Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 13:31:00 (2962)

     Stefán Guðmundsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Hér hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. vegið sérstaklega að okkur framsóknarmönnum og á heldur ósmekklegan hátt. Þá er rétt að segja frá því rétta í málinu að í gegnum tíðina höfum við mátt sitja á Alþfl., við þingmenn Framsfl., við það að ná fram ákveðnum stefnumálum Alþfl. Og það er vissulega hryggilegt hvernig komið er fyrir þeim Alþfl. Það er ekki sá sami gamli og góði Alþfl. sem menn muna eftir. Nú eru komnir þangað nýir menn. Þeir hafa í gegnum tíðina reynt að beita sér að því að skerða kjör þeirra sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi, ráðast að sjúkum og öldruðum og núna síðast er það þrekvirki þeirra að vega að sjómannastéttinni í landinu. Framsfl. tókst í samstarfi sínu við þessa menn að tryggja það að þau áform náðu þá ekki fram en eftir stjórnarskiptin sem nú hafa orðið hefur Alþfl. fengið þann fylginaut sem hann þurfti til þess að koma þessum óhappaverkum sínum í framkvæmd.