðeins fjórar í viku í efri bekkjunum --- mun koma niður á íslenskukennslunni líka.
    Ég held að það sé líka nauðsynlegt að vekja athygli á því sem hæstv. menntmrh. sagði áðan varðandi það að þessi samdráttur, sem hér er verið að tala um, virðulegi forseti, gildi aðeins fyrir þetta ár, 1992. En samt er hann að tala um að láta hluta af skerðingunni koma á 1993. Með öðrum orðum, það stangast á hjá ráðherranum ef hann ætlar annars vegar að framkvæma þetta aðeins á árunum 1992 og 1993, en segir hins vegar að ákvæði í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum gildi bara um árið 1992. Þetta stangast á, hæstv. ráðherra, og það krefst þess að það verði gerð ítarlegri grein fyrir málinu hér.