Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 15:52:00 (2991)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Aðeins vegna þess að ég hygg að hv. þm. hafi misst af svari mínu áðan ætla ég að endurtaka það sem ég sagði þá af því að það er mikilvægt. Það er nefnilega hægt að ná og rétta af gengisskráninguna með öðrum hætti en þeim að fella gengi íslensku krónunnar. Það er nefnilega hægt að laga raungengi íslensku krónunnar með því að halda verðbólgunni, innlenda kostnaðinum það lágum að hann sé lægri en gengur og gerist í nágranna- og viðskiptalöndunum. Að því stefnir ríkisstjórnin og á því er skilningur hér á landi sem betur fer. Ef fram heldur sem horfir, ef okkur tekst að fylgja fram forsendum fjárlagafrv., mun það gerast hér í fyrsta skiptið að verðbólga á Íslandi verður lægri en verðbólgan í viðskiptalöndum okkar. Þetta vissi ég að hv. þm. missti af því að hann hvarf aðeins úr salnum hér áðan en vil að hann heyri eins og aðrir hafa nú heyrt hér tvisvar.