Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 19:17:00 (2926)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vona að það þurfi ekki að vera neinn misskilningur á milli okkar í þessum efnum. Það liggur fyrir til hvers er ætlast af menntmrn. í heildarniðurskurði. Ég hef margsagt að ég hafi efasemdir um að við náum þessum niðurskurði varðandi grunnskólann. Það er langerfiðasti þátturinn í þessum niðurskurði í menntmrn. og ég býst við að við séum sammála um að þar sé um viðkvæmasta þáttinn að ræða. Þess vegna hef ég sagt að ef sá niðurskurður náist ekki þar verði hann að nást annars staðar.
    Ég get ekki svarað því hér og nú í hvaða þáttum það verður. Það verður bara ekki í grunnskólanum. Því svaraði ég í dag. En það heyra margar stofnanir undir menntmrn. eins

og menn vita og það er þar sem við erum að vinna núna í þessum niðurskurðarmálum.
    Því verður að sjálfsögðu ekkert haldið leyndu fyrir Alþingi eða öðrum hvar þessi niðurskurður kunni að koma niður. En í skólakerfinu öllu getur hann ekki komið niður að neinu marki fyrr en á haustmissirinu, það er alveg ljóst.
    Varðandi það að við séum að fara á heimildir til að geta farið óbundnir frá Alþingi með niðurskurðarhnífinn, þá finnst mér að það sé alveg óþarfi að vera að snúa út úr þessu fyrir mér. Ég er að segja hér ítrekað hvert sé það hámark sem ég treysti mér til að ganga varðandi grunnskólann þannig að það er engin ástæða til að ætla mér að ég muni misnota þær heimildir sem ég fæ ef ég má nota það orð, þ.e. að nota þær í ríkari mæli en ég hef látið að liggja.