Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 18:14:00 (3008)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er tjáð að ástæðan fyrir samdrætti í samneyslunni sé vegna þess að þjónustugjöldin séu núna færð sem einkaneysla. Svona ,,bókhaldstrikk`` segja því ekki mikið.
    Enginn ágreiningur er hjá mér við hæstv. fjmrh. um færsluna á rekstrargrunni. Tillaga fjárln. er hins vegar um að þetta verði fært á greiðslugrunni. Það er vandamálið sem hæstv. fjmrh. stendur frammi fyrir. Tillaga fjárln. er um að þetta verði fært í fjáraukalögunum á 3. gr., útgjaldagreinina í fjárlagafrv. Þetta bið ég hæstv. fjmrh. að athuga utan fundar þótt það sé kannski dálítið skrýtið að ég sé að hafa áhyggjur af þessari stöðu hæstv. fjmrh. Það er einu sinni þannig að mér fyndist ekki alveg sanngjarnt hjá honum að lenda í þeirri stöðu.
    Að lokum vil ég segja það að mér fannst það sem hæstv. ráðherra sagði um kjarasamningana dálítið skrýtið. Hann sagði að auðvitað vildi ríkisstjórnin tala við ASÍ en ekki fyrr en á lokastigi. Vandinn er hins vegar sá að það sem ASÍ er að glíma við núna er 2% kjaraskerðing vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar. Það liggur alveg fyrir. Þegar Alþýðusambandið mætir Vinnuveitendasambandinu nú á nýjan leik hefur það gerst í millitíðinni að ríkisstjórnin hefur rýrt kaupmáttinn um 2% vegna skattahækkana. Það er það sem Alþýðusambandið vill ræða við ríkisstjórnina í byrjun vegna þess að Alþýðusambandinu finnst það óeðlilegar leikreglur að ríkisstjórnin sé í krafti skattahækkana að rýra kaupmáttinn.
    Hæstv. fjmrh. sagði að samninganefnd ríkisins mundi ræða við aðildarfélög BSRB í þessari eða næstu viku og flutti það sem einhver sérstök gleðitíðindi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Ætlar samninganefndin ekki að segja það sama þar og hún hefur sagt hingað til, að engin kauphækkun verði hjá opinberum starfsmönnum? Ef svarið er nákvæmlega það sama eru slík fundahöld engin tíðindi.