Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 18:48:00 (3011)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Örfá atriði langar mig til að nefna eftir þessa ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e.
    Í fyrsta lagi vil ég að það komi hér fram að þótt ekki hafi verið samið við forustumenn bænda um að fresta beinum greiðslum þá átti ég samtöl við forustumann Stéttarsambands bænda áður en ákvörðunin var tekin. Ég vissi þá þegar að um samkomulag yrði ekki að ræða en ég taldi mér að sjálfsögðu skylt að ræða við formann Stéttarsambandsins áður en til þessa var gripið. Það er því ekki hægt að halda því fram að ekkert hafi verið talað við viðkomandi aðila.
    Það eina sem mig langar til að ræða hér í örstuttu máli í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumanns er þetta: Með því að lesa úr Dagblaðinu og úr Morgunblaðinu í dag er hægt að sýna fram á að það er ekki ríkið sem heldur uppi þessum háu vöxtum, heldur þvert á móti eru það bankarnir vegna hinna óverðtryggðu skuldbindinga sinna. Það er rétt sem sagt er í DV og hv. ræðumaður vitnaði til að raunvextir ruku upp síðari hluta ársins þegar verðbólgan lækkaði á þessum skuldbindingum. Þar með myndaðist vaxtamunur sem vann upp það vaxtatap sem bankarnir urðu fyrir á fyrri hluta ársins.
    Það er líka rétt sem kemur fram í Morgunblaðinu og haft er eftir annars vegar Ragnari Önundarsyni og hins vegar Brynjólfi Helgasyni að forsendur eru fyrir lækkun vaxta á óverðtryggðu skuldbindingunum, lánunum. Það er einnig rétt að verðbólguviðmiðanir bankanna hafa ekki verið í takt við þær spár sem eðlilegast er að fylgja og búast má við að vaxtalækkun verði á næstunni nema niðurstaða kjarasamninga verði öðruvísi en menn ætla. Það eru einmitt kjarasamningarnir sem mynda þá óvissu á peningamarkaðnum sem eftir er tekið í dag.
    Órækasti vitnisburðurinn eru orð þessara þriggja manna og þó einkum og sér í lagi viðskiptabankamannanna, um að beðið er eftir kjarasamningum. Við skulum ekkert vera að tala hérna neina tæpitungu, við skulum bara viðurkenna það sem hér er sagt, að bankarnir eru brenndir af því að hafa tekið þátt í kjarasamningum í upphafi þjóðarsáttartímabilsins og þeir vilja núna eiga borð fyrir báru. Þeir vilja ekki lækka vextina strax af ótta við að ef um einhverjar launahækkanir yrði að ræða þyrftu þeir að hækka nafnvextina aftur. Þess vegna er ég sannfærður um að þegar hefur verið lagður grunnur að vaxtalækkunum og ég bendi á að ríkið selur núna spariskírteini með 7,9% vöxtum en bankarnir eru að lána út peninga með raunvöxtum sem eru kannski 12--13% í dag. Það sjá allir viti bornir menn að vaxtamunurinn þarf ekki að vera svo mikill að bankarnir þurfi að lána út á þessum vaxtakjörum þegar tillit er tekið til þess að í þessum tilvitnuðu greinum er sagt frá því að

raunvextir á sparibókum og tékkareikningum eru auðvitað langt undir núllinu. Það eru neikvæðir raunvextir á slíkum reikningum. Um þetta þurfum við raunar ekki frekar að tala.
    Ég ætla ekki að ræða hér um sanngirni í því hvernig á að deila byrðunum þegar illa gengur, það hef ég gert fyrr í dag. En ég vil benda á að með því að lækka raungengið og lækka verðbólguna eins og margoft hefur verið sagt þá er engin ástæða til að tala um stórkostlegan háska eða um þá svartsýni sem hv. ræðumaður nefndi í sinni ræðu. Það er fullt tilefni til, ef okkur tekst okkar ætlunarverk, að draga úr lánsfjáreftirspurninni, að lækka þar af leiðandi vextina, að vera bjartsýn því þá skapast olnbogarými, svigrúm fyrir fólkið í þessu landi til að byrja upp á nýtt að láta atvinnulífið snúast. Og ég segi: Það er fólkið sjálft sem á að hafa frumkvæði í þeim efnum því að við höfum horft á það í mörg undanfarin ár að í öll þau skipti, við skulum segja ekki öll en í mörg þau skipti sem ríkið hefur ætlað sér að taka frumkvæði og gera eitthvað með stórkostlegu átaki þá hefur það oftlega mistekist, því miður. Og það er reynsla annarra þjóða líka, kannski ekki síst þeirra þjóða sem eru nýfrjálsar og köstuðu af sér oki kommúnismans, að átta sig á því að ríkið á að draga saman seglin en leyfa fólkinu og frumkvæði þess að njóta sín. Það er á grundvelli þessarar stefnu sem núv. ríkisstjórn vill starfa. Og hún vill þess vegna þegar draga þarf saman seglin að draga þau það duglega saman að svigrúm myndist fyrir þá sem geta skapað grundvöll fyrir hagvöxt í landinu.