Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 18:12:00 (3007)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Vegna síðustu orða síðasta ræðumanns þá er það alveg rétt að ef ríkissjóður yrði gerður upp á rekstrargrunni þá mundu tölurnar hækka en þá verður einnig að taka tillit til annarra þátta sem gætu breytt niðurstöðutölunum í aðrar áttir en þær sem hann getur um í sínu máli. Bæði þarf að taka gjalda- og teknamegin þegar við ræðum þetta. Um þetta er reyndar ítarlega fjallað í frv. til fjárlaga fyrir yfirstandandi ár.
    Að hinu leytinu vil ég benda hv. þm. á að í þjóðhagshorfum kemur mjög skýrt fram að í fyrsta skipti, að ég hygg í langan tíma, er gert ráð fyrir að samneyslan dragist saman. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að samneyslan dragist saman um 0,3% miðað við sl. ár og ég hygg að langur tími sé síðan slíkt hefur gerst hér á landi ef þetta gengur eftir.