Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 18:50:00 (2923)

     Valgerður Sverrisdóttir :
     Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um þetta umdeilda frv. þar sem hefur verið gert um það samkomulag að reyna að ljúka 2. umr. í kvöld án þess að haldinn verði kvöldfundur. En það voru nokkur tíðindi sem komu fram í máli hæstv. forsrh. og ég veit ekki hvort hann geri sér grein fyrir því sjálfur að fyrir örfáum klukkutímum svaraði hæstv. menntmrh. því svo að það kæmi í ljós í næstu viku hvort sá 180 millj. kr.

niðurskurður sem þarf að verða í grunnskólunum samkvæmt flata niðurskurðinum á að fara fram á fjárlagaárinu eða skólaárinu. Með því að hæstv. forsrh. hefur nú kveðið upp úr með það að þetta skuli verða fjárlagaárið er um gífurlega alvarlegt mál að ræða fyrir grunnskólann. Ég sé ekki hvernig í ósköpunum það verður framkvæmt.
    Hæstv. forseti. Það er ekkert nýtt í sjálfu sér að það séu lögð fram frumvörp í því formi sem kallað er bandormur. Ég get sagt frá því að þegar ég kom fyrst á þing sem varaþingmaður árið 1984 og vissi ekki mjög mikið um störf Alþingis og fannst margt nýstárlegt og margar spurningar sem vöknuðu, þá keyrði um þverbak þegar farið var að tala um bandorm í þingflokksherbergi Framsfl. Þetta er ekkert nýtt og í sjálfu sér ekkert um það að segja nema hvað frv. gengur kannski lengra en áður hefur verið í ýmiss konar --- það er kannski of stórt að segja óþverraskap en alla vega óréttlæti.
    Okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar þótti frv. orðið ærið óásjálegt fyrir hátíðar þegar ákveðið var að fresta þinghaldi en nú hefur hæstv. ríkisstjórn bætt um betur og aukið árásir á þá sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi. Það er hreint með ólíkindum að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa á nokkurn hátt reynt að ná til þeirra sem virkilega eru aflögufærir og það eru svo sannarlega ýmsir Íslendingar aflögufærir. Nei, það þarf að hlífa þeim ríku eftir þessu að dæma, enda eru þeir eflaust flestallir fylgismenn Sjálfstfl. og þeir sjá um sína.
    En það er af mörgu að taka í frv. og ég ætla ekki að gera að umtalsefni aðra þætti en grunnskólann þar sem tíminn er frekar naumur.
    Það voru ekki allir sáttir við það þegar orðið ,,barnaskóli`` var tekið út úr lögum og í stað þess var sett orðið grunnskóli sem heiti á þetta skólastig sem er þá sennilega fyrir áhrif frá nágrannaþjóðum okkar. En mér finnst núna einmitt að þetta heiti, grunnskóli, hafi ákveðna merkingu sem er mikilvæg og sem nú er vegið að. Vegna þess að hæstv. ráðherrar hafa e.t.v. betri skilning og meiri þekkingu á uppbyggingu húsa og mannvirkja en mannlegra þátta finnst mér að þeir hefðu átt að átta sig á því að alveg eins og það er mikilvægt að grunnur sé traustur í mannvirkjagerð er mikilvægt að grunnskólinn standi stöðugur og traustur sem undirbúningur undir lífið og sem undirbúningur undir frekara nám. Ef við gerumst svo hátíðleg að fara í samlíkingu í ritningunni kemur upp í hugann kaflinn um þann sem byggði hús sitt á bjargi og þann sem byggði hús sitt á sandi.
    En í bréfi frá forsrn. dags. 7. jan. 1992 eru lagðar til ýmsar breytingar á frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992 og það er það sem ég ætlaði sérstaklega að gera að umræðuefni vegna þess að ég hafði tekið til máls við 1. umr. um frv. eins og það leit út þá.
    Í breytingunni er kveðið á um að í stað þess að í 3.--10. bekk væru 29 nemendur að hámarki skuli þeir vera 28 skólaárið 1992--1993, en þegar sérstaklega stendur á geti fræðslustjóri ákveðið fjölgun um allt að tvo nemendur í bekkjardeild. Sem sagt, þá geti þeir orðið 30. Á þessu tiltölulega sakleysislega ákvæði ætlar hæstv. ríkisstjórn að spara tugi milljóna og það sem vakti athygli mína í umræðum í þingnefnd er að samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni menntmrn. var eins og það ætti ekki að verða neinn kostnaðarauki af því að breyta ákvæðinu frá því sem var í frv. þar sem hámarkið var 29 en að fara niður í 28. Það vekur hjá mér þær grunsemdir að það eigi alls ekki að nota 28 sem deilitölu í þessu sambandi heldur verði svo, ekki síst vegna þeirra nýju tíðinda sem hafa komið fram hjá hæstv. forsrh., að þessi sparnaður eigi allur að fara fram á þessu fjárlagaári, en þá sýnist mér að hæstv. menntmrh. hafi ekki mikið svigrúm og það verði þá úr, sem við höfum óttast og haldið fram í umræðunum, að það verði hrúgað saman 30 nemendum --- því að hvaða svigrúm hefur hæstv. menntmrh. annað en það að spara laun kennara og fækka bekkjardeildum um einhverja tugi?
    Samkvæmt könnun sem Samfok, samtök foreldrafélaga og kennarafélaga, gerðu sl. vetur er lengdur skóladagur og einsetinn skóli eitt af brýnustu hagsmunamálum foreldra og barna. Með grunnskólalögunum frá sl. vori var stigið skref í rétta átt, en nú er stigið stórt skref aftur á bak. Við vitum ekki hversu stórt, en í 3. gr. frv. segir m.a., með leyfi forseta:

    ,,Menntmrn. setur í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk með grunnskóla, þar með taldar valgreinar, og leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma.``
    Í sjálfu sér er þarna verið að færa vald löggjafans yfir til framkvæmdarvaldsins.
    Í viðtali í Morgunblaðinu 11. jan. sl. kemur fram að niðurskurðurinn muni ekki bitna á skyldugreinum í skólanum. Þetta kom fram fyrr í dag og hefur sjálfsagt komið fram aftur og aftur í umræðunum. Ég ætla að taka það fram áður en lengra er haldið að ég virði hæstv. menntmrh. fyrir það hversu vel hann hefur setið undir þessari umræðu. Hann á heiður skilið fyrir það og hann er eflaust orðinn þreyttur á að heyra sömu ákvæðin nefnd aftur og aftur. En þetta er stórt mál og ekki verður hjá því komist að ræða það allt saman.
    En það væri forvitnilegt að heyra í eitt skipti fyrir öll hjá hæstv. ráðherra hvernig er hægt að draga úr kennslumagni í grunnskólanum án þess að það bitni á skyldunámsgreinum sem kenndar eru samkvæmt námsskrá. Það fer nefnilega ekki önnur kennsla fram í grunnskólanum. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti sl. vor frumúttekt á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að lengja skóladaginn í grunnskólanum. Það kom fram að fáar fjárfestingar skila jafnmikilli arðsemi. Hæstv. ráðherrar eru ábyggilega vel inni í því hvað það orð merkir. Þarna var einungis metinn efnahagslegur ávinningur en ekki gildi menntunar fyrir einstaklinginn.
    Það verður ekki hjá því komist að maður setji í samhengi áhuga ákveðinna afla, a.m.k. innan Sjálfstfl., á einkaskólanum og þessum aðgerðum. Ég vil reyndar ekki gera hæstv. ráðherra upp þær skoðanir að hann ætli sér að stórskemma grunnskólann meðvitað. En ótti minn er sá að þessar aðgerðir verði svo afdrifaríkar fyrir grunnskólann að það verði erfitt að vinda ofan af því. En það eru þessar sparistundir sem hæstv. ráðherra hefur æði oft gert að umræðuefni og telur að megi kannski missa sig í þessum bekkjum. Með því að fækka um tvær á viku sparast ekki nema milli 50 og 60 millj. á haustönn þannig að það er æðimikið sem vantar upp á ef hæstv. menntmrh. þarf að fara að fyrirskipan hæstv. forsrh. í þessum efnum.
    Í reglugerð frá menntmrn. segir um stundir til ráðstöfunar, með leyfi forseta: ,,Hver skóli fyrir sig ákveður hvernig þessum stundum er ráðstafað til kennslu samkvæmt aðalnámsskrá grunnskóla.``
    Stundir til ráðstöfunar eru til kennslu samkvæmt aðalnámsskrá og það verður þá að ákveða hvað það er sem á ekki að kenna samkvæmt henni.
    Foreldrafélög í grunnskólum hafa verið að senda þingmönnum áskoranir á síðustu dögum þess efnis að samþykkja ekki tillögur um skerðingu fjárframlaga til grunnskólans og mætti lesa upp mörg bréf í því sambandi, en ég skal ekki gera það. En ef niðurstaðan verður sú, sem nefnd hefur verið, að aka börnum á milli skólahverfa til þess að fá alls staðar upp í töluna 30 nemendur í bekkjardeild, þá er það kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin sem ekkert hefur verið rætt um við þau. Borgarstjórnin í Reykjavík hefur ályktað um það efni og var vitnað í fulltrúa Sjálfstfl. Árna Sigfússon í fjölmiðlum nýlega þar sem hann heldur því fram að þessi sparnaður verði enginn þegar á heildina er litið því þarna muni verða færður kostnaður yfir til sveitarfélaga.
    En ég tel mig hafa heyrt einhvers staðar haft eftir hæstv. menntmrh. að við höfum ekki efni á að kosta því til grunnskólans sem okkur ber samkvæmt lögum og hæstv. forsrh. sagði líka að skólinn væri of dýr. Ég skora á hæstv. forsrh. að útskýra aðeins fyrir okkur hvað hann meinar með þeim orðum því að ég tók ekki eftir að hann gerði það áðan og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir lagði einmitt fyrir hann fyrirspurn í því sambandi í sínu máli.
    Í hvers konar þjóðfélagi búum við? Skyldum við vera eitt af þessum fátæku ríkjum sem hafa lágar þjóðartekjur? Svo er ekki því að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun, sem eru OECD-tölur og eru þær taldar hvað bestar og áreiðanlegastar í sambandi við samanburð á milli landa, erum við Íslendingar í 6. sæti hvað snertir þjóðartekjur á mann og yfir meðaltali OECD-þjóða. Ef meðaltalið er sett á 100 erum við með vísitöluna 101 og sú þjóð sem hæst kemst eru Bandaríkin með 133. Ekki er því hægt að kenna því um að við séum ein af þessum fátæku þjóðum og þess vegna þurfum við að spara í

grunnskólanum heldur er það miklu frekar að við erum rík þjóð, en það er spurning hvort við ráðstöfum fjármununum rétt og hvort forgangsröðin er rétt og sanngjörn.
    Ég vil að síðustu spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann óttist ekki að það verði erfitt að vinna það verk að afhenda skólunum aftur þær kennslustundir sem verða teknar af væntanlega í haust, ekki síst vegna þeirra orða hæstv. forsrh. að skólinn sé of dýr.