Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 18:03:00 (2918)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Það er ekki óeðlilegt að hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafi af því verulegar áhyggjur hversu há framlög eru til hafnagerðar í landinu. Ég sá það m.a. í Vesturlandsblaðinu, sem hv. 3. þm. Vesturl. ber ábyrgð á, að svo miklar eru áhyggjurnar að hann tilgreinir ekki nema hluta af þeim fjárveitingum sem koma til þess kjördæmis til að láta ekki á því bera hve framlögin eru há. Það ber kannski vott um málflutninginn.
    En varðandi sveitarfélög sem nú ætli sér að nýta rétt til framlaga úr Jöfnunarsjóði og það að reikna út rétt sveitarfélaganna, þ.e. reikna út rétt til aukaframlaga. Ég hef lengi gagnrýnt þessa viðmiðun. Viðmiðunin er útsvarstekjur, tekjur af fasteignaskatti og aðstöðugjaldi. Það er þekkt að sveitarfélögin hafa tekjur af fleiru en þessum þremur tekjustofnum. Það eru önnur fasteignagjöld, holræsagjöld, hreinsunargjöld, vatnsskattur o.s.frv. og ekki síst gatnagerðargjöldin. Það eru þessir tekjustofnar sem stóru sveitarfélögin hafa nýtt sér ótæpilega. Ég tel að ef þeir tekjustofnar væru bornir saman og reiknaðir út og allar þessar tekjur væru notaðar til samanburðar kæmi í ljós að þessi sveitarfélög ættu ekki með eðlilegum hætti rétt á jöfnunarframlagi. Ég tel nauðsynlegt að endurskoða reglugerðina um Jöfnunarsjóðinn vegna þess að fæstir sveitarstjórnarmenn hafa átt von á að stóru sveitarfélögin, sem hafa haft verulegar umframtekjur t.d. af gatnagerðargjöldum, tekjur umfram framkvæmdir, eigi nú að fá sérstakt tekjujöfnunarframlag eins og smæstu sveitarfélögin.