Skýrsla samgönguráðherra um málefni Skipaútgerðar ríkisins

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 16:14:00 (2903)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hv. formaður samgn. kom inn á það áðan að ég hefði ekki beðið um fund í samgn. Það sagði ég heldur ekki í mínu máli áðan. Hins vegar hafði annar meðnefndarmaður minn beðið um fund í samgn. um þetta sama mál og það taldi ég alveg nægilegt.
    Einnig sagði hann að fjallað hefði verið um þetta mál í fjárlögum. Ég tek fram að það var að vísu komið inn á það í umræðum um fjárlög að ekkert væri þar áætlað, enginn styrkur og Skipaútgerðin væri ekki á fjárlögum, en væri spurt um nánari útfærslu á þeirri þjónustu sem Skipaútgerðinni væri ætlað að sinna var svarið venjulega að það væri í skoðun og yrði upplýst síðar.
    Það er einnig rétt hjá honum að það hefur verið fjallað um frv. um stofnun hlutafélags um rekstur Skipaútgerðarinnar einu sinni á fundi í hv. samgn. og það var jafnframt sent til umsagnar annarra aðila. Þeir aðilar áttu að skila umsögnum fyrir 5. des. sl. og það hefur greinilega verið látið bíða að fjalla um þær umsagnir þangað til hægt væri að ýta þeim út af borðinu.