Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 13:00:00 (2948)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Í þessum greinum frv. og brtt. sem þeim tengjast eru áform hæstv. ríkisstjórnar á ferðinni að hverfa frá þeirri ríkisábyrgð á laun starfsfólks sem missir vinnu sína við gjaldþrot fyrirtækja og velta byrðum af slíkum tryggingum yfir á atvinnulífið. Í leiðinni er ætlunin að skerða stórlega réttindi launafólks sem fyrir þessum áföllum verður. Það kemur úr hörðustu átt að þessi ríkisstjórn sem gert hefur gjaldþrotin að sérstöku aðalsmerki stefnu sinnar í atvinnumálum skuli samtímis því að innleiða stefnu gjaldþrotanna ráðast á þau réttindi sem launafólk hefur notið í þessum efnum. Nú á tímum fleiri gjaldþrota og vaxandi atvinnuleysis er ástæða til að ætla að þetta hitti fjölda fólks mjög illa fyrir á næstu mánuðum og missirum.
    Enn fremur liggur það fyrir, hæstv. forseti, að aðilar vinnumarkaðarins lýsa harðri andstöðu við þessar breytingar og boða að þær muni torvelda mjög gerð kjarasamninga sem fyrir dyrum standa. Einnig bitna þessar ráðstafanir illa á lífeyrissjóðakerfinu þar sem ætlunin er að hverfa frá því að tryggja iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða sem útistandandi eru þegar gjaldþrot verða. Með tilliti til alls þessa er í raun og veru óskiljanlegt að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi skuli einmitt nú við þessar aðstæður ætla að knýja þessar breytingar í gegn. Ég er því algjörlega andvígur þessum greinum frv. og brtt. sem á eftir fylgir og segi nei.