Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 16:59:00 (2997)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Þótt hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. séu fjarverandi vildi ég engu að síður segja það í tilefni af umræðu sem orðið hefur um síldarsölu til Sovétríkjanna að mér finnst það sérkennileg mótsögn hjá hæstv. ríkisstjórn að hæla sér af því, að mig minnir í desembermánuði, að viðurkenna Rússneska lýðveldið sem sjálfstætt ríki en koma svo í janúarmánuði og lýsa algeru vantrausti á helstu fjármálastofnanir og trúverðugleika skuldbindinga þessa sama ríkis. Það gengur einfaldlega ekki upp að hreykja sér af formlegri, diplomatískri viðurkenningu hins nýja ríkis og hafa síðan þá afstöðu til síldarsölumálanna eins og hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. hafa haft. Ég ætla hins vegar ekki að gera það að lengra máli hér en vildi láta skoðun mína koma fram því að ég hef ekki orðið var við að aðrir hafi bent á þennan þátt málsins sem snýr að hinni formlegu viðurkenningu íslensku ríkisstjórnarinnar á Rússneska lýðveldinu.
    Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs nú eru svör hæstv. fjmrh. og reyndar einnig hæstv. forsrh. sem þeir gáfu fyrr þegar þessi umræða fór fram fyrir nokkrum dögum. Ég vil fyrst segja nokkur orð um ræðu hæstv. forsrh. Mér fannst áberandi að hann gerði nánast enga tilraun til þess að sýna fram á það með rökum að raunvextir færu lækkandi á næstu mánuðum, hvað þá að hann gerði tilraun til þess að færa rök að fullyrðingu sinni sem sett var fram í desembermánuði þegar ríkisstjórnin kynnti næturákvarðanir sínar í efnahagsmálum að raunvextir lækkuðu strax á nýju ári. Hið eina sem hæstv. forsrh. sagði um væntanlega raunvaxtalækkun var að hann hefði trú á að það gerðist. Vandinn er bara sá að markaðurinn hefur ekki þessa trú. Og fyrri yfirlýsingar hæstv. forsrh. um þetta efni frá því í maí, frá því í sumar, frá því í haust, frá því í desember hafa allar reynst marklausar. Það blasir þess vegna við að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi afgreitt fjárlagafrv. og þrátt fyrir að við séum komin á lokastig afgreiðslu frv. til lánsfjárlaga, hefur peningakerfið í landinu ekki veitt hæstv. ríkisstjórn traustsyfirlýsingu. Og það er í raun og veru mjög merkilegt vegna þess að samtök launafólks hafa ekki heldur veitt ríkisstjórninni traustsyfirlýsingu að ég minnist nú ekki á skoðanakannanir. En ríkisstjórnin ætlaði sér hins vegar að starfa þannig að peningakerfið í landinu hlyti meira sjálfstraust vegna aðgerða stjórnarinnar. Það hefur peningakerfið í landinu ekki gert, þvert á móti. Síðast nú í dag lesum við viðtöl við forsvarsmenn bankakerfisins þar sem þeir lýsa því yfir að engin von sé til þess að raunveruleg vaxtalækkun sé fram undan.
    Í sjálfu sér þarf ekki að segja mikið meira um þetta mál. Hæstv. forsrh. hefur gefist upp á því í þinginu að sýna fram á það með rökum að raunvaxtalækkun verði afleiðing efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Og hæstv. fjmrh. hefur ekki heldur gert neina tilraun til þess og lái ég honum það ekki. Með ákvörðunum sínum um vexti spariskírteina ríkissjóðs í upphafi þessa árs hefur hann sýnt að hann ætlar sér ekki að ganga á undan í vaxtalækkuninni. Og það er nú einfaldlega þannig að ef bornar eru saman reynslutölur vaxtabreytinga á sl. tveimur árum hefur ríkissjóður ávallt orðið að ganga á undan í vaxtalækkuninni. Það hefur aldrei orðið nein vaxtalækkun ef ríkissjóður hefur ekki gengið á undan. Með því að neita að ganga á undan hefur hæstv. fjmrh. ákveðið að ekki verði nein raunvaxtalækkun á næstunni. Kannski hefur hann ekki treyst sér til þess og það ástand sem nú ríkir á markaði húsbréfa bendir einnig til þess að þetta sé nú þröngt í búi hjá hæstv. fjmrh.
    Einnig var athyglisvert að hæstv. forsrh. treysti sér ekki til þess að segja neitt um hvað ríkisstjórnin mundi gera til þess að koma til móts við samtök launafólks. Athyglisvert er að síðan hæstv. forsrh. gaf þá yfirlýsingu hefur miðstjórn Alþýðusambandsins gert sérstaka samþykkt þar sem kemur skýrt fram að ein af meginforsendum þess að kjarasamningar takist sé að ríkisstjórnin breyti þeim ákvörðunum sem hún er að knýja á um í atkvæðagreiðslu í þinginu í dag. Hæstv. fjmrh. hefur hvað eftir annað sagt, m.a. í ræðu sem hann flutti fyrr við þessa umræðu, að fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv. séu forsendur skynsamlegra kjarasamninga. Ég vil nú spyrja hæstv. fjmrh.: Gerir hann ekkert með álit Alþýðusambandsins í þeim efnum? Nú er það svo að ekki hefur verið hægt að gera skynsamlega kjarasamninga án þátttöku Alþýðusambandsins. Það liggur alveg fyrir hvað Alþýðusambandið segir og ég minni á hógværa en mjög vel rökstudda grein forseta Alþýðusambandsins í Morgunblaðinu í dag. Þar talar hann alveg skýru máli, æsingalaust. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh.: Er hægt að gera kjarasamninga án þess að taka mark á yfirlýsingum Alþýðusambandsins? Eða heldur hæstv. ríkisstjórn að Alþýðusambandið sé bara einhvers konar uppákoma þar sem menn segja eitt í dag og annað á morgun? Sjá menn í ríkisstjórninni ekki skýra samfellu í því sem Alþýðusambandið er að segja? Þess vegna er alveg ljóst að ef á næstu vikum og mánuðum á að takast að gera skynsamlega kjarasamninga og stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu verður ríkisstjórnin að draga til baka eitthvað af sínum ákvörðunum. Og skynsamlegra hefði verið fyrir hæstv. fjmrh. að búa sig undir þær ákvarðanir en þurfa ekki að koma til þingsins, kannski strax í næsta mánuði, og biðja þingið um að breyta einhverju sem verið er að pína í gegn nú að fest verði í lögbókina. Það vill nú svo til að þau atriði sem eru efst á blaði hjá verkalýðshreyfingunni, sem forsendur skynsamlegra kjarasamninga, er afnám þeirra atriða sem hæstv. heilbrrh. er að heimta að þingið samþykki í dag. Er Alþfl. í ríkisstjórninni kannski þeirrar skoðunar að ekkert mark sé takandi á Alþýðusambandinu? Formaður þingflokks Alþfl. bendir á hæstv. heilbrrh. Kannski ber að túlka það þannig að hæstv. heilbrrh. sé þeirrar skoðunar að það eigi ekki að taka neitt mark á Alþýðusambandinu. Ég veit að vísu af fyrri kynnum mínum við formann þingflokks Alþfl. að hann hefur stundum verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að taka mikið mark á Alþýðusambandinu. En það var nú í ,,den tid``. Ég skil satt að segja ekki hvernig hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að halda á málunum á næstunni. ( Gripið fram í: Þú varst sömu skoðunar í ,,den tid``.) Kannski er þetta allt saman meira og minna leikaraskapur. Við bíðum og sjáum. En hins vegar er alveg ljóst að þær ákvarðanir sem verið er að biðja menn að greiða atkvæði um munu ekki stuðla að skynsamlegum kjarasamnignum á næstunni.
    Nú langar mig að víkja aðeins að tveimur atriðum sem snerta hæstv. fjmrh. Hið fyrra má segja að sé nokkuð formsatriði en þó efnisatriði. Hér hefur ítrekað komið fram að hæstv. menntmrh. hyggst eingöngu framkvæma hluta af hinum svokallaða flata niðurskurði í menntamálum á þessu ári. Hæstv. forsrh. hefur að vísu sagt að ríkisstjórnin hafi ekki samþykkt þá stefnu en hæstv. menntmrh. hefur ítrekað hana í þinginu á síðasta sólarhring. Nú er ljóst að þær tölur sem eru í frv. til lánsfjárlaga eru ekki miðaðar við þessa yfirlýstu stefnu hæstv. menntmrh. Þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh.: Hver er afstaða hans í þessum málum? Mun hann meina hæstv. menntmrh. að framkvæma hinn flata niðurskurð með þeim hætti sem hann hefur lýst og standa þar með við lánsfjárlagafrv. eins og það er nú eða telur hann að breyta þurfi frv. í samræmi við það sem hæstv. menntmrh. ætlast til?
    Hitt atriðið sem ég vildi víkja að er það sem hæstv. fjmrh. sagði um fyrirspurn mína varðandi það hvernig færa skyldi þá tillögu að ríkissjóður yfirtæki 1,7 milljarða af skuldbindingum Framkvæmdasjóðs. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svarið og ég skildi það alveg, það var alveg skýrt. Vandi málsins er ekki að svar fjmrh. sé ekki skýrt. Vandi málsins er að í þinginu er frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990. Og þar liggur fyrir brtt. frá fjárln. þar sem lagt er til að við 3. gr. frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990, þ.e. gjaldagreinina, bætist nýr liður, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, 1 milljarður 458 þús. 283 kr. Talsmenn fjárln. hafa lagt til að þetta verði gert með þessum hætti og spurning mín vék að því hvernig það færi heim og saman að ætla sér að samþykkja tillögu fjárln. við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 --- ekki ríkisreikninginn heldur frv. til fjárlaukalaga --- en ætla sér ekki að gjaldfæra 1.700 millj. kr. vegna Framkvæmdasjóðs á árinu 1992. Ef við hefðum verið að fjalla um ríkisreikning á árinu 1990 hefðum við skilið samhengið í afstöðu fjárln. og því sem hæstv. fjmrh. sagði. Hins vegar verð ég að segja að þrátt fyrir afar skýra yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um það hvernig hann teldi að fara ætti með Framkvæmdasjóðinn --- og ég hef engan ágreining við þá lýsingu að gera --- er ekki hægt að afgreiða Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins með þeim hætti sem hér er lagt til af hálfu fjárln.
    Ég sé að hv. þm. Pálmi Jónsson er kominn í hliðarherbergi og ég vil vekja athygli hans á því að í svari við fyrirspurn minni upplýsti hæstv. fjmrh. að það væri skoðun hans að yfirtöku ríkissjóðs á skuldbindingum vegna Framkvæmdasjóðs, sem ætlunin er að samþykkja við afgreiðslu þessa frv., bæri ekki að gjaldfæra á útgjaldahlið fjárlaga fyrir árið 1992. Ég gerði ekki athugasemd við þá lýsingu hæstv. fjmrh. en benti hins vegar á að á þskj. 293 er brtt. frá fjárln. varðandi fjáraukalög fyrir árið 1990 þar sem lagt er til að yfirtaka skuldbindinga vegna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins verði gjaldfærð í heild sinni á því ári. Ég vildi gjarnan inna hæstv. fjmrh. nánar eftir því hvort hann er mér ekki sammála um það að mótsögn er í því sem hann lýsti að ætti að vera meðferðin á yfirtökunni á skuldbindingum Framkvæmdasjóðs ríkisins og því sem fjárln. hefur lagt til á þskj. 293 varðandi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Mér er mjög illa við að þessu ljúki þannig að þetta lykilatriði verði ekki skýrt, annaðhvort með því að forsvarsmenn fjárln. lýsi því yfir að þeir dragi tillögu sína til baka eða að hæstv. fjmrh. lýsi því skýrt yfir að hann sé ekki sammála tillögunni og muni beita sér fyrir því að henni verði breytt. Ég ætla ekki á þessu stigi að gera því skóna að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi fari að standa að því að samþykkja 1.700 millj. kr. yfirtöku vegna Framkvæmdasjóðs og gjaldfæra það ekki á árinu

1992 en ætla sér svo kannski eftir fáeinar vikur að samþykkja brtt. 293 frá fjárln. Ég vildi þess vegna, virðulegi fjmrh., óska eftir því að ráðherrann tjáði sig aðeins nánar um þetta samhengi við tillögur fjárln. af því að þær eru ekki við ríkisreikningsfrv. heldur við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990.
    Ég vék einnig að því atriði að í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki tekist að ná nema um það bil 30% árangri í þeim efnahagsaðgerðum sem hún beitti sér fyrir á sl. sumri. Ég innti hæstv. forsrh. aðeins eftir því hver væri skýring hans á því að ríkisstjórn sem ætlaði sér sex milljarða árangur náði aðeins tveimur. Ég fékk eiginlega engin svör frá hæstv. forsrh. um það atriði. Ég benti honum hins vegar á að það væri heldur óvarlegt hjá honum í ljósi þessarar reynslu, þessarar fyrstu göngu, að ná bara 30% árangri og vera mjög glaðbeittur í yfirlýsingum um þessar mundir um að 100% árangur yrði í ríkisfjármálapappírunum fyrir það ár sem nú er nýhafið. Ég vil aðeins inna hæstv. fjmrh. eftir því án þess að fara fram á langar skýringar af hans hálfu. En gagnlegt væri að fá lítillega hugleiðingar hans um það hvers vegna hann telur að ríkisstjórnin hafi aðeins náð þessum litla árangri með fyrstu aðgerðum sínum og hvers vegna hann telur að hún muni ná 100% árangri eða svo, því að ég heyri hæstv. fjmrh. hvað eftir annað lýsa því yfir að munurinn á fyrri árum og þessu sem nú er nýbyrjað sé að nú verði staðið við allar áætlanir með tölu. Ég held að sú yfirlýsing sé ekki mjög skynsamleg. En það á eftir að koma á ljós og ekki ætla ég að slá á bjartsýni fjmrh. í þessum efnum.
    Virðulegi forseti, nokkur umræða varð fyrr í dag um þjóðhagsspá og hvers vegna hæstv. ríkisstjórn hefði orðið að taka þetta allt saman upp sem hún lagði fyrir þingið í október. Ég vil aðeins minna hæstv. fjmrh. á að ég varaði hann strax í sumar opinberlega við því að reikna með álversframkvæmdum á þessu ári í fjárlagafrv. sínu. Ekki var hlustað á þau viðvörunarorð heldur var haldið áfram að undirbúa fjárlögin og byggt á þeirri forsendu að álverssamningar tækjust og framkvæmdir hæfust í ár.
    Þegar fjárlagafrv. var lagt fram varaði ég hæstv. fjmrh. aftur við því að miða ekki meðferð frv. í þinginu við að þetta mundi allt saman ganga eftir. Ekki var heldur hlustað á það. Það var ekki fyrr en Drack hafði sagt þessum snillingum þennan vísdóm að tekið var mark á því. ( Fjmrh.: Hann réð kannski heldur meiru en þú í málinu.) Vel getur verið að hann hafi ráðið meiru en það mikil teikn voru á lofti, virðulegi fjmrh., að það var mjög óskynsamlegt að miða frv. við álversframkvæmdirnar. Skynsamlegra hefði verið að taka þá ákvörðun að miða allt frv. og undirbúninginn sl. sumar við að framkvæmdirnar hæfust ekki en skoða þær síðan sem bónus ef þær hæfust til þess að minnka hallann sem örugglega hefði orðið einhver á frv. Sú leið hefði verið skynsamlegri og eiga það þá inni ef af því yrði frekar en að miða frv. allt við fugl í skógi sem ekki væri í hendi. Hefði fjmrh. síðan fengið fuglinn í höndina, annaðhvort fyrir áramótin eða í byrjun nýs árs, hefði hann örugglega getað hagnýtt sér þann tekjuauka sem þá hefði orðið til að minnka hallann sem engu að síður birtist í frv. Þetta er auðvitað liðin tíð. Ég held hins vegar að hæstv. ráðherra ætti að viðurkenna að þetta voru sjálfskaparvíti. Þetta var uppsetning á dæminu sem þeir sköpuðu sjálfir og voru fyrst og fremst ill tíðindi fyrir þá en ekki aðra. Ef við sem sátum utan Stjórnarráðsins gátum áttað okkur sæmilega á þessu hvers vegna hefðu menn ekki innan Stjórnarráðsins getað áttað sig á því? Ég veit hver skýringin er. Skýringin er sú að það var pólitískt nauðsynlegt fyrir hæstv. iðnrh. að sýna að þetta mundi verða. Ég tel að það hafi verið örlagarík mistök hjá hæstv. fjmrh. að taka þannig tillit til pólitískra hagsmuna iðnrh., sérstaklega kjördæmishagsmuna hans.
    Það er einu sinni hlutverk fjmrh. að vera vondur við samráðherra sína. Það sem ég hef hvað mestar áhyggjur af varðandi núv. hæstv. fjmrh. er að samráðherrar hans eru alltaf að hæla honum. Fjmrh., sem er vinsæll hjá samráðherrum sínum, er á einhverjum villigötum og ég get alveg endurtekið það sem ég hef sagt hér fyrr að fjmrh., sem er vinsæll hjá félmrh., er greinilega orðinn eitthvað villtur í skóginum. Skynsamleg efnahagsstjórn hér á landi hlýtur að byggjast á því að fjmrh. haldi í við félmrh., sérstaklega á sviði húsnæðismála ( Gripið fram í: Og sé óvinsæll.) og sé óvinsæll í ríkisstjórninni. ( Gripið fram í:

Og yfirleitt.) Og yfirleitt, látum það nú vera. Hæstv. fjmrh. getur út af fyrir sig glaðst yfir vinsældum sínum en ég held að það sé ekki til farsældar. Það er a.m.k. alveg ný formúla fyrir árangursríkri hagstjórn að hún byggist á vinsældum fjmrh. hjá samráðherrum sínum.
    Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. fjmrh. segi nokkur orð í viðbót um þessi atriði sem ég hef nefnt og ítreka nauðsyn þess að fá sæmilegar skýringar á afstöðu hans áður en atkvæðagreiðslan fer fram.