Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 17:52:00 (2913)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
     Herra forseti. Það er satt best að segja þannig að maður veit ekki almennilega hvernig maður á að taka ræðum hv. stjórnarliða þegar þeir eru að reyna að þvo hendur sínar. Það heitir kattarþvottur á íslensku. Ég verð að segja alveg eins og er að lítil finnast mér

geð guma þegar upp kemur fyrrum sveitarstjórnarmaður, sveitarstjóri og enn þá formaður Hafnasambands sveitarfélaga og reynir með þeim hætti sem hér var gert að gera gott úr hlutum. Hvort hann huggar sjálfan sig eitthvað með þessum ræðuhöldum skal ég ósagt látið og er ekki fær að dæma um, en það hlýtur þá að vera nánast eini tilgangurinn því ekki hygg ég að hann bæti stöðu sína almennt og út á við.
    Satt best að segja, hæstv. forseti, verður að segjast alveg eins og er að mér hefur blöskrað geðleysi ýmissa hv. þm. stjórnarliðsins á undanförnum vikum, gersamlega blöskrað geðleysi t.d. þeirra manna sem eiga að teljast hafa einhverja innsýn í hagsmuni sveitarfélaganna eða t.d. sjómannastéttarinnar. Ég hygg að niðurlæging þeirra sé nánst fullkomin eins og hún hefur birst okkur á undanförnum árum.
    Hv. síðasti ræðumaður talaði um að sveitarfélögin yrðu að taka á sig sinn hluta erfiðleikanna. Þau gera það, hv. ræðumaður. Þau verða fyrir óbeinni og beinni tekjuskerðingu rétt eins og ríkið og verða sjálf að leysa úr því dæmi. En til viðbótar er hæstv. ríkisstjórn að leggja á þau stórfelldar nýjar byrðar.
    Ef hv. ræðumaður vill fara út í samanburð um fjárveitingar til hafnamála er það alveg guðvelkomið. Við skulum fara aftur til áranna 1984--1986 þegar hér sat að völdum ríkisstjórn með Sjálfstfl. innan borðs og fjárveitingar til framkvæmda í hafnamálum fóru niður undir ekki neitt, niður undir núll. Þær jukust hvert einasta ár sem við fórum með þessi mál og voru á uppleið eins og hv. þm. þekkir. Það er reyndar alveg hárrétt að framkvæmdirnar á nýliðnu ári urðu síðan talsvert meiri en fjárveitingarnar, m.a. vegna þess að menn höfðu kjark í sér til að hefja þá framkvæmdir við ýmis stór mannvirki í hafnagerð sem beðið höfðu árum saman og ráðast þar í meiri háttar verkefni á nokkrum stöðum á landinu sem ævinlega var gert ráð fyrir að greiða með lánum á einhverjum tíma.
    Það er ekki, herra forseti, aðstaða til að ræða efnislega við hv. síðasta ræðumann um þessa hluti og þarf að gera það þá undir umræðunum, en það verð ég að segja alveg eins og er að ótrúlegt fannst mér að heyra hann reyna að flytja réttlætingu fyrir því sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að gera með því að mönnum kynni að hafa orðið eitthvað á í samskiptum við sveitarfélögin t.d. á undanförnum árum. Hvaða réttlæting er það endalaust? Jú, það er það eina sem hv. stjórnarliðar í þessum málum sem öðrum reyna að finna sér til málsbóta að menn hafi haft hugrenningar um einhver svipuð óhæfuverk fyrr á öldinni og þess vegna sé þeim nú vorkunn. Það er ekki reynt að verja sig með rökum gagnvart þeim hlutum sem verið er að gera. Nei, hins vegar er hugsanlega hægt að finna einhverja menn einhvern tíma fyrr í stjórnmálasögunni sem hafi haft hugrenningar í svipaðar áttir og þar með hljóti þetta að vera í lagi.