Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 13:11:00 (2950)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hér er verið að skerða ellilífeyri margra Íslendinga sem eru orðnir 67 ára gamlir en það sem er sérstaklega bagalegt í þessu máli er að hér er jafnframt verið að skerða sérstakar greiðslur til sjómanna á aldrinum 60--67 ára sem samið var um í kjarasamningum fyrir rúmum 10 árum síðan og voru samþykktar einróma á hv. Alþingi. Hér er um að ræða menn sem hafa mjög lítinn lífeyri og þetta var samþykkt sérstaklega í því ljósi. Nú er það ljóst að aðeins vinnutekjur koma til skerðingar í þessu sambandi en ekki lífeyristekjur. Það er því sérstaklega bagalegt að þetta samkomulag sem gert var fyrir rúmum 10 árum og gilti um margt fleira skuli vera sérstaklega rofið að því er varðar sjómannastéttina. Ég tel þetta óréttlátt og við framsóknarmenn munum því greiða atkvæði gegn þessu ákvæði og segi því nei.