Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 18:59:00 (3014)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Það er alveg rétt eins og oft hefur komið fram að óvissa í kjarasamningum er ein uppgefin ástæða viðskiptabankanna og Seðlabankans fyrir háu raunvaxtastigi. Önnur ástæða er röng verðbólguspá, hærri verðbólguspá sem bankarnir hafa stuðst við, og tregða þeirra til að láta vextina fylgja niður í lækkandi verðbólgu. En þriðja ástæðan sem bæði viðskiptabankarnir og Seðlabankinn hafa gefið upp, og ég tel í fullri alvöru vera, er ósköp einfaldlega þessi viðmiðun við ríkisskuldabréfavextina.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að fá fyrirtæki á Íslandi í dag eru því miður svo vel stæð að þau njóti þessara bestu kjara. En þetta eru eftir sem áður auglýstir almennir vextir, kjörvextir. Og bankarnir segja ósköp einfaldlega: Það er ekki hægt að ætlast til að við förum með okkar útlánsvexti, auglýstu almennu útlánsvexti, þó svo að það sé ekki nema hluti fyrirtækjanna sem nýtur þeirra kjara, niður fyrir ríkisskuldabréf. Hvernig væri ástandið í raun og veru ef það gerðist? Ég held að menn hljóti að þurfi að hugleiða og viðurkenna hvernig þetta er. En hæstv. fjmrh. er hér að reyna að verja hávaxtastefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur engum árangri skilað, ekki skilað auknum sparnaði og ekki betra jafnvægi á fjármagnsmarkaði nema síður sé. Og hann er að reyna að breiða yfir þá staðreynd hvílík hrikaleg mistök ákvörðun ríkisstjórnarinnar í maí sl. var, að hækka vaxtastigið í landinu, eins og ríkisstjórnin gerði. Að síðustu reynir svo hæstv. fjmrh. sama lágkúrulega leikinn og hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. að gera bankana að einum allsherjarsökudólgi í öllum greinum. Rétt eins og Sverrir Hermannsson og Landsbankinn eiga að hafa klúðrað síldarsölusamningunum en ekki viðskrh. sem svaf á málinu í 17 daga þá er hæstv. fjmrh. að reyna að sleppa hér billega með því að varpa allri skuldinni af háum vöxtum og jafnvægisleysi á peningamarkaði yfir á bankana. Þetta er ekki stórmannlegt, hæstv. fjmrh.