Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 18:07:00 (3004)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vil aðeins endurtaka þá afstöðu mína að ég tel að hækka eigi skatta á fólki með tilliti til tekna en ekki með tilliti til barnafjölda. Það er ósanngjarnt að hækka skatta þeirra sem eiga mörg börn og hafa verulegar tekjur en ekki skatta þeirra sem hafa háar tekjur en eiga engin börn. Þetta hlýtur hæstv. fjmrh. að skilja að er sanngirnismál enda hefur því verið mótmælt af launþegahreyfingunni í landinu og væri ástæða fyrir hæstv. ríkisstjórn að taka tillit til þess sem sagt er á vinnumarkaði, jafnvel þótt ekki sé tekið tillit til þess sem stjórnarandstaðan segir við umræður um þessi mál.
    Ég skil hæstv. fjmrh. þannig, að því er varðar sérstök gjöld á þessar stofnanir, að neiti bankaráð bankanna að greiða þennan arð þá muni hann þurfa að sætta sig við það. Ef t.d. bankaráð Landsbankans samþykkir að gera það en bankaráð Búnaðarbankans neitar því þá þurfi aðeins annar bankinn að greiða. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki, hæstv. fjmrh., en ég tel að hér hafi í reynd verið staðfest að þessu verður ekki komið í framkvæmd nema með sérstakri löggjöf nema þá að samningar takist um málið við viðkomandi stofnanir. En ég sé ekki ástæðu til að ætla að þeir muni takast miðað við það að áður hafi bréfverið skrifað um sambærilegt mál eins og hæstv. fjmrh. upplýsti hér og því hafi þá verið neitað. Af hverju hefur hæstv. fjmrh. ástæðu til að ætla að því verði ekki neitað við þær aðstæður sem nú eru?