Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 14:06:00 (2978)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um atkvæðagreiðslu) :
     Frú forseti. Þetta er að verða ansi hvimleið umræða sem hefur staðið hér í þingsalnum um allnokkurn tíma. Mér er ekki sú fortíð skyld sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur gert hér að umtalsefni. Ég get engu að síður ekki látið hjá líða að lýsa yfir enn og aftur hneykslun minni og vanvirðu á því hvernig hæstv. ráðherra kemur fram við þingmenn og þingheim allan. Hér hefur eins og ég hef bent á áður staðið látlaus umræða um þetta mál. Ég er ein af þeim þingmönnum sem eru nýir hér á þingi. Mér kemur þessi fortíð í sjálfu sér ekki við. Ég hef spurt hæstv. ráðherra fjölda spurninga. Hann hefur ekki virt mig svars og það gildir um fleiri þingmenn hér. Hins vegar getur hann staðið hér undir atkvæðagreiðslu látlaust í pontu og velt sér upp úr einhverri fortíð. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa yfir hneykslun minni á þessari framkomu.
    Ég kann að vera blaut bak við eyrun enn þá. En ég hef litið svo á að ráðherrar hefðu að ýmsu leyti ríkari skyldum að gegna hér en margur annar. Þeir hafa flest ráð í sínum höndum og þeim ber að sýna þingmönnum stjórnarandstöðu ákveðna kurteisi þó ekki sé nú annað og ekki sé farið fram á meira. Mér finnst eins og ráðherrar standi hér og vilji helst troða málunum ofan í okkur og þjappa á eftir. Ég hef ekki lyst á slíku vinnubrögðum, hæstv. heilbr.- og trmrh. og ég bið ráðherrann að hafa stjórn á sér. --- [Fundarhlé.]