Skýrsla samgönguráðherra um málefni Skipaútgerðar ríkisins

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 15:07:00 (2893)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Í samráði við hæstv. forseta var ákveðið að ég gæfi munnlega skýrslu um málefni Skipaútgerðar ríkisins í framhaldi af þeim umræðum sem hafa orðið á hinu háa Alþingi.
    Við afgreiðslu fjárlaga var samþykkt að rekstur Skipaútgerðar ríkisins yrði lagður niður og eignir hennar seldar. Fyrir því voru þessar ástæður helstar:
    1. Stórstígar framfarir hafa orðið í samgöngum á undanförnum árum. Landflutningar hafa vaxið hröðum skrefum og í mörgum tilvikum komið í stað sjóflutninga.
    2. Í samræmi við þessa þróun var óhjákvæmilegt að endurskoða þjónustuhlutverk Skipaútgerðar ríkisins. Það fyrirtæki var þarft og nauðsynlegt á sínum tíma, en jafnt og þétt hefur dregið úr þeirri nauðsyn að ríkissjóður standi undir rekstri skipafélaga. Ekki hefur tekist að láta rekstur Skipaútgerðar ríkisins standa undir sér og hefur verið óhjákvæmilegt að veita verulegum fjármunum til hennar úr ríkissjóði. Samkvæmt fjárlagaáætlun Skipaútgerðarinnar fyrir árið 1992, sem dagsett er 3. júní sl., var gert ráð fyrir að rekstrarstyrkir af fjárlögum næmu á þessu ári 230 millj. kr., en tekjur af farmgjöldum yrðu 291 millj. kr. Aðrar tekjur yrðu 73 millj. kr. Tap eftir afskriftir var áætlað 44 millj. kr. Gert var ráð fyrir að þrjú skip yrðu í rekstri á árinu.
    Mér varð fljótt ljóst að ég treysti mér ekki til annars en taka rekstur Skipaútgerðarinnar til gagngerðrar endurskoðunar eða leggja hana niður. Ég réði Björgólf Jóhannsson, endurskoðanda hjá Endurskoðun Akureyrar hf., til þess verks að gera úttekt á rekstri Skipaútgerðarinnar. Ég lagði mikla áherslu á að fá hann til verksins þar sem hann nýtur trausts á ströndinni og er gjörkunnugur atvinnuháttum þar, sérstaklega sjávarútvegi.
    Niðurstaða hans var í stuttu máli sú að þrjár leiðir kæmu helst til greina:
    Í fyrsta lagi: Breytt rekstrarskipan Skipaútgerðar ríkisins. Það yrði stefnt að því að minnka umsvif hennar þannig að aðaláhersla yrði lögð á að þjónusta þá staði sem eru afskiptir af öðrum flutningsaðilum.
    Í öðru lagi: Sala á Skipaútgerð ríkisins. Hún yrði boðin til sölu til skipafélaga eða annarra aðila sem áhuga kynnu að hafa á slíkum rekstri.
    Í þriðja lagi: Skipaútgerð ríkisins yrði lögð niður í áföngum með ákveðnum hliðarráðstöfunum. Björgólfur Jóhannsson ræddi m.a. við fulltrúa skipafélaganna og einstakra sveitarfélaga um mál Skipaútgerðarinnar og hefur sú undirbúningsvinna orðið mér mjög gagnleg. Við höfum einnig farið yfir rekstrarafkomu einstakra flóabáta og velt upp möguleikum til að draga úr rekstrarhalla þeirra, en þau mál koma nú upp á borðið eftir að málefni Skipaútgerðar ríkisins hafa skýrst.
    Hinn 24. sept. boðaði ég til blaðamannafundar þar sem ég kynnti í grófum dráttum afstöðu mína til Skipaútgerðar ríkisins og framtíðarmarkmið. Það hefur legið fyrir og margsinnis komið fram að ég hef verið reiðubúinn til að ræða Skipaútgerð ríkisins og hugsanlega sölu fyrirtækisins eða einstakra eigna þess við hvern þann sem áhuga hefur sýnt á slíku.
    Í byrjun nóvember urðu formannaskipti í stjórnarnefnd Skipaútgerðar ríkisins að beiðni Halldórs Kristjánssonar sem var á förum til nokkurra vikna dvalar erlendis en knýjandi að fá niðurstöðu í málefni Skipaútgerðarinnar. Ég skipaði Benedikt Jóhannesson, stærðfræðing hjá Talnakönnun hf., í hans starf. Áður hafði ég beðið hann að fara yfir rekstraráætlun aðila við Eyjafjörð sem höfðu sýnt áhuga á siglingum austur um land frá Eyjafjarðarsvæðinu, hugsanlega til Hornafjarðar eða Vestmannaeyja. Hugmynd þessara aðila var að færa flutninga Ríkisskipa á þessu svæði frá hinu opinbera til einkaaðila. Niðurstaða þeirrar könnunar var að rekstrarhalli yrði á slíkri útgerð með einu skipi og næmi hann 50--80 millj. kr. Ég tilkynnti þessum áhugamönnum að ekki væri grundvöllur fyrir rekstrarstyrk af hálfu ríkisins, enda væri ekki gert ráð fyrir framlagi á fjárlögum til strandsiglinga. Lauk þessu máli þar með.
    Fyrstu vikurnar ræddi Benedikt við fjölmarga aðila sem tengjast kaupskipaútgerð með einum eða öðrum hætti. Þar á meðal ræddi hann við forráðamenn beggja þeirra kaupskipaútgerða sem annast hafa strandsiglingar undanfarin ár ásamt Skipaútgerðinni. Strax varð ljóst að ekki var grundvöllur fyrir þríhliða samkomulagi Samskipa, Eimskipafélagsins og Skipaútgerðar ríkisins, en það var reynt í löngum viðræðum aðila á tugum funda fyrir tveimur árum. Ekki komu fram á þessum fundum neinar skýrar hugmyndir um framhald þessara siglinga, en fjölmörg atriði voru reifuð.
    Í desember lagði hópur á vegum starfsmannafélags Skipaútgerðarinnar og fleiri aðila fram tilboð í allar eignir Ríkisskipa ásamt hugmynd að þjónustusamningi um siglingar á sömu hafnir og Skipaútgerðin hefur siglt á undanfarin ár. Gert var ráð fyrir árlegri greiðslu úr ríkissjóði upp á tæpar 160 millj. kr. Kauptilboðið nam rúmum 400 millj. og gerði ráð fyrir 5% afslætti vegna hlutabréfakaupa starfsmanna. Það virtist í sjálfu sér vera sanngjarnt verð fyrir eignir, en aftur var ekki hægt að fallast á greiðslu úr ríkissjóði þar sem ekki var gert ráð fyrir peningum til hennar í fjárlögum. Kauptilboðinu var tekið, enda næðist samkomulag um greiðslukjör og tryggingar og lögð yrði fram rekstraráætlun sem sýndi að reksturinn bæri afborganir. Þjónustusamningnum var hafnað með skírskotun til fjárlagafrv. Engar þjónustukvaðir mundu fylgja kaupum ef af yrði.
    Áhugahópurinn skrifaði ráðherra á ný og sagðist standa við kauptilboð sitt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem ekki komu fram í bréfi hópsins. Ég óskaði þá eftir að Benedikt Jóhannesson ásamt Þórhalli Jósefssyni tæki þegar upp viðræður við hópinn og skyldu niðurstöður nást innan tveggja vikna. Að hálfu fulltrúa ríkisins var lögð áhersla á að rekstraráætlun yrði að liggja fyrir til þess að ljóst yrði að greiðslur til ríkisins yrðu tryggðar. Í viðræðum kom fram að ekki væri búið að safna neinu hlutafé enn, en nefnt að eitt sveitarfélag hefði heitið að taka þátt í hlutafélagi ef af yrði. Hópurinn lagði fram spurningar um ákveðin atriði og var svarað skriflega. Enn var áréttað að fjárlög heimiluðu ekki ríkisstyrk til rekstrar Skipaútgerðarinnar.
    Þriðjudaginn 7. jan. kom svo fram tilboð frá Samskipum hf. um þurrleigu með kaupmála í ms. Esju. Þessi áform Samskipa gerbreyttu grundvellinum undir rekstrarmöguleikum nýs skipafélags á Austfjörðum. Benedikt Jóhannesson hafði því þegar samband við forráðamenn hópsins og greindi þeim frá þessu tilboði. Reyndar fengu þeir vitneskju um tilboðið áður en mér barst það til eyrna. Tilboð þetta varð að taka alvarlega, enda ekki hægt að segja að horft væri til heildarhagsmuna ef komið hefði til siglinga erlends leiguskips á vegum Samskipa á þessari leið.
    Einar Hermannsson, skipaverkfræðingur og skipamiðlari, fór yfir tilboð Samskipa og síðdegis sama dag fór hann ásamt Benedikt og Þórhalli Jósefssyni á skrifstofu Samskipa og tjáðu þeim forráðamönnum þá að tilboðið væri ófullnægjandi. Jafnframt var Samskipamönnum tilkynnt að ekki væri hægt að gera neitt bindandi samkomulag án samþykkis bæði samgöngu- og fjármálaráðherra. Einar fór yfir og reiknaði ýmsa möguleika samkvæmt almennum formúlum um afskriftir og vaxtastig. Samskipamenn lýstu því yfir að þeir mundu láta frá sér heyra daginn eftir.
    Á miðvikudeginum 8. jan. lögðu Samskip fram nýtt tilboð með aðgengilegri skilmálum. Eigi að síður taldi Einar það ekki samræmast markaðsverði skipsins, en hann hafði metið það nálægt 13 millj. norskra kr. eða um 120 millj. íslenskra.
    Benedikt Jóhannesson óskaði eftir því við forstjóra Skipaútgerðarinnar að hann boðaði fund í stjórnarnefndinni um málið á fimmtudagsmorgun. Benedikt hafði samband um það við Geir Gunnarsson í síma sama dag, en ekki náðist í Kristinn H. Gunnarsson sem

einnig situr í nefndinni en hann mun hafa farið beint af þingfundi norður í land. Á fundi með fulltrúum undirbúningshópsins greindu Benedikt og Þórhallur svo frá því að tilboð hefði komið frá Samskipum. Það setti augljóslega mikið strik í reikninginn hvort sem því yrði tekið eða ekki.
    Þennan sama dag hitti ég undirbúningsnefndina tvisvar og í kjölfar þess hafði ég samband við forstjóra Samskipa og sagði honum að hinn 30. des. sl. hefði ég lýst því yfir við starfsmenn Skipaútgerðar ríkisins að þegar í stað yrði gengið til viðræðna við undirbúningsnefndina um stofnun hlutafélags um rekstur skipaútgerðar og yrði leitast við að fá niðurstöðu í þeim viðræðum innan tveggja vikna. Á meðan þær viðræður stæðu yfir yrðu ekki hafnar formlegar viðræður við aðra aðila um sölu eigna Skipaútgerðarinnar né um samningsbundin verkefni fyrirtækisins. Forstjóri Samskipa féllst þegar í stað á að nauðsynlegt væri að svigrúm gæfist til þess að ljúka þessum viðræðum.
    Mánudaginn 13. jan. sl. hitti ég undirbúningsnefndina og afhenti hún mér bréf þar sem m.a. kemur fram að hún teldi að vegna skertrar þjónustu Skipaútgerðinnar hefði hagur fyrirtækisins stórlega versnað og eignir þess rýrnað síðan nefndin lagði fram tilboð sitt fram 12. des. Óskað var eftir því að enn yrði veittur tveggja vikna frestur til að tryggja nægjanlegt hlutafé og ganga frá ábyrgðum. Við því gat ég ekki orðið. Málið hefði horft öðruvísi við ef trúverðugar rekstraráætlanir hefðu legið fyrir og upplýsingar um hvaða aðilar væru reiðubúnir að leggja fram hlutafé. Óhugsandi var að stofna hlutafélag í eigu ríkisins um rekstur Skipaútgerðar ríkisins með sölu hlutabréfa fyrir augum í ljósi þess hallarekstrar sem hafði verið á fyrirtækinu, en engar nýjar upplýsingar lágu fyrir sem gæfu fyrirheit um viðunandi afkomu fyrirtækisins.
    Þess er skylt að geta, svo vitnað sé í fréttatilkynningu Samskipa hf., að um helgina fóru fram óformlegar viðræður milli Samskipa og undirbúningshópsins um hlutafélagsstofnun að beiðni þeirra síðarnefndu um möguleika á samstarfi. Viðræður voru hreinskiptar og jákvæðar en leiddu ekki til sameiginlegrar niðurstöðu.
    Eins og málin stóðu taldi ég óhjákvæmilegt að taka upp formlegar viðræður við Samskip 14. jan. um tilboð þeirra í Esjuna með siglingar til Austfjarða fyrir augum. Þær voru í höndum Benedikts Jóhannessonar, Þórhalls Jósefssonar og Einars Hermannssonar. Tilboð Samskipa var mun hærra en í byrjun og þann dag náðist samkomulag um verð. Enn var þó ágreiningur um veigamikil atriði, svo sem tryggingar, leigugreiðslur, afborgunarskilmála, klössun og ýmis tæknileg atriði. Framkvæmdastjóri Samskipa lýsti áhuga á fleiri eignum Skipaútgerðarinnar, en samningamenn ríkisins lögðu áherslu á að ljúka bæri samningum um Esjuna áður en samið yrði um fleiri þætti.
    Miðvikudaginn 15. jan. hittust sömu aðilar um morguninn. Nokkuð hafði þá þokað um tæknileg mál, en enn bar á milli hvor skyldi bera kostnað af ýmsum þáttum. Lauslega áætlað munu þeir hafa numið um 6--7 millj. á fyrsta ári leigutímans. Samningsaðilar skildu skömmu fyrir hádegi án þess að ná samkomulagi og var Einari Hermannssyni falið að kanna leiðir til þess að jafna ágreining um kostnað við ákveðna þætti milli funda.
    Miðvikudaginn 15. jan. eftir hádegi hittu Benedikt Jóhannesson og Þórhallur Jósefsson forstjóra Ríkisskipa og fóru með honum yfir þau atriði sem afgreiða þyrfti ef samningar næðust við Samskip. Jafnframt óskaði Benedikt eftir því að hann boðaði til stjórnarnefndarfundar morguninn eftir.
    Þennan sama dag náði Benedikt í samstjórnarmenn sína, þá Kristinn H. Gunnarsson og Geir Gunnarsson, og sagði þeim frá því að viðræður væru í gangi. Kristinn talaði hann við skömmu fyrir hádegi og Geir um kvöldið.
    Klukkan 17 miðvikudaginn 15. jan. hittust fulltrúar Samskipa og ríkisins enn á ný og hafði þá Einar fundið lausn á deilum um ákveðna kostnaðarþætti sem báðir gátu fellt sig við. Framkvæmdastjóri lýsti yfir að hann félli frá kröfu um kostnaðarþátttöku ríkisins í tryggingum og var þá aðeins eftir að komast að samkomulagi um lengd verðtryggðs skuldabréfaláns ef að kaupum yrði. Niðurstaðan varð sú að það yrði til átta ára. Enn var sagt frá því að ekki kæmi til samninga nema samþykki ráðherra lægi fyrir en Samskip gerðu fyrirvara um samþykki stjórnar og niðurstöður skoðunar. Fundi þessum lauk skömmu

fyrir klukkan 19, en þá sátu Einar og fulltrúi Samskipa eftir til þess að ganga frá orðalagi samningsins.
    Ég taldi nauðsynlegt að fara nákvæmlega yfir tímasetningar og gang samningaviðræðna þennan miðvikudag vegna ummæla hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur hér í þinginu fimmtudaginn 16. jan. Ég hafði skýrt frá því í umræðum utan dagskrár á miðvikudaginn að Samskip hefðu gert tilboð í Esjuna og mundu líta út fyrir landsteinana eftir skipi til að sigla til Austfjarða ef samningar tækjust ekki, að viðræður stæðu yfir við Samskip hf. meðan á þingfundi stóð, að hér væri verið að tala um að íslenskt skipafélag sem nyti trausts á ströndinni tæki yfir þá þjónustu sem Skipaútgerð ríkisins hafði gegnt. Jafnframt lá fyrir að starfsfólk Skipaútgerðarinnar yrði látið sitja fyrir um vinnu.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir þrástagaðist á því sl. fimmtudag að ég hefði sagt þinginu ósatt. Búið hefði verið að ganga frá samningum um Esjuna áður en utandagskrárumræðan hófst og það hefði mér átt að vera kunnugt. Eins og ég hef rakið nákvæmlega fer hv. þm. Guðrún Helgadóttir þar með staf í staðlausu, en andi ræðu minnar var sá að ég gerði mér vonir um að af samningnum yrði við Samskip.
    Síðan var skrifað undir samningana í samgrn. sl. föstudag kl. 10.30. Esjan var leigð svokallaðri þurrleigu til allt að þriggja ára með kaupmála eftir sex mánuði. Verðið er tæpar 120 millj. sé tekið tillit til leigukostnaðar á tímabilinu. Það er talið að þetta sé eðlilegt markaðsverð.
    Síðan hafa verið teknar upp viðræður um hugsanlega leigu Samskipa á Heklu og kaup þeirra á öðrum eignum útgerðarinnar. Ef samningar takast, sem ég þori ekki að fullyrða á þessari stundu, munu Samskip reka þrjú skip með ströndinni, Arnarfell, Esju og Heklu.
    Áhyggjur þingmanna hafa einkum beinst að því hvort hætta sé á að einstakir óskilgreindir staðir fái ekki fullnægjandi þjónustu ef Samskip yfirtaka rekstur Skipaútgerðarinnar. Svo tel ég ekki vera. Það er mat framkvæmdastjóra Samskipa að með því að reka Heklu og Esju með skipi Samskipa, Arnarfelli, sé hægt að annast jafnmikla flutninga og bæði Samskip og Ríkisskip hafa sinnt á ströndinni. Nýting skipanna batnar. Ekki þarf viðbótarfjárfestingu í hafnaraðstöðu né fasteignum. Allar stoð- og þjónustudeildir eru fyrir hendi og þess vegna sparast mikill kostnaður við yfirstjórn og yfirbyggingu sem óhjákvæmilegur er ef reksturinn yrði áfram í höndum tveggja fyrirtækja og fjögurra skipa í stað þriggja.
    Það er von mín að þessum forsendum gefnum að hugmyndir Samskipa gangi upp og sá rekstur sem hér um ræðir verði hallalaus. Þar með yrði þeirri hagræðingu náð í strandsiglingu sem margir samgönguráðherrar á undan mér hafa keppt að.
    Ég vil að síðustu árétta að starfsfólk Skipaútgerðar ríkisins hefur skilað sínu verki vel. Það nýtur vinsælda og trausts á ströndinni. Það voru tækniframfarir og umbylting í samgöngumálum sem ollu því að ríkið hlaut að hætta að leggja fram fé til vöruflutninga og þjónustu með ströndinni eins og það á sínum tíma lagði niður farþegaflutningana.