Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 16:35:00 (2907)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegur forseti, aðeins örstutt. Það stendur eftir eftir þessar orðræður að raunvextir höfðu hækkað áður en núv. ríkisstjórn tók við því að það sést á þróun raunvaxtanna á eftirmarkaði og það eru þeir vextir sem við verðum að miða við, einfaldlega vegna þess að ef ríkissjóður fer langt frá þeim vöxtum í ákvörðunum á sölu spariskírteina seljast skírteinin ekki. Þetta er reynsla sem við sáum á fyrri hluta sl. árs þegar stórkostlegt útstreymi var úr ríkissjóði vegna þess að engum datt í hug að kaupa skírteinin.
    Og í öðru lagi: Árið 1983, þegar Framsfl. og Sjálfstfl. voru saman í ríkisstjórn, var kaupmátturinn skertur um 15%--17% eftir því hvernig það er mælt. Nú má búast við skerðingu sem er kannski fjórfalt til fimmfalt minni þó að vandinn, séu borin saman tvö ár, 1991--1992 annars vegar og 1982--1983 hins vegar, sé mun meiri núna. Það er miklu meiri munur á þessum tveimur árum en var á þeim tíma.
    Þetta vildi ég láta koma fram þannig að menn rifjuðu réttilega upp hvernig hlutirnir gerðust þá.