Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 12:43:00 (2942)

     Valgerður Sverrisdóttir :
     Hæstv. forseti. Með samþykkt 3. gr. þessa frv. fær ríkisstjórnin heimild til að skerða skólastarf í landinu og þar með er stigið stórt skref aftur á bak í undirstöðumenntun þjóðarinnar. Meiri hlutinn hér á Alþingi hefur með samþykkt fjárlaga samþykkt 180 millj. kr. niðurskurð í grunnskólum landsins. Hæstv. forsrh. hefur kveðið upp úr með það að fjárlagaárið skuli gilda en ekki skólaárið og hæstv. fjmrh. segir að það verði að fara að fjárlögum. Sú útgönguleið sem hæstv. menntmrh. hefur viðrað um að spara í öðrum stofnunum sem heyra undir ráðuneytið í stað þess að skera af grunnskólanum er því ófær. Samkvæmt þessu er verið að lama grunnskólastarf á haustönn. Við framsóknarmenn erum á móti því og greiðum því atkvæði gegn 3. gr.