Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 18:41:00 (2921)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Herra forseti. Vegna síðari fyrirspurnarinnar er rétt að taka fram það sem ég ítrekaði í svari við sambærilegri fyrirspurn frá hv. 8. þm. Reykn. Það hefur ekki verið breytt um þá afstöðu, sem í fjárlögunum felst, að sá flati niðurskurður sem svo hefur verið kallaður verður að nást á þessu fjárlagaári. Á því byggja fjárlögin og frá því hefur ekki verið horfið og ráðuneytin sem í hlut eiga verða því að vinna innan þess ramma.
    Varðandi hitt atriðið sem hv. 4. þm. Austurl. nefndi, að í fréttum hefðu verið frásagnir af ummælum sem ég hefði viðhaft á fundi sem þrír aðilar, sem allir tilheyrðu þó með einum eða öðrum hætti Sjálfstfl., höfðu staðið og hefði mátt lesa úr því nokkur tíðindi. Ég flutti þar fáein inngangsorð, en það voru aftur aðrir menn sem fluttu þar lærðari ræður hver á sínu sviði. Í mínum inngangsorðum fjallaði ég um breytt viðhorf sem uppi væru. Það var almenn hugleiðing af minni hálfu. Ég fjallaði auðvitað þar um umræður um Evrópskt efnahagssvæði og lét í ljós það álit að ef ekkert mundi breytast frá því sem menn horfðu á í dag varðandi viðbrögð Evrópubandalagsins við dómsumsögn Evrópudómstólsins, þá sýndist mér að illa horfði um Evrópskt efnahagssvæði og framvindu þess. Og ég vil taka fram af fyllstu einlægni að það er ekki sagt til að geta síðan veifað einhverjum sigurfána ef betur mundi fara því ég mundi auðvitað kjósa hann.
    Það er hárrétt hjá þingmanninum að við fyrri umræðu svaraði ég honum, ég hygg að hann hafi reyndar ekki verið í salnum er það svar var veitt, en þá svaraði ég honum eitthvað á þá lund, ég hef ekki textann hjá mér, að ég sæi engin sérstök rök eða ástæður benda til þess á því augnabliki að athugun dómstólsins sem þá stóð yfir mundi leiða til þess að þarna mundu menn hugsanlega þurfa að beygja af braut. En ég tók fram að auðvitað gæti ég ekki útilokað að slíkt gæti gerst. Ég held reyndar að mín ummæli þá hafi verið mjög í samræmi við skoðanir annarra talsmanna EFTA-ríkjanna á sama tíma þó mér sé kunnugt um að hv. þm. hafði haft meiri forsagnargáfu en ég í þessum efnum nokkru fyrr. Ég hef íhugað viðbrögð Evrópubandalagsins sem ég batt vonir við að ætti að skilja sína stöðu þannig að framkvæmdastjórn bandalagsins sem hefi samið við EFTA-ríkin bæri siðferðilega skylda til að vinna að því að laga í sínum ranni hlutina þannig að dómsniðurstaðan eða dómsumsögnin mundi ekki skaða samningshorfur. Ég tel að þau viðbrögð sem við höfum þegar fengið gangi í gagnstæða átt og ég tel að ef þannig fer fram áfram sé svigrúm til samninga innan Evrópsks efnahagssvæðis afskaplega þröngt svo að ekki sé dýpra í árinni tekið.
    Þetta sagði ég efnislega á þeim fundi sem vitnað var til. Það voru ekki upplesin orð af blaði þannig að það kann að vera að það skakki einhverju, en efnislega var þetta sú skoðun sem ég lét í ljós. Ég leyfði mér reyndar þar, á ráðstefnu af því tagi, að hugsa upphátt eitthvað í þá veru að maður gæti a.m.k. ímyndað sér um Evrópubandalagið, sem horfði nú á æ fleiri ríki á hraðri ferð inn í Evrópubandalagið sjálft, ríki sem ætluðu a.m.k. sum hver að eiga einhverja biðstöðu í Evrópsku efnahagssvæði, að sá veruleiki leiddi hugsanlega til þess að bandalagið sæi sér ekki eins ríka nauðsyn á því að standa við þær skuldbindingar sem ég tel hvíla siðferðislega á bandalaginu eftir við getum sagt tvær samningslotur því muna má það að við töldum okkur og fleiri en við tvisvar hafa í hendi samning við þetta ágæta bandalag.
    Þetta var það sem ég efnislega sagði. Þetta mun kannski hafa verið túlkað með eilítið öðrum hætti. Ég hygg að fjölmiðlar hafi ekki verið komnir þegar ég hélt mína ræðu, komið aðeins síðar og hafa væntanlega þá fengið í einhverri endursögn það sem ég sagði á þessum fundi. En það var efnislega þetta sem ég sagði og ég fjallaði um ýmis önnur mál í okkar utanríkismálum í framhaldi af fundi leiðtoga Atlantshafsbandalagsins í Róm þar sem kom fram að Atlantshafsríkin væru flest hver mjög áfram um að viðhalda sterkri stöðu bandalagsins, en ég lét þess getið að auðvitað fyndi maður þann undirtón hjá flestum ef ekki öllum þar kynnu hlutir mjög að breytast innan skamms tíma og maður fann ákveðin skil á milli vilja annars vegar Bandaríkjanna, Bretlands, Kanada, Noregs og Íslands, a.m.k. af minni hálfu þar, og hins vegar annarra Evrópuríkja um áherslur í þeim efnum.
    Ég vakti líka athygli á að í Bandaríkjunum er að breytast afstaðan til varnarsamstarfs að sumu leyti af efnahagslegum ástæðum, að öðru leyti af vaxandi einangrunarhyggju og í þriðja lagi horfa Bandaríkjamenn frekar til annarra átta --- eða í vesturátt frá sér séð --- en þeir hafa hingað til gert.
    Ég veit að ég er kominn ansi langt frá bandorminum, en þetta eru hugleiðingar sem upp komu á þessum fundi og ég vona að ég hafi ekki orðið til þess, herra forseti, að hér verði efnt til almennrar umræðu um utanríkismál og mér verði kennt um að hafa rofið allt það óformlega samkomulag sem gert hefur verið.