Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 13:30:00 (2961)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um atkvæðagreiðslu) :
     Frú forseti. Ég ætla að lýsa yfir furðu minni með það að hæstv. heilbr.- og trmrh., ráðherra í ríkisstjórn, skuli láta bresta á hér með umræðu um tryggingamál í miðri atkvæðagreiðslu. Hér hefur staðið yfir látlaus umræða síðan fyrir jól um heilbrigðismálin og tryggingamálin m.a., svokölluð 2. umr. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ráðherrann hefur fengið fjöldann allan af spurningum. Hann hefur ekki komið hér upp og haldið eina einustu ræðu í þeirri umræðu. Hann hefur tvisvar tekið til máls um þingsköp, tvisvar farið í andsvör en aldrei sagt orð um þær breytingar að öðru leyti sem hann hefur lagt hér til og hans ríkisstjórn við 2. umr. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Og mér finnst þetta satt að segja mjög undarlegt og ég lýsi yfir furðu minni á þessari framkomu.