Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 12:39:00 (2941)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Þetta er síðasta brtt. í þessu frv. sem snertir grunnskólann og hér er um að ræða aðför að grunnskólakerfinu í heild. Hér er ætlunin að skerða tíma í verk- og listgreinum á næsta skólaári. Hér er ætlunin að skerða tíma til íslenskukennslu á næsta skólaári. Hér er verið að taka ákvörðun um almenna afturför í skólamálum meðan aðrar þjóðir auka við. Hér er verið að fjölga í bekkjum upp í 30 nemendur. Við teljum að þetta sé ávísun á verri lífskjör í framtíðinni og höfnum því þessari brtt. Við bendum jafnframt á að hluti af þeim breytingum, sem hér eru knúðar fram af Alþfl. og Sjálfstfl., er í raun og veru ekki um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hér er verið að framkvæma almenna breytingu á grunnskólalögum og rugla því saman við almenn efnahagsmál og ráðstafanir í ríkisfjármálum. Gleggsta dæmið um það er fyrsta brtt. sem samþykkt var hér í dag þar sem

sveitarfélögum er bannað að kosta skólamáltíðir á árinu 1992 eftir orðanna hljóðan. Hér er auðvitað um yfirgengileg vinnubrögð að ræða frá tæknilegu sjónarmiði séð af hálfu meiri hlutans en efnið er alvarlegast, það að hér er um að ræða almenna aðför að skólakerfinu í landinu. Ég segi nei, virðulegi forseti.